Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Alþjóðlegur dagur alnæmis 1. desember

1. desember 2024

Alþjóðlegur dagur alnæmis (AIDS) er haldinn árlega þann 1. desember. Tilgangur dagsins er að vekja athygli á sjúkdómnum með fræðslu, minnast þeirra sem látist hafa vegna alnæmis og minna á baráttuna gegn fordómum og mismunun gagnvart fólki sem er HIV-smitað.

HIV mynd með frétt

Þema dagsins hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) þetta árið er: „Virðum réttindi: Mín heilsa, minn réttur!“ (e. Take the rights path: My health, my right) til að vekja athygli á réttinum til góðrar heilsu og þeim ójöfnuði sem stendur í vegi fyrir að að útrýma alnæmi í heiminu. Í þessu felst meðal annars;

  • að allir hafi gott aðgengi að HIV-prófum og meðferð,

  • að allir hafi greiðan aðgang að forvörnum gegn HIV og

  • að draga úr fordómum og neikvæðum viðhorfum gagnvart HIV.

Margt hefur áunnist í baráttunni við HIV en enn vantar víða upp á gott aðgengi að greiningarprófum til að fá tímanlega rétta meðferð og til að koma í veg fyrir ný smit. Í Evrópu er talið að einn af hverjum þremur HIV-smituðum viti ekki um sína stöðu en mikill munur er þó á milli svæða. Varast þarf fyrirfram ákveðnar hugmyndir um hver getur smitast af HIV og almennt ætti að vera lágur þröskuldur fyrir að framkvæma HIV-próf.

Fordómar og þekkingarskortur gagnvart HIV er enn til staðar og ýmislegt getur hindrað að fólk leiti til heilbrigðisþjónustu. Nýleg alþjóðleg könnun á viðhorfum heilbrigðisstarfsfólks til einstaklinga með HIV sýndi að einnig þar ber á fordómum og neikvæðum viðhorfum.

HIV á Íslandi

Á Íslandi er almennt gott aðgengi að HIV-prófum einstaklingum að kostnaðarlausu. Þá er lyfjameðferð vegna HIV gjaldfrjáls. Til eru góð lyf sem halda sjúkdómnum niðri þannig að í dag geta einstaklingar á lyfjameðferð við HIV lifað eðlilegu lífi. Rétt lyfjameðferð dregur einnig verulega úr líkum á því að smit berist milli fólks. Með lyfjameðferð má í flestum tilvikum koma í veg fyrir að HIV-smit þróist í alnæmi.

Á árinu 2023 greindust heldur fleiri með HIV í Evrópu en árið á undan. Sama var uppi á teningnum á Íslandi og 44 einstaklingar greindust en um þekkta sýkingu var að ræða hjá meirihluta (61%) en sýkingin hefur þá áður greinst erlendis. Karlar voru 32 (73%) og konur 12. Karlmenn sem stunda kynlíf með karlmönnum voru 23 (52%) en 16 einstaklingar smituðust við kynmök við einstakling af gagnstæðu kyni og fimm voru með aðra eða óþekkta smitleið. Tveir einstaklingar (karl og kona) greindust með alnæmi á Íslandi á árinu 2023 en ekkert andlát varð.

Helsta smitleið HIV er við óvarin kymök en smit getur einnig borist frá HIV-smituðum einstakling með sprautum og sprautunálum og HIV-smituð móðir getur smitað fóstrið á meðgöngu, barn sitt í fæðingu eða við brjóstagjöf.

HIV eftir kyni 2019-2023

Hægt er að fara í HIV-próf á göngudeild smitsjúkdóma og húð- og kynsjúkdómadeild Landspítala eða á heilsugæslustöðvum. Sjá nánar á vef embættis landlæknis. Þá býður Stöð 69 HIV-Íslands upp á HIV-hraðpróf og ráðgjöf.

Sóttvarnalæknir

Heimildir: