Skipurit
Hlutverk einstakra sviða hjá embætti landlæknis samkvæmt breyttu skipulagi sem gekk í gildi 1. desember 2019.
Hlutverk sviða
Sviðið hefur aðalumsjón með eftirliti með heilbrigðisstofnunum og heilbrigðisstarfsmönnum og gæðaþróun í heilbrigðisþjónustu. Eftirlitið tekur bæði til stofnana í opinberum rekstri og í einkarekstri. Hluti eftirlitsins er fólginn í úttektum innan stofnana sem og á starfsstöðvum heilbrigðisstarfsmanna. Sviðið hefur eftirlit með lyfjaávísunum og stuðlar að skynsamlegri lyfjanotkun landsmanna.
Sviðið tekur á móti ábendingum og kvörtunum sjúklinga vegna heilbrigðisþjónustu eða ábendingum er lúta að lögum um sjúkraskrár. Rannsókn alvarlegra óvæntra atvika heyrir undir sviðið. Þessum málum er fylgt eftir og séð til þess að viðeigandi úrbætur séu gerðar. Beiting eftirlitsúrræða landlæknis gagnvart heilbrigðisstarfsmönnum heyrir jafnframt undir sviðið, svo sem tilmæli, áminning, takmörkun eða svipting starfsleyfis.
Þá sinnir sviðið lögfræðilegum málefnum embættisins.
Sviðsstjóri er Jóhann M. Lenharðsson, netfang johann.m.lenhardsson(hja)landlaeknir.is
Heilbrigðisupplýsingasvið er miðstöð heilbrigðisupplýsinga á Íslandi. Sviðið ber ábyrgð á skipulagningu og rekstri skráa á landsvísu um heilsufar, sjúkdóma, slys, lyfjaávísanir, fæðingar, dánarmein og starfsemi og árangur heilbrigðisþjónustu í samræmi við 8. gr laga um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007. Tilgangur skránna er að afla þekkingar um heilsufar og heilbrigðisþjónustu, hafa eftirlit með þjónustunni, tryggja gæði hennar, meta árangur og nota þær við gerð áætlana um gæðaþróun í heilbrigðisþjónustu og til vísindarannsókna. Heilbrigðisupplýsingasvið ber einnig ábyrgð á framkvæmd reglubundinnar rannsóknar, Heilsa og líðan, sem er mikilvæg uppspretta upplýsinga um heilsu, líðan og lifnaðarhætti landsmanna.
Gagnasöfnun og gagnagreiningu embættisins er ætlað að uppfylla margs konar þarfir. Má þar nefna stuðning við stefnu og aðgerðir heilbrigðisyfirvalda, stuðning við heilsueflandi samfélög, nýtingu vegna eftirlitsskyldu embættisins og til almennrar vefbirtingar tölfræði um heilsufar og heilbrigðisþjónustu. Sviðið annast einnig umsóknir um aðgang að gögnum til vísindarannsókna.
Heilbrigðisupplýsingasvið er þátttakandi í fjölbreyttu fjölþjóðasamstarfi á sviði heilbrigðisupplýsinga og ber jafnframt ábyrgð á skilum gagna til alþjóðastofnana á borð við NOMESCO, WHO, OECD o.fl. Slíkt gerir Íslendingum kleift að bera heilsu, líðan og heilbrigðisþjónustu á Íslandi saman við önnur lönd.
Sviðsstjóri er Sigríður Haraldsd Elínardóttir, netfang sigridur.haraldsd.elinardottir(hja)landlaeknir.is
Markmið Lýðheilsusviðs er að styðja samfélög, skóla og vinnustaði í að skapa aðstæður sem stuðla að heilsu og vellíðan fyrir alla. Áhersla er lögð á samvinnu við sveitarfélög, heilsugæslu, menntastofnanir og aðra hagsmunaaðila til að stuðla að árangursríku lýðheilsustarfi þvert á geira og svið samfélagsins m.a. í gegnum Heilsueflandi samfélag, Heilsueflandi leik-, grunn- og framhaldsskóla og Heilsueflandi vinnustaði.
Sviðið vinnur að heilsueflingar- og forvarnarstarfi þar sem unnið er heildstætt með helstu áhrifaþætti heilbrigðis. Unnið er að heilsueflingu m.a. með því að stuðla að hollu mataræði, aukinni hreyfingu, góðum svefni, geðrækt og tannvernd ásamt tóbaks-, áfengis- og vímuvörnum. Þá vinnur sviðið einnig að sjálfsvígsforvörnum og ofbeldis- og slysavörnum.
Lýðheilsusvið ásamt sviði heilbrigðisupplýsinga fylgist með stöðu og þróun valinna áhrifaþátta heilbrigðis m.a. með reglulegri vöktun og könnuninni Heilsa og líðan. Þá birta sviðin reglulega svæðisbundna lýðheilsuvísa sem byggja m.a. á þessum gögnum.
Sviðið vinnur einnig með stjórn Lýðheilsusjóðs að faglegri úthlutun styrkja.
