Nóróveira líkleg orsök hópsýkingar tengdri þríþraut á Laugarvatni
10. júlí 2025
Nóróveira hefur greinst í öllum fimm sýnum sem bárust frá einstaklingum sem veiktust af magakveisu eftir þríþraut á Laugarvatni 5. júlí síðastliðinn. Ekki er hægt að fullyrða um uppruna smita, hvort hafi borist úr vatninu tengt sundinu eða annars staðar frá.

Hluti af keppninni var sund í Laugarvatni auk hjólreiða og hlaups en einnig var samvera kringum viðburðinn og boðið upp á mat á eftir. Á fjórða tug einstaklinga hafa sett athugasemdir á samfélagsmiðla og líst einkennum iðrakveisu eftir atburðinn, en 22 einstaklingar tilkynntu um veikindi til sóttvarnalæknis.
Flestir byrjuðu að finna til einkenna kvöldið og nóttina daginn eftir viðburðinn. Vitað er um að minnsta kosti tvo einstaklinga sem ekki syntu í vatninu en voru á staðnum og veiktust. Ekki borðuðu allir sem tilkynntu veikindi sama matinn.
Nóróveira smitast frá saur (eða uppköstum) í munn og smitleiðir eru margar. Veiran getur verið í vatni, smitast beint manna á milli við snertingu eða frá sameiginlegum snertiflötum og er hún einnig algeng ástæða matartengdra sýkinga. Heilbrigðiseftirlit Suðurlands tók sýni úr Laugarvatni með tilliti til saurgerlamengunar en niðurstöður úr þeim sýnatökum er að vænta á næstu dögum. Senda þyrfti vatnssýni á rannsóknarstofu erlendis ef á að mæla nóróveiru.
Nóróveirur er flokkur veira sem valda sýkingu í meltingarvegi. Nóróveira er algeng orsök iðrakveisu og veldur oft hópsýkingum. Algengustu einkennin eru uppköst og/eða niðurgangur sem fylgt geta kviðverkir, beinverkir, höfuðverkur og stundum vægur hiti. Sjúkdómurinn gengur í langflestum tilfellum yfir á einum til tveimur sólarhringum. Engin sértæk meðferð er til. Sóttvarnalæknir hefur gefið út rafrænan bækling um hvernig draga má úr útbreiðslu nóróveirusmits.
Upplýsingar um nóróveiru á vef embættis landlæknis
Komið í veg fyrir smit af nóróveirum – upplýsingar fyrir almenning
Sóttvarnalæknir