Varað við fegrunarmeðferðum með ólöglegu bótúlíneitri
30. júlí 2025
Að gefnu tilefni vekur embætti landlæknis athygli á þeirri hættu sem heilsu fólks kann að vera búin vegna notkunar á ólöglegum lyfjum.

Embætti landlæknis og sóttvarnalæknir vara við því að einstaklingar gangist undir meðferðir hjá aðilum sem ekki hafa starfsleyfi frá embætti landlæknis. Tilefnið er tilkynningar um alvarlegar bótúlíneitranir eftir aðgerðir á snyrtistofum í Bretlandi síðustu þrjá mánuði. Bótúlíneitur er mikið notað við fegrunarmeðferðir en einnig við margvíslegum öðrum heilsuvandamálum. Tilkynning um alvarlegar eitranir af bótúlínum-lyfjavöru var nýlega send í gegnum EWRS tilkynningakerfi ESB, sem miðlar upplýsingum um heilsufarsógnir á milli aðildarríkja og samstarfsaðila.
Tæplega 40 tilvik bótúlíneitrana hafa verið staðfest í Bretlandi en um var að ræða fegrunarmeðferðir þar sem bótúnlíneitri var sprautað. Helstu eitrunareinkenni voru óskýrt tal og erfiðleikar við kyngingu og/eða öndun. Greint var frá því að 22 einstaklingar hafi verið lagðir inn á sjúkrahús, þar af sjö á gjörgæslu. Þó svo að bótúlíneitranir séu óalgengar geta þær verið lífshættulegar.
Í tilefni af tilkynningu um alvarleg veikindi í Bretlandi hefur embættið upplýst Landspítala og aðra viðbragðsaðila í heilbrigðisþjónustunni. Þeir sem farið hafa í fegrunarmeðferð á undanförnum vikum þar sem bótúlínum-lyfjavara var notuð af einstaklingi sem ekki hefur starfsleyfi geta haft samband við síma 1700 fyrir ráðgjöf.
Embætti landlæknis ítrekar að einstaklingar sem hafa hug á að fara í meðferð með bótúlínlyfi gangi úr skugga um að sá sem veitir meðferðina sé læknir með gilt starfsleyfi landlæknis. Hægt er að athuga hvort viðkomandi sé með starfsleyfi í starfsleyfaskrá embættis landlæknis en aðeins þeir sem eru með starfsleyfi eru í skránni.
Umrætt efni er virka efnið í viðurkenndum lyfjum sem eru löglega á markaði hér á landi og notuð sem slík með lögmætum hætti.
Embætti landlæknis hefur enn sem komið er ekki fengið upplýsingar um bótúlíneitranir hér á landi, en það getur tekið allt að 4 vikur fyrir einkenni að koma fram. Hins vegar hefur embættið upplýsingar um að vörur sem innihalda bótúlíneitur séu fluttar ólöglega til Íslands og notaðar hér á landi. Eðli málsins samkvæmt getur embættið ekki sagt til um hvort um sé að ræða sömu vöru hérlendis og í Bretlandi. Embættið hefur upplýst lögreglu um mál sem varða notkun ólöglegra lyfja af þessum toga.
Frekari upplýsingar veitir Kjartan Hreinn Njálsson aðstoðarmaður landlæknis (kjartan.h.njalsson@landlaeknir.is).