„Sjúkraflutningar eru hópíþrótt,“ segir bifreiðasmiðurinn sem byrjaði 12 ára á sjónum með afa, en langar mest að vinna einn á gröfu
3. desember 2024
HSU á Selfossi // Hermann Marinó Maggýarson, yfirmaður sjúkraflutninga
Viðmælandi okkur að þessu sinni er Hermann Marinó Maggýarson, en hann er yfirmaður sjúkraflutninga hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU). Hermann hóf sjómennsku fyrir fermingu, en leiddist síðan eins og afi sinn út í sjúkraflutninga.
Nafli alheimsins
Við spyrjum Hermann fyrst um bakgrunn hans. „Ég er fæddur árið 1977 í Reykjavík, en alinn upp í nafla alheimsins, Ólafsvík. Gekk í grunnskóla þar í bæ, en fór svo í Iðnskólann í Reykjavík og lærði bifreiðasmiðinn."
Byrjaði á sjónum 12 ára
Atvinnuþátttaka Hermanns hófst óvenju snemma á Snæfellsnesinu. „Ég byrjaði 12 ára gamall að stunda sjóinn fyrir vestan með afa og var öll sumur á sjónum fram að 18 ára aldri. Þá fór ég að vinna á göfum og vörubílum. Ég byrja svo í sjúkraflutningum 1999 og hef ekki litið til baka, enda vinn ég við skemmtilegasta starf í heimi. Ég er giftur Regínu V Reynisdóttur og við eigum tvær stelpur, þær Hugrúnu Höddu og Heru Laufey. Áhugamálin utan vinnu eru körfubolti og bílar. Ástríðan er fjölskyldan.“
Sjúkraflutningamaður eins og afi
En hvers vegna valdi Hermann sér þennan starfsferil upphaflega, fyrir aldarfjórðungi? „Ég var alltaf spenntur sem ungur strákur að sjá sjúkrabíla eins og margir á þeim aldri. Þannig að þegar ég var seinna beðinn um að aka sjúkrabíl, þá var ég fljótur að segja já. Ég er alinn upp hjá ömmu og afa í Ólafsvík. Afi var einn af fyrstu sjúkraflutningamönnunum í bænum, þannig að eðlilega vildi ég gera það sama og afi!“
Einn á gröfu
Við spyrjum okkar mann um hvaða starfsferil hann myndi velja sér, ef hann gæti byrjað upp á nýtt. „Ég myndi vilja vera einn á gröfu að moka skurð alla daga!“
Hluti af góðu liði
Geturðu sagt okkur aðeins nánar frá þínu starfi; hvað felur það í sér? „Mitt hlutverk er margþætt en fyrst og fremst er ég hluti af góðu liði sem sinnir sjúkraflutningum. Ég er yfir sjúkraflutningum á öllu Suðurlandi. Við erum með starfsstöðvar á Selfossi, Hvolsvelli, Vík, Kirkjubæjarklaustri, Höfn og Vestmannaeyjum. Að auki sinnum við Þingvöllum og erum með vettvangsliða á Flúðum og í Öræfum. Við erum með hátt í 40 manns í sjúkraflutningum að öllu samanlögðu, sem ganga sólarhringsvaktir, dagvaktir og bakvaktir eftir þörfum. Umdæmið er það stærsta að flatarmáli á landsvísu og því sinnir fjölmennur hópur afburðafólks í úrvalsflokki. En við þurfum að bæta við okkur mannskap til að auka viðbragðsflýti og tryggja öryggi skjólstæðinga okkar."
Sjúkraflutningar eru hópíþrótt
„Ég sé um að fylgast með rekstri og hinum faglega hluta vinnunar hjá okkur, en mikil vinna fer í margvíslega samvinnu við aðra viðbragðsaðila. Ég geri þetta alls ekki allt einn, því Þorsteinn Hoffritz aðalvarðstjóri er mér mikill styrkur í þessu öllu. Ég lít smávegis á starfsemina hérna eins og lið. Sjúkraflutningar eru hópíþrótt. Það hafa allir eitthvað fram að færa og liðsheildin verður alltaf betra þegar fólk fær að njóta sín. Ég legg mikla áherslu á að fólki líði vel í vinnunni.“
Vilja manna fleiri bíla
Er eitthvað nýtt framundan eða á sjóndeildarhringnum í vinnunni, sem gaman er að segja frá? „Við erum alltaf að reyna að verða faglegri og betri sem lið, en svo erum við líka stöðugt að berjast fyrir fleiri sjúkraflutningamönnum til að getað mannað fleiri bíla! Staðreyndin er sú að HSU ber ábyrgð á sjúkraflutningum á svæði sem spannar um 31 þúsund ferkílómetra. Á undanförnum árum hefur eftirspurn eftir sjúkraflutningum á Suðurlandi aukist verulega auk þess sem ferðamannastraumurinn hefur margfaldast.“
Sjúkraflutningum fjölgað gríðarlega
„Síðustu 5 ár hefur íbúum á svæðinu fjölgað um 17% og sjúkraflutningum HSU árin 2020 til 2023 fjölgaði um 43%. Til að bregðast við þessum gríðarlega vexti er nauðsynlegt að fjölga sjúkraflutningafólki hjá HSU og það er ósk um þau útgjöld nú til meðferðar í heilbrigðisráðuneytinu.“
Yfirlit yfir fjölda útkalla sjúkraflutninga á Suðurlandi á tímabilinu 2020 til 2023. Tölurnar sýna annars vegar útköll í Árnessýslu og austur á Kirkjubæjarklaustur og hins vegar útköll á öllu starfssvæði HSU, þar með talið í Vestmannaeyjum og á Höfn.
Hluti af hinni öflugu liðsheild sem myndar sjúkraflutningateymið hjá HSU.
„Umdæmið er það stærsta að flatarmáli á landsvísu og því sinnir fjölmennur hópur afburðafólks í úrvalsflokki. En við þurfum að bæta við okkur mannskap til að auka viðbragðsflýti og tryggja öryggi skjólstæðinga okkar."
„Ég byrja svo í sjúkraflutningum 1999 og hef ekki litið til baka, enda vinn ég við skemmtilegasta starf í heimi.“
„Ég er alinn upp hjá ömmu og afa í Ólafsvík. Afi var einn af fyrstu sjúkraflutningamönnunum í bænum, þannig að eðlilega vildi ég gera það sama og afi!“