Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Náttúruhamfaratrygging Íslands Forsíða
Náttúruhamfaratrygging Íslands Forsíða

Náttúruhamfaratrygging Íslands

Afstaða NTÍ til hollvinasamninga milli Þórkötlu og fyrri eigenda eigna í Grindavík.

14. maí 2025

Fasteignafélagið Þórkatla óskaði nýverið eftir afstöðu NTÍ til fyrirætlana Þórkötlu um að heimila gistingu í eignum félagsins í Grindavík í gegnum hollvinasamninga sem gerðir hafa verið við fyrri eigendur.

Fram kemur í fyrirspurn Þórkötlu að markmið þessara samninga sé að veita einstaklingum, sem áttu eignir í Grindavík, takmarkaðan aðgang að þessum fyrrum eignum sínum og þeim verði heimilt, á gildistíma samningsins, að geyma þar lausafé innandyra á eigin ábyrgð.

Rétt er að geta þess að NTÍ á enga aðkomu eða aðild að þeim hollvinasamningum sem um ræðir eða þeirri ákvörðun Þórkötlu, ef til þess kemur, að heimila gistingu í umræddum húseignum.

Þá er rétt að geta þess með vísan til 3. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 770/2023 um NTÍ að ekki er heimilt að stofna nýja náttúruhamfaratryggingu eða breyta eldri tryggingu eigna á þeim stað eða svæði sem er í hættu þegar vátryggingaratburður er hafinn eða er yfirvofandi, á þetta bæði við um húseignir og lausafé. Vísað er til meðfylgjandi hættumats Veðurstofunnar, en hættuástand ríkir og hefur ríkt innan Grindavíkur allt frá því jarðhræringar á Reykjanesskaga hófust þann 10. nóvember 2023. 2025-04-22_haettumatskort_VI.png

NTÍ vekur einnig athygli á að eigendum vátryggðra eigna og lausamuna í Grindavík ber skylda til að gera allt það sem með sanngirni er hægt að ætlast til af þeim til að hindra eða takmarka tjón af völdum náttúruhamfara. Í því getur til dæmis falist að færa vátryggða lausamuni út af skilgreindum hættusvæðum eftir því sem frekast er unnt og almannavarnir heimila. Vanræksla á slíkum aðgæslu- og varúðarskyldum kann að leiða til þess að tjónabætur lækki eða verði felldar niður. Ákveði eigandi vátryggðra lausamuna að færa þá inn á skilgreint hættusvæði á meðan atburður er enn yfirstandandi eða yfirvofandi þá gerir hann það á eigin ábyrgð og áhættu.

Hafðu samband

Sími: 575 3300

Netfang: nti@nti.is

Opnunartími

Mánudaga - fimmtudaga:
9 til 15

Föstudaga: 9 til 14

Heimilisfang

Hlíðarsmári 14

201 Kópavogur