Næringardagur á SAk 2025 – Næring skurð- og gjörgæslusjúklinga í brennidepli
23. apríl 2025
Næringardagur Sjúkrahússins á Akureyri fór fram miðvikudaginn í byrjun mánaðarins og var hann tileinkaður næringu skurð- og gjörgæslusjúklinga. Skipulag dagsins var í höndum næringarteymis og mennta- og vísindadeildar SAk.

Næringardagur Sjúkrahússins á Akureyri fór fram miðvikudaginn í byrjun mánaðarins og var hann tileinkaður næringu skurð- og gjörgæslusjúklinga. Skipulag dagsins var í höndum næringarteymis og mennta- og vísindadeildar SAk.
Dagskráin fór fram í fundarherberginu Kjarna á 3. hæð og einnig í gegnum Teams-fjarfund, og stóð frá kl. 13:00 til 16:00.
Guðjón Kristjánsson, yfirlæknir lyflækninga á SAk, setti daginn og stýrði fundinum.
Fjölbreytt dagskrá með áhugaverðum erindum
Dagskráin hófst með erindi Kristínar Jónsdóttur, skurðlæknis á SAk, sem fjallaði um hvenær ætti að hefja næringu hjá skurðsjúklingum. Þar á eftir flutti Bjarki Þór Jónasson, klínískur næringarfræðingur á Landspítala, erindi um orkuþörf og næringarástand gjörgæslusjúklinga.
Eftir stutt kaffihlé hélt dagskráin áfram með sameiginlegu erindi frá Írisi Gunnarsdóttur lyfjafræðingi og Söru Mist Gautadóttur næringarfræðingi á SAk, þar sem fjallað var um ábendingar og frábendingar fyrir næringu í æð og um meltingarveg. Þá flutti Elínborg Hilmarsdóttir, næringarfræðingur á Landspítala, erindi um mikilvægi næringar í bataferli skurðsjúklinga og að lokum fjallaði Sigurbjörg Lind Ellertsdóttir, hjúkrunarfræðingur á Skurðlækningadeild SAk, um aðkomu hjúkrunarfræðinga og helstu áskoranir þeirra í tengslum við næringu sjúklinga."
Kærkomið tækifæri til að efla tengslanet og miðla þekkingu milli faghópa
Næringarteymið nýtti daginn til fundahalda með gestafyrirlesurum frá Landspítalanum. Mikilvægt er fyrir SAk að efla tengslanet sitt við aðra næringarfræðinga og því var þessi heimsókn kærkomið tækifæri til aukins samstarfs og þekkingarmiðlunar. Næringarteymið fékk jafnframt fræðslu um nýjungar frá næringarfræðingi Icepharma. Fyrirtækið flytur meðal annars inn næringardrykki og sondunæringu frá Nutricia sem notuð eru á SAk. Þátttakendur gátu í kaffihléinu fengið að smakka úrval næringardrykkja og nutu jafnframt veitinga frá eldhúsinu.
Að lokinni veglegri dagskrá voru fjórir heppnir þátttakendur í sal dregnir út og hlutu glæsileg verðlaun frá Innnes og Ekrunni.