Fara beint í efnið
Skipulagsstofnun Forsíða
Skipulagsstofnun Forsíða

Skipulagsstofnun

Um umhverfismat áætlana

Umhverfismat áætlana felst í að meta áhrif tiltekinna áætlana á umhverfið og nýta niðurstöður matsins til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum þeirra.

Umhverfismat á að vinna sem hluta að mótun ýmissa áætlana, svo sem skipulagsáætlana sveitarfélaga og áætlana á borð við rammaáætlun og samgönguáætlun.

Ákvæði um umhverfismat áætlana er bæði að finna í lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana og í 12. gr. skipulagslaga.

Umhverfismat áætlana og mat á umhverfisáhrifum framkvæmda

Umhverfismat áætlana er hugsað sem undanfari mats á umhverfisáhrifum einstakra framkvæmda.

Við mat á umhverfisáhrifum áætlunar, gefst tækifæri til að leggja mat á víðtækari umhverfisáhrif þeirrar stefnu sem þar er sett fram og á mismunandi valkosti, til dæmis um mismunandi staðsetningar- og legukosti.

Við umhverfismat einstakra framkvæmda er síðan lagt ítarlegra mat á umhverfisáhrif viðkomandi framkvæmdar og nánari útfærslu hennar.

Umhverfismat áætlana felur í sér:

  • Umhverfismat þeirrar stefnu sem sett er fram í viðkomandi áætlun. Liður í slíku mati er samanburður á umhverfisáhrifum mismunandi valkosta.

  • Kynningu og samráð við almenning og stofnanir um viðkomandi áætlun og umhverfisáhrif hennar, áður en áætlunin er afgreidd.

  • Að höfð sé hliðsjón af umhverfismati við afgreiðslu áætlunar.

  • Áætlun um vöktun umhverfisáhrifa við framfylgd áætlunar.

Hlutverk aðila við umhverfismat áætlana

Að gerð umhverfismats koma ýmsir aðilar, sem gegna ólíkum hlutverkum:

  • Sá sem ber ábyrgð á áætlun, ber jafnframt ábyrgð á umhverfismati hennar. Sem dæmi um ábyrgðaraðila má nefna sveitarstjórn, sem ber ábyrgð á umhverfismati aðalskipulags, eða verkefnisstjórn um gerð rammaáætlunar, sem ber ábyrgð á umhverfismati þeirrar áætlunar.

  • Opinberar stofnanir og sveitarfélög veita umsagnir um áætlanir sem eru í mótun og umhverfismat þeirra.

  • Almenningur getur komið á framfæri ábendingum og athugasemdum við auglýsta tillögu að áætlun og umhverfismat hennar.

  • Skipulagsstofnun sér um framkvæmd laga og reglugerðar um umhverfismat framkvæmda og áætlana auk skipulagslaga og -reglugerðar sem einnig hafa að geyma ákvæði um umhverfismat áætlana. Stofnunin:

    • Gefur umsögn um matslýsingu til forsvarsaðila áætlunarinnar. (Forsvarsaðili útbýr matslýsingu í upphafi áætlanagerðar, þar sem hann greinir frá því hvernig fyrirhugað er að standa að umhverfismati áætlunarinnar.)

    • Hefur aðgengilegar á Skipulagsgátt þær tillögur að áætlunum og umhverfismat þeirra sem eru í kynningu hverju sinni (þó eru deiliskipulagstillögur almennt eingöngu kynntar hjá viðkomandi sveitarfélögum).

    • Varðveitir og miðlar upplýsingum um áætlanir sem hafa verið umhverfismetnar.

Skipulagsstofnun

Hafa samband

Sími 595 4100
skipulag@skipulag.is

Opnun­ar­tími

Mánudaga til fimmtudaga: 9 til 16
Föstudaga: 9 til 13

Borg­ar­túni 7b

105 Reykjavík
Kennitala: 590269 - 5149

Samfé­lags­miðlar

Facebook
Instagram