Deiliskipulag nær til afmarkaðs svæðis sem myndar heildstæða einingu, svo sem hverfis, hverfishluta, götureits eða húsaþyrpingar. Þar eru sett ákvæði um byggingarheimildir, útfærslu bygginga og frágang umhverfis.
Í deiliskipulagi eru settir skilmálar um:
Mótun byggðar og umhverfis, svo sem um stærðir, staðsetningu og notkun húsa.
Yfirbragð byggðar, svo sem um útfærslu og hönnun bygginga og efnisnotkun.
Lóðir og almannarými eins og götur, torg, leiksvæði og almenningsgarða.
Byggingarleyfi og framkvæmdaleyfi skulu vera í samræmi við skipulag. Almenna reglan er að byggingaleyfi skuli byggja á deiliskipulagi, en framkvæmdaleyfi geta í tilteknum tilvikum byggt á aðalskipulagi. Nánari upplýsingar um byggingarleyfi er að finna á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og um framkvæmdaleyfi hér á vefnum.
Hverfisskipulag er einfölduð útfærsla deiliskipulags sem vinna má fyrir byggð hverfi, þar sem ekki stendur til að fara í umfangsmikla uppbyggingu. Í hverfisskipulagi eru ekki gerðar sömu kröfur og í hefðbundnu deiliskipulagi varðandi framsetningu og skilmála. Þar er meira svigrúm til að setja almennar reglur og fyrirmæli um byggingarheimildir, svo sem breytingar og viðbyggingar.
Gerð deiliskipulags
Sveitarstjórn ber ábyrgð á gerð deiliskipulags. Skipulagsnefnd sveitarfélags annast gerð deiliskipulags í umboði sveitarstjórnar.
Landeigandi eða framkvæmdaraðili getur beðið sveitarstjórn um að gera eða breyta deiliskipulagi á sinn kostnað. Með því að samþykkja tillöguna, gerir sveitarstjórnin deiliskipulagið að sínu og ber ábyrgð á framfylgd þess.
Deiliskipulag tekur gildi þegar það hefur verið samþykkt í sveitarstjórn og birt í Stjórnartíðindum.
Sveitarfélag greiðir fyrir gerð deiliskipulags, nema ef landeigandi eða framkvæmdaraðili fær leyfi til að gera það á eigin kostnað.
Ferli deiliskipulagsgerðar
Í upphafi vinnu að deiliskipulagi tekur skipulagsnefnd sveitarfélagsins saman lýsingu fyrir deiliskipulagsverkefnið þar sem gerð er grein fyrir tildrögum skipulagsvinnunnar og hvernig fyrirhugað er að standa að skipulagsgerðinni.
Ef landeigandi eða framkvæmdaraðili stendur að deiliskipulagsvinnunni, vinnur hann lýsingu og leggur fyrir sveitarstjórn.
Lýsing er samþykkt í sveitarstjórn.
Lýsingin er kynnt opinberlega og almenningur fær tækifæri til að koma ábendingum á framfæri við sveitarfélagið. Samtímis er leitað umsagnar Skipulagsstofnunar og annarra umsagnaraðila.
Deiliskipulagstillaga er unnin í samræmi við lýsingu skipulagsverkefnisins (pdf) og með hliðsjón af þeim ábendingum sem borist hafa frá almenningi og umsagnaraðilum á fyrri stigum.
Við gerð deiliskipulags eru umhverfisáhrif metin og niðurstöður umhverfismatsins nýttar við endanlega mótun skipulagstillögunnar.
Deiliskipulagstillaga skal unnin í samráði við íbúa og aðra hagsmunaaðila. Samráð í vinnsluferlinu fer eftir eðli og umfangi skipulagstillögunnar.
Þegar skipulagstillaga er fullgerð er hún samþykkt af sveitarstjórn til formlegrar auglýsingar og hefur almenningur og umsagnaraðilar þá tækifæri til að koma á framfæri skriflegum athugasemdum.
Þegar frestur til athugasemda er liðinn tekur skipulagsnefnd afstöðu til athugasemda og leggur fram endanlega tillögu til samþykktar í sveitarstjórn. Deiliskipulagið ásamt fylgiskjölum er síðan sent Skipulagsstofnun til yfirferðar.
Deiliskipulag tekur gildi þegar það hefur verið samþykkt af sveitarstjórn og auglýst í B–deild Stjórnartíðinda.
Sé deiliskipulag ekki auglýst til gildistöku í Stjórnartíðindum innan árs frá því að athugasemdafresti við deiliskipulagtillögu lauk, þarf að endurtaka málsmeðferðina og auglýsa deiliskipulagstillöguna á ný til kynningar og athugasemda.