Hjúkrunarstjóri á heimavelli í heilsugæslunni
13. júní 2025
Viðtal // Berglind Rós Ragnarsdóttir, hjúkrunarstjóri heilsugæslu HSU í Hveragerði og Þorlákshöfn

Berglind Rós Ragnarsdóttir er hjúkrunarstjóri á heilsugæslustöðvunum í Hveragerði og Þorlákshöfn. Við tókum hús á Berglindi og spurðum fyrst um upprunann. ,,Ég er fædd og uppalin í neðra Breiðholti. Ég er því algjört borgarbarn, stóð að minnsta kosti í þeirri trú alveg þangað til að við fjölskyldan tókum ákvörðum um að flytja út fyrir höfuðborgina fyrir rétt tæpum 5 árum síðan. Við erum búsett í Hveragerði og viljum hvergi annarsstaðar vera. Ég er því smá sveitastelpa í mér eftir allt saman!”
Berglind Rós hóf störf á heilsugæslunum í Hveragerði og Þorlákshöfn haustið 2020 og sinnti þar ýmsum verkefnum sem tilheyra undir heilsugæslu en var þó að mestu í heimahjúkrun. Það var svo árið 2023 sem hún tók við stöðu hjúkrunarstjóra.
Samvinna, gleði og virðing einkennir teymið
Hvernig er starfslýsingin þín og vinnudagurinn? ,,Sem hjúkrunarstjóri ber ég ábyrgð á daglegum rekstri, skipulagi eininga og hjúkrunarþjónustu í góðri samvinnu við starfsfólk. Ég er auk þess að sinna klínískri hjúkrun samhliða og finnst gaman að takast á við allskonar verkefni. Þessi misserin eru nokkur spennandi verkefni í gangi á heilsugæslunum í Hveragerði og Þorlákshöfn sem krefjast fundarsetu, námsdaga og skipulagsvinnu með góðum hópi fólks. Starfið mitt er því mjög fjölbreytt, enginn dagur er eins og ég hlakka alltaf til að mæta í vinnuna. Það er dýrmætt. Starfsfólkið og starfsandinn er númer 1, 2 og 3 í teyminu mínu. Hér ríkir mikil samvinna, gleði og virðing.”
Sjúkraliði og hjúkrunarfræðingur
Hvernig gekk menntavegurinn fyrir sig? ,,Eftir grunnskólann hóf ég nám við Fjölbrautaskólann í Breiðholti og útskrifaðist sem sjúkraliði með stúdentspróf árið 2006. Það var svo ekki fyrr en tíu árum seinna, árið 2016, sem ég fór loksins í hjúkrunarfræði við HÍ og útskrifast úr því námi árið 2020. Þremur árum seinna var svo ég búin að bæta við mig diplómagráðu í öldrunar- og heimahjúkrun. Ég stefni á frekari menntun sem nýtist í mínu starfi og er stöðugt með augu og eyru opin fyrir tækifærum til að dýpka þekkingu.”
Á heimavelli í heilsugæslunni
En hvers vegna valdirðu þennan starfsferil og þessa menntun? ,,Innst inni og alveg frá því ég man eftir mér hef ég alltaf haft þann draum að starfa innan heilbrigðiskerfisins. Fyrst sem ljósmóðir, en svo lá áhuginn í að verða skurðlæknir eða skurðhjúkrunarfræðingur. Á meðan ég var í sjúkraliðanáminu vann ég á hjúkrunarheimili og þar kviknaði áhuginn minn á öldrunarhjúkrun þótt ég hafi síðan ekki alltaf starfað á því sviði. Sá áhugi varð svo enn sterkari í hjúkrunarfræðináminu ásamt heilsugæsluhjúkrun og nú er ég loksins búin að ákveða hvað ég ætla að verða þegar ég er orðin stór, ekki seinna vænna, alveg að verða fertug. Í heilsugæslunni er ég á heimavelli. Heilsugæslan er fjölbreyttur starfsvettvangur þar sem maður fær tækifæri til að sinna allskonar verkefnum og kynnast fjölbreyttum hópi skjólstæðinga. Ég brenn fyrir faginu og er mjög stolt af því að vera hjúkrunarfræðingur.”
Sjúkraliði á hjúkrunarheimilum og geðsviði
Hvað gerirðu áður, lumarðu ekki á markverðum fyrri störfum? ,,Ég vann nokkur ár á hjúkrunarheimilum samhliða sjúkraliðanáminu og eftir útskrift 2006 starfaði ég sem sjúkraliði á geðsviði Landspítalans í nokkur ár. Fór um tíma í sjálfstæðan atvinnurekstur, en heilbrigðisgeirinn togaði alltaf fast í mig. Meðfram hjúkrunarfræðináminu var ég með annan fótinn á heila-, tauga og bæklunarskurðdeild á Landspítalanum. Það blundaði þó alltaf í mér að fara meira út í öldrunarhjúkrun og strax eftir útskrift úr hjúkrunarfræðinni vann ég í heimahjúkrun hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.”
Þriggja barna móðir gift listmanni
Við forvitnumst um fjölskylduhagi Berglindar. ,,Ég er gift Sindra Arinbjarnarsyni. Hann er starfandi húðflúrari á Íslenzku húðflúrstofunni, einni elstu húðflúrstofu landsins. Við eigum saman tvær dætur þær Heiðdísi Lilju 12 ára og Sóldísi Þúfu 6 ára. Auk þess græddi ég eina bónusstelpu, hana Efemíu, sem er 25 ára myndlistarkennari og búsett í Noregi.”
Alltaf með eitthvað á prjónunum
Að endingu spyrjum við um lífið eftir vinnu. ,,Ég prjóna mjög mikið og hlusta á meðan á góða glæpasögu á Storytel. Ég verð alltaf að hafa eitthvað á prjónunum og fer helst ekki út úr húsi án prjónatöskunnar. Ég er líka afskaplega dugleg að deila prjónaboðskapnum og til að mynda erum við nokkur í vinnunni að prjóna okkur jólapeysur í tæka tíð fyrir næstu jól. Hittumst reglulega utan vinnutíma og prjónum saman. Frítímanum eyði ég að mestu heima með fjölskyldunni og heimiliskettinum henni Mæju. Við ferðumst líka reglulega hvort sem það er innanlands eða utanlands og höfum gaman að því að upplifa nýja staði og njóta samverunnar öll saman.”