Sviðsstjóri er Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, netfang dora.g.gudmundsdottir(hja)landlaeknir.is
Miðstöð rafrænna heilbrigðislausna ber ábyrgð á að þróa og innleiða upplýsingatækni í heilbrigðisþjónustu á öruggan, hagkvæman og skilvirkan hátt og stuðla þannig að góðri og öruggri þjónustu og bættri lýðheilsu á öllum æviskeiðum. Í því felst:
Að viðhalda og sjá um stefnu í upplýsingatækni í heilbrigðisþjónustu á landsvísu, í samráði við heilbrigðisyfirvöld og aðra lykilaðila.
Að þróa og innleiða rafræna sjúkraskrá í samræmi við þarfir sjúklinga, heilbrigðisstarfsmanna, stjórnenda og stjórnvalda.
Að þróa og innleiða aðgang einstaklinga að eigin heilbrigðisupplýsingum um vefinn Mínar síður á heilsuvera.is
Að þróa og reka íslenska heilbrigðisnetið (Hekla)
Að hafa eftirlit með öryggi net- og upplýsingakerfa stofnana í heilbrigðisþjónustu.
Markmiðið er að heilbrigðisstarfsmenn hafi öruggan aðgang að sjúkraskrárupplýsingum hvar og hvenær sem þörf krefur, og að einstaklingar hafi ætíð aðgang að eigin heilsufarsupplýsingum. Miðstöð rafrænna heilbrigðislausna stuðlar að auknu öryggi og gæðum sjúkraskrárupplýsingar ásamt því að efla miðlun og úrvinnslu upplýsinga úr rafrænum sjúkraskrárkerfum.
Sviðið hefur yfirumsjón með upplýsingakerfum embættisins. Það felur í sér ábyrgð á daglegum rekstri vél- og hugbúnaðarkerfa, þróun hugbúnaðar og rafrænna kerfa.
Sviðsstjóri er Ingi Steinar Ingason, netfang ingi.s.ingason(hja)landlaeknir.is
Sviðið ber ábyrgð á öllum innri rekstri embættisins, svo sem fjársýslu, mannauðsmálum, skjalavörslu, gæða- og öryggismálum, húsnæðismálum, þróun rafrænnar stjórnsýslu, móttöku og símavörslu ásamt útgáfu og miðlun efnis á vef og í öðru formi.
Sviðið ber ábyrgð á því að fjármál embættisins séu sýnd samkvæmt góðum bókhaldsvenjum og að raunhæf staða og útkomuspá fyrir rekstur embættisins liggi fyrir minnst ársfjórðungslega.
Sviðið ber ábyrgð á því að bregðast við framúrkeyrslu í rekstri og upplýsa framkvæmdastjórn þegar í stað.
Sviðið sér um veitingu starfsleyfa og sérfræðileyfa heilbrigðisstétta og veitir staðfestingu á rekstri heilbrigðisþjónustu. Afgreiðsla umsókna um undanþágu frá aldursákvæði laga um heilbrigðisstarfsmenn til að reka starfsstofu í heilbrigðisþjónustu heyrir jafnframt undir sviðið.
Sviðið er ráðgefandi gagnvart öðrum sviðum embættisins varðandi mannauðsmál og sér um að reglum ríkisins og samningum milli ríkis og stéttarfélaga sé fylgt.
Sviðið ber ábyrgð á húsnæðismálum embættisins og fylgist með því að aðgengi og öryggismál fylgi lögum og reglum og uppfylli kröfur sem gerðar eru til húsnæðis opinberra stofnana.
Sviðsstjóri er Þórgunnur Hjaltadóttir, netfang thorgunnur.hjaltadottir(hja)landlaeknir.is
Sviðið ber ábyrgð á sóttvörnum og að þeim sé háttað í samræmi við sóttvarnalög.
Enn fremur ber sviðið ábyrgð á því að framfylgja aðgerðum sem tilgreindar eru í Stefnu í almannavarna- og öryggismálum ríkisins 2015–2017.
Sviðið annast tengsl við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina samkvæmt alþjóða heilbrigðisreglugerðinni, við Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins og Heilbrigðis- og öryggismálaráð Evrópusambandsins.
Sviðið ber ábyrgð á því að fylgast með þeim mælivísum sem geta gefið til kynna að ógn steðji að landsmönnum af völdum smitsjúkdóma, heimsfaraldra, eiturefna, geislavirkra efna, náttúruhamfara eða óvæntra atburða sem geta ógnað heilsu landsmanna.
Sviðið ber enn fremur ábyrgð á því að veita ráðleggingar á sviði sóttvarna til stjórnvalda, almennings og annarra aðila sem koma að almannavörnum, gera viðbragsáætlanir í samvinnu við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og grípa til opinberra og einstaklingsbundinna aðgerða sem geta hindrað farsóttir í landinu.
Sviðið ber ábyrgð á því að skipuleggja og fylgjast með almennum bólusetningum í landinu, notkun sýklalyfja og útbreiðslu ónæmra sýkla, veita ráðgjöf þar að lútandi og grípa til aðgerða ef þess gerist þörf.
Sóttvarnalæknir og sviðsstjóri er Guðrún Aspelund, netfang: gudrun.aspelund(hja)landlaeknir.is
Persónuverndarfulltrúi veitir starfsmönnum ráðgjöf varðandi persónuverndarmál, svarar fyrirspurnum almennings og hefur eftirlit með því að embættið uppfylli skyldur sínar samkvæmt persónuverndarlögum.