Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Sjúkrahúsið á Akureyri Forsíða
Sjúkrahúsið á Akureyri Forsíða

Sjúkrahúsið á Akureyri

Umfangsmiklar aðgerðir vegna myglu í húsnæði rannsóknardeildar

13. júní 2025

Í vetur vaknaði grunur um myglu í húsnæði rannsóknardeildar SAk eftir að starfsfólk fór að finna fyrir óútskýrðum einkennum, á borð við þreytu og höfuðverk. Í fyrstu virtist vandinn afmarkaður, en nýjustu rannsóknir sýna að umfangið er mun meira en áður var talið – og að upptökin liggi líklega undir gólfum, frekar en í útveggjum líkt og áður var talið.

Vegna þessa hefur verið tekin sú ákvörðun að flytja alla starfsemi rannsóknardeildar tímabundið í annað húsnæði á meðan ráðist er í viðamiklar endurbætur. 

„Þetta er krefjandi staða og mikil áskorun – ekki síst fyrir það öfluga starfsfólk sem heldur uppi þessari mikilvægu starfsemi. Það skiptir sköpum að aðbúnaður þess sé tryggður og að starfsemin geti haldið áfram án truflana,“ segir Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri SAk. „Rannsóknardeildin gegnir lykilhlutverki í greiningu og meðferð sjúklinga og er burðarás í faglegu starfi spítalans.“ 

Unnið er að því af fullum krafti að tryggja öruggar lausnir fyrir starfsfólk og starfsemi rannsóknardeildar. Framkvæmdir eru nú í undirbúningi og lagt er upp með að þær fari fram eins hratt og örugglega og mögulegt er.  

Þakkarvert að finna víðtækan stuðning

Verkefnið er umfangsmikið og varðar marga aðila, bæði innan og utan SAk „Það er ákaflega hvetjandi og þakkarvert að finna að hvert sem við leitum og óskum eftir aðstoð, stuðningi eða leiðbeiningum, þá virðast allir vera boðnir og búnir til að leggja okkur lið. Í því samhengi má nefna ráðuneyti, Landspítala, Akureyrarbæ, samstarfsaðila, vertaka og að sjálfsögðu starfsfólk SAk.  Það er ljóst að allir gera sér grein fyrir mikilvægi þess að tryggja starfsskilyrði rannsóknardeildar og þar með öryggi og heilbrigði bæði starfsfólks og sjúklinga. Þetta er sameiginlegt verkefni sem varðar mikilvæga hagsmuni SAk og þar með samfélagsins alls á Norðurlandi.“