Svipmynd frá heilsugæslunni í Hveragerði: Frá vinstri eru Eva Sigríður Kristmundsdóttir, Berglind Rós Ragnarsdóttir, Vignir Þór Bjarnason, Ásta Kristjana Jensdóttir, Guðfinna Ýr Sumarliðadóttir, Ómar Ragnarsson, Súsanna María Kristinsdóttir og Hrafn Hlíðdal.

Svipmynd frá heilsugæslunni í Þorlákshöfn: Frá vinstri eru Sólborg Berglind Heimisdóttir, Hrönn Harðardóttir, Guðný Sigurðardóttir, Elín Þóra Elíasdóttir, Rakel Daðadóttir og Sigrún Ína Ásbergsdóttir.
Heilsugæslur HSU í Hveragerði og Þorlákshöfn í hnotskurn
Hver eru helstu verkefni stöðvanna?
,,Verkefnin eru mörg og fjölbreytt. Við sinnum almennri heilsugæslu og starfsemin er nokkuð svipuð á báðum stöðvum. Við lítum á Hveragerði og Þorlákshöfn sem eina heilsugæslustöð í tveimur húsum og skipuleggjum starfsemina eftir því. Flest okkar starfsfólk fer á milli stöðvanna tveggja og við vinnum eftir sama verklagi. Fyrir utan hefðbundnar lækna- og hjúkrunarmóttökur sinnum við mæðravernd, ungbarnavernd og ungbarnavitjunum, heimahjúkrun, skólahjúkrun og lífstílsmóttökum, svo eitthvað sé nefnt.”
Hversu mörg eruð þið?
,,Starfsmannahópurinn telur um 18 manns að öllu jöfnu. Þar af eru 6 læknar, 8 hjúkrunarfræðingar, 3 móttökuritarar og starfsfólk í ræstingu. Svo erum við lánsöm að fá reglulega til okkar verktaka og sérnámsgrunnlækna í skemmri eða lengri tíma. Auk þess koma til okkar ljósmæður, lífeindafræðingar, sálfræðingar og barnalæknir. Það ríkir mikil og góð samvinna á milli stöðvanna tveggja ásamt samvinnu við aðrar heilsugæslustöðvar og fagfólk innan HSU. Það eru engir hausverkir, bara lausnir ”
Er eitthvað spennandi á sjóndeildarhringnum?
,,Það eru allskonar spennandi verkefni í gangi hjá okkur sem miða að því að bæta þjónustu við skjólstæðinga okkar enn frekar. Hveragerði er til að mynda eitt af sveitarfélögunum sem tekur þátt í verkefninu Gott að eldast. Við erum einnