Samstarf við Stafrænt Ísland
Stofnarnir og opinberir aðilar sem vilja efla sína stafrænu þjónustu geta sótt um samstarf við Stafrænt Ísland og fengið ráðgjöf og liðsinni við greiningu, innleiðingu og breytingastjórnun sem tengist stafrænni vegferð.
Ráðgjöf Stafræns Íslands er stofnunum að kostnaðarlausu og er klæðaskerasniðin að þörfum viðkomandi rekstrar og hlutverki stofnunarinnar.
Dæmi um verkefni:
Vefur stofnana á Ísland.is. Stofnanir sem eru komnar á Ísland.is.
Tenging opinbera aðila við Stafrænt pósthólf.
Stafvæðing umsókna og eyðublaða stofnunar.
Innleiðing þjónustukerfis til að svara fyrirspurnum og beiðnum frá almenningi.
Tenging við Strauminn sem auðveldar gagnaflutning milli stofnana.
Gerð vegvísis um stafræn skref stofnunar.
Stafrænt Ísland vinnur að þróun fjölbreyttra stafrænna lausna í samvinnu við landslið Íslands í hugbúnaðargerð. Stofnanir og opinberir aðilar geta nýtt sér þessar kjarnaþjónustur Stafræns Íslands til að hraða stafrænni umbreytingu.
Ávinningur fyrir stofnanir felst ekki aðeins í bættri þjónustu við almenning og tímasparnaði starfsfólks heldur einnig í aukinni samvinnu stofnana og samrekstri, öryggi og aðgengi fyrir alla.
Samstarfsverkefni eru valin og þeim forgangsraðað eftir ávinningi þeirra, meðal annars út frá fjölda notenda sem þjónustan mun hafa áhrif á og umfang verkefna innan stofnana. Slíkt gerir Stafrænu Íslandi kleift að forgangsraða umsóknum og flýta afgreiðslu þeirra.
Efling stafrænnar þjónustu er eitt af forgangsmálum stjórnvalda og unnið er að því að stafræn samskipti verði meginsamskiptaleið almennings við hið opinbera.
Hvað gerist næst:
Innsendar umsóknir teknar fyrir mánaðarlega.
Formlegt svar, samþykkt eða hafnað sent til umsækjanda.
Ef þú ert með fyrirspurn varðandi samstarf við Ísland.is sendu okkur línu á netfangið island@island.is.