Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Skipulagsstofnun Forsíða
Skipulagsstofnun Forsíða

Skipulagsstofnun

Vel heppnaður Umhverfismatsdagur

16. júní 2025

Samantekt, glærur og upptökur erinda

Umhverfismatsdagurinn, árleg ráðstefna Skipulagsstofnunar um umhverfismat, fór fram þann 5. júní s.l. í Nauthól. Ráðstefnan var vel sótt og fjöldi fylgdist með í beinu streymi.

Dagskrá dagsins var tvískipt, fyrri hluti var tileinkaður víðernum en sá seinni samgöngum.

Catherine Harry frá NatureScot sagði frá skoskum leiðbeiningum um mat á áhrifum framkvæmda á víðerni auk þess að gera grein fyrir því hvernig áherslur þarlendra yfirvalda varðandi víðerni hafa þróast síðastliðin ár. Hún fór yfir hvernig áætlanir á árunum frá 2002-2020 hafi falið í sér aukna verndun á villtum svæðum. Frá 2022 hafi svo orðið stefnubreyting hjá skoskum yfirvöldum sem hafi opnað á meiri uppbyggingu á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa innan villtra svæða. Michaël Bishop frá Háskóla Íslands kynnti í kjölfarið nýútkomna víðernaskýrslu sem unnin var fyrir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið. Þar bar hann saman mismunandi víðernakort sem unnin hafa verið, í þeim tilgangi að skoða ólíkar aðferðir og koma fram með ráðleggingar við áframhaldandi vinnu við kortlagningu víðerna á Íslandi. Meðal ráðlegginga sem fram komu voru að skýra þyrfti betur lagaumgjörðina í sambandi við skilgreiningu víðerna. Ólafur Hauksson og Snæbjörn Guðmundsson kynntu nýtt víðernakort sem unnið var af Wildland Research Institute við Háskólann í Leeds að frumkvæði íslenskra náttúruverndarsamtaka. Þar er víðernum skipt upp eftir því fjarlægð frá vélknúnum aðgangi, sjónrænum áhrifum mannvirkja og náttúrulegu yfirbragði lands. Afraksturinn sýnir þannig hvar kjarnasvæði víðerna liggja og yfir í svæði sem hafa minna yfirbragð víðerna. Í umræðum kom fram nauðsyn þess að stjórnvöld marki sér skýra stefnu um afmörkun víðerna og að fyrir liggi kort í samræmi við ákvæði náttúruverndarlaga.

Í seinni hluta dagskrár voru samgöngumál rædd vítt og breitt. Albert Skarphéðinsson og Atli Björn Leví kynntu samgöngusáttmálann og samgöngulíkan fyrir höfuðborgarsvæðið. Líkanið er hægt að nota sem umferðarspá fyrir alla helstu ferðamáta, fyrir greiningu á áhrif framkvæmda, fyrir mat á umhverfisáhrifum og nýtist einnig við aðra greiningarvinnu. Lilja G. Karlsdóttir fjallaði um valkostagreiningar í samgöngum og mikilvægi þess að greina ólíka valkosti áður en farið væri í umhverfismat. Loka hurðunum á eftir sér eins og hún orðaði það. Hólmfríður Bjarnadóttir frá Vegagerðinni flutti að lokum erindi um áhrif stórframkvæmda á vegakerfið og þá sérstaklega með áformaða vindorkugarða í huga. Þar kom m.a. fram að 60% vega á Vesturlandi eru í nægilega góðu ástandi til þess að ráða við núverandi uppbyggingaráform vindorku á svæðinu. Tók hún dæmi um vindorkugarð á Vesturlandi með 20 vindmyllum, flytja þyrfti vindmyllurnar frá Grundartangahöfn í 190 ferðum. Samanlagður ferðatími geti numið 720 klst og sé því skipt niður í 8klst vaktir, séu það 90 dagar.

Glærur frummælenda Umhverfismatsdagsins má nálgast hér fyrir neðan ásamt upptökum erinda.

Dagskrá Umhverfismatsdagsins 2025

9:00-10:25 Víðerni

Opnun og ávarp forstjóra - upptaka

Rise and fall of Scotland’s wild land: policy in practice. Catherine Harry hjá Nature Scot. Glærur - upptaka

Wilderness Mapping in Iceland – Overview and comparison of methods. Michaël Bishop, Háskóla Íslands. Glærur - upptaka

Víðernakortið. Snæbjörn Guðmundsson og Ólafur Hauksson. Glærur - upptaka

10:50-12:00 Samgöngur

Samgöngulíkan fyrir höfuðborgarsvæðið. Atli Björn Levy, Betri samgöngum. Albert Skarphéðinsson, Eflu. Glærur - upptaka

Valkostagreiningar í samgöngum. Lilja Karlsdóttir, VSB verkfræðistofu. Glærur - upptaka

Stórframkvæmdir og vegakerfið – lykilþættir í umhverfismati. Hólmfríður Bjarnadóttir, Vegagerðinni. Glærur - upptaka

Skipulagsstofnun

Hafa samband

Sími 595 4100
skipulag@skipulag.is

Opnun­ar­tími

Mánudaga til fimmtudaga kl. 9-15.
Föstudaga kl. 9-13.

Borg­ar­túni 7b

105 Reykjavík
Kennitala: 590269 - 5149

Samfé­lags­miðlar

Facebook
Instagram