Meðferð litíumrafhlaðna í flugi
7. ágúst 2025
Farþegum ber að fylgja reglum um meðferð rafhlaðna í farþegaflugi, til að tryggja öryggi sitt og annarra.

Litíumrafhlöður knýja margvísleg nútímatæki. En í flugi geta þær verið varasamar ef meðferð þeirra er ekki rétt.
Ef rafhlaða skemmist, ofhleðst eða verður fyrir hita getur orðið keðjuverkun (thermal-runaway) þar sem hún hitnar, gefur frá sér gas og kviknað getur í henni. Því eru strangar reglur í gildi um meðferð rafhlaðna í farþegaflugi. Farþegar bera ábyrgð á að fylgja þessum reglum og tryggja öryggi sitt og annarra.
Til að tryggja öryggi um borð hvetjum við þau sem ferðast með litíumrafhlöður til að fylgja ráðleggingum frá Flugöryggisstofnun Evrópu (EASA):
Hafðu vararafhlöður og hleðslubanka alltaf í handfarangri, ekki innrituðum farangri.
Hafðu rafrettur þar sem þú getur fylgst með þeim í handfarangri.
Gakktu úr skugga um að rafhlöður í tækjum séu undir 100Wh (gildir um flesta síma, spjaldtölvur og fartölvur).
Hafðu samband við flugfélagið ef þú ert með stærri rafhlöður, t.d. í drónum eða rafmagnsverkfærum. Ef rafhlaðan er á milli 100 og 160Wh gæti þurft sérstakt leyfi.
Ekki nota hleðslubanka til að hlaða tæki í flugi, notaðu eingöngu rafmagn frá sætum flugvélarinnar.
Ekki hunsa reglur flugfélagsins. Mörg þeirra setja takmörk á fjölda tækja og stærð rafhlaðna miðað við orkumagn þeirra sem mælt er í wattstundum (Wh).