Sjúkraþjálfaranemar frá HÍ fengu innsýn í starfsemi endurhæfingaþjónustu SAk
24. janúar 2025
Endurhæfingardeild SAk á Kristnesi kynnt sem spennandi vinnustaður
Sjúkraþjálfarar SAk tóku á dögunum á móti vöskum hópi sjúkraþjálfaranema frá Háskóla Íslands. Nemarnir voru norðanheiða í vísindaferð og fengu kynningu á fjölbreyttu og öflugu starfi sjúkraþjálfara á Kristnesi.
Að lokinni gönguferð og kynningu á húsnæði var boðið upp á léttar veitingar og spjall. Í Kahoot keppni kvöldsins var hörð keppni, þar sem spurt var út í starfsemina á SAk og gæði þess að búa og vinna á Akureyri. „Nemarnir voru mjög ánægðir með ferðina og heilluðust af aðstöðunni. Fæstir höfðu áttað sig á umfangi þeirrar starfsemi sem fram fer á Kristnesi,“ sagði Ragnhildur Jónsdóttir yfirsjúkraþjálfari, sem ásamt samstarfsfólki sínu tók vel á móti hópnum.
Mikilvægt að tengjast nemum strax á námstíma
„Kynningar fyrir heilbrigðisstarfsstéttir gegna lykilhlutverki í því að kynna SAk sem spennandi framtíðarvinnustað. Með þessum hætti vonumst við til að ná tengslum við fleiri nema strax á námstímanum og vekja áhuga þeirra á störfum við Sjúkrahúsið á Akureyri,“ sagði Kristjana Kristjánsdóttir deildarstjóri mannauðsdeildar.