Hætta á heilsutjóni vegna loftmengunar frá eldgosum
21. júlí 2025
Mest mengun og hætta á heilsufarslegum áhrifum af völdum loftmengunar eru í grennd við eldgos en undanfarið hefur mælst gasmengun og sést mikil gosmóða víðar um land.

Veðurfar, sérstaklega vindur og vindátt, en einnig úrkoma hafa einnig mikil áhrif á dreifingu mengunar. Minnstu svifryksagnir frá eldgosum (PM 2,5) eru hættulegar heilsunni þar sem þær eiga auðvelt með að ná djúpt niður í lungu. Brennisteinsdíoxíð (SO2) í háum gildum getur haft áhrif á heilsufar eftir aðeins 10-15 mínútur. Eftir lengri tíma má búast við meiri áhrifum.
Gagnlegt er fyrir almenning á áhrifasvæði mengunar að fylgjast með loftgæðum, gasmengunarspá og þekkja til helstu varnaraðgerða sem unnt er að grípa til vegna mengunar í byggð. Sjá bæklinginn Hætta á heilsutjóni vegna loftmengunar frá eldgosum.
Ráðstafanir til að verja sig gegn loftmengun frá eldgosum
Kynna sér loftgæðakort Umhverfis- og orkustofnunar, gasmengunarspá Veðurstofu og fylgja ráðleggingum.
Þekkja helstu viðbrögð:
Vera inni og loka gluggum ef mengun er mikil
lofta vel út þegar mengun léttir
lágmarka umgengni um útidyr
slökkva á loftræstingu þar sem það á við
forðast áreynslu utandyra
hefðbundnar andlitsgrímur duga lítið gegn loftmengun frá eldgosum en ekki er mælt með notkun gasgríma fyrir almenning
ef nauðsynlegt er að vera utandyra í stutta stund í mjög mikilli mengun gagnast vel að anda gegnum blautan klút og anda rólega í gegnum nef
Viðkvæmir einstaklingar eiga að ráðfæra sig við heilsugæslu hvað varðar lyf og annað sem mögulega kemur þeim að gagni.
Til viðkvæmra einstaklinga í þessu samhengi teljast börn, barnshafandi konur, fullorðnir með astma, langvinna lungnateppu og hjarta- og æðasjúkdóma, og fólk sextíu ára og eldri.
Brennisteinsdíoxíð og brennisteinssýra
Áhrif brennisteinsdíoxíðs (SO2) á mannslíkamann
Brennisteinsdíoxíð (SO2) í háum gildum getur haft áhrif á heilsufar eftir aðeins skamman tíma, 10-15 mínútur. Sjá bækling Hætta á heilsutjóni vegna loftmengunar frá eldgosum.
Brennisteinsdíoxíð (SO2) er litlaust en lyktar eins og skoteldar á áramótum. Þegar fólk verður fyrir mengun af völdum SO2, breytist brennisteinsdíoxíð á röku yfirborði slímhúða í brennisteinssýru sem veldur ertingu í augum, nefi og koki.
Mest af því SO2 sem berst inn í líkamann í gegnum efri öndunarveg (nef og munn) safnast þó ekki fyrir. Skaða á innri líffærum er ekki lýst. Vegna þess er mikilvægt í viðbrögðum við SO2-mengun að fólk andi rólega, í gegnum nefið og forðist áreynslu.
Skaðleg áhrif SO2 eru tengd því þegar efnið kemst í neðri öndunarveg, í lungun. Þá geta komið fram alvarlegri einkenni, svo sem astmi og bólga/bjúgur í lungum.
Áhrifum af SO2 má skipta í skammtímaáhrif vegna skyndilegrar mengunar sem stendur stutt yfir (mínútur, klukkustundir), og langtímaáhrif sem geta komið fram þegar mengun er viðvarandi (dagar, mánuðir, ár).
Margt bendir til þess að börn séu almennt viðkvæmari en fullorðnir:
Börn anda hraðar
Rúmmál þess lofts sem þau draga að sér er meira miðað við líkamsþyngd
Börn anda frekar í gegnum munn en í gegnum nef
Gosmóða
Hvað er gosmóða (blámóða)?
Gosmóða er gjarnan kölluð blámóða vegna einkennandi blágrás litar
Gosmóða er loftmengun sem verður til þegar að brennisteinsdíoxíð (SO2) frá eldgosi, önnur gös og agnir hvarfast við súrefni og raka í andrúmsloftinu fyrir tilstuðlan sólarljóssins
Brennisteinsdíoxíð gas breytist þá í súlfatagnir (SO4) sem eru ekki gas heldur fastar agnir
Mengun vegna gosmóðu er því ekki greinanleg á venjulegum SO2 gasmælum
Hver eru heilsufarsleg áhrif gosmóðu?
Gosmóða er almennt meira ertandi en annað svifryk, t.d. vegna bílaumferðar. Gosmóða getur valdið sleni, höfuðverk, ertingu í augum og hálsi auk annarra einkenna frá öndunarfærum.
Allir geta fundið fyrir einhverjum áhrifum af gosmóðu en fullorðnir einstaklingar með undirliggjandi hjarta- og lungnasjúkdóma og börn og ættu að forðast áreynslu utandyra sem og útivist í lengri tíma þar sem er loftmengun.
Hvað á ég að gera ef ég finn fyrir óþægindum vegna gosmóðu?
Ef þú finnur fyrir einkennum gosmóðu er mikilvægt að takmarka áreynslu, halda sig innandyra og loka gluggum. Ef einkenni eru þrálát eða hverfa ekki ætti að hafa samband við Upplýsingamiðstöð heilsugæslunnar í síma 1700 eða leita á heilsugæslustöð.
Mikilvægt er að þeir einstaklingar sem notast við innúðalyf vegna astma- og lungnasjúkdóma eigi þau til og noti samkvæmt leiðbeiningum sem lyfinu fylgja. Viðbúið er að einstaklingar gætu þurft að auka við skammta sína af innúðalyfjum ef gosmóða er mikil eða einkenni þrálát en slíkt ætti ætíð að gera í samráði við lækni.
Sóttvarnalæknir
Gagnlegir hlekkir
Upplýsingar og ráðleggingar um heilsufarsáhrif mengunar vegna eldgosa. Leiðbeiningar fyrir almenning á vef embættis landlæknis
Loftgæði á Íslandi. Umhverfis- og orkustofnun
Gasmengunarspá. Veðurstofa Íslands
Skráningarform vegna gasmengunar í byggð. Veðurstofa Íslands