Tökum höndum saman: Öll heil heim

Vinnueftirlitið stendur fyrir aðgerðavakningunni #Tökum höndum saman: Öll heil heim. Markmið hennar er að vekja athygli á því að atvinnurekendum ber að sjá til þess að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað, án tillits til stærðar hans.
Áætlunin, sem felur í sér áhættumat og áætlun um heilsuvernd og forvarnir, er grunnur að góðu vinnuverndarstarfi og heilbrigðri vinnustaðamenningu. Vel unnin áætlun, sem stuðst er við í daglegri starfsemi, er lykill að öryggi og vellíðan starfsfólksins.
Hér á síðunni má nálgast fræðsluefni og hjálpargögn við gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði.
Það er til mikils að vinna. Öll heil heim.
Öryggi og vellíðan starfsfólks er daglegt viðfangsefni
Við erum allan daginnn að bregðast við áhættu í daglegu lífi til að fyrirbyggja slys og óhöpp. Við snúum hnífunum niður í uppþvottavélinni og setjum vetrardekk undir bílinn. Það sama ætti að gilda í vinnuumhverfinu eins og myndband hér að ofan sýnir.
Vinnueftirlitið hvetur stjórnendur og starfsfólk til að opna samtal um öryggi og vellíðan á vinnustöðum, sama hvers eðlis starfsemin er. Förum yfir áhættur, skrifum þær niður og ákveðum hvernig við ætlum að fyrirbyggja þær.
Hvernig er áætlun um öryggi og heilbrigði gerð?
Í myndbandinu er útskýrt á einfaldan hátt hvað áætlun um öryggi og heilbrigði er og hvernig hún er unnin.

Nánar um áætlun um öryggi og heilbrigði
Áætlun um öryggi og heilbrigði á að stuðla að öryggi og vellíðan starfsfólks á vinnustöðum. Hún felur í sér áhættumat og áætlun um heilsuvernd og forvarnir. Áætlunin á að gefa gott yfirlit yfir áhættur á vinnustað og fela í sér mat á líkum þess að þær raungerist og þá hversu alvarlegar afleiðingarnar yrðu.
Þegar áhættmat liggur fyrir þarf að velja aðgerðir til að koma í veg fyrir áhætturnar eða draga úr þeim þannig að þær hafi óveruleg áhrif á starfsfólkið. Slíkar aðgerðir kallast forvarnir.
Þegar forvarnir hafa verið ákveðnar og þeim forgangsraðað er mikilvægt að skrá þær niður, tímasetja innleiðingu þeirra og tilgreina ábyrgðaraðila. Þá er komin áætlun um heilsuvernd og forvarnir.

Taktu fimm - til öryggis fyrir þig og þína
Til viðbótar við áhættumat á vinnustað er mjög gott að hver og einn meti daglega áhætturnar í vinnuumhverfinu í upphafi vinnudags og þá sérstaklega áður en haldið er í nýjar aðstæður eða verk sem unnin eru sjaldan. Þetta getur verið sérstaklega mikilvægt á vinnustöðum þar sem aðstæður eru síbreytilegar eins og í mannvirkjagerð. Í raun má horfa á þetta sem persónulegt áhættumat.
Gefðu þér tíma og taktu fimm - til öryggis fyrir þig og þína.

Hvað veist þú um áætlun um öryggi og heilbrigði?
Kannaðu þekkingu þína á áætlun um öryggi og heilbrigði, áhættumati og áætlun um heilsuvernd og forvarnir.
Þurfa allir vinnustaðir að vera með áætlun um öryggi og heilbrigði?
Allir vinnustaðir þurfa lögum samkvæmt að vera með skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði óháð stærð. Mikilvægt er að öll á vinnustað taki þátt í gerð hennar. Það er ekki jafn flókið og það mögulega hjómar. Fyrsta skrefið er hefjast handa.
Þrjú stig forvarna
Viltu vera í lagi eftir daginn? Eitt gott ráð til þess er að tryggja að forvarnir á vinnustaðnum séu í lagi. Í meðfylgjandi myndbandi er þremur stigum forvarna lýst með dæmi.
Taktu fimm
Áður en hafist er handa við hverskyns vinnu er æskilegt að gera eigið persónulegt áhættumat. Gerðu þér greiða taktu fimm skref til að auka bæði öryggi þitt og annarra. Skrefunum er nánar lýst í myndbandinu hér að neðan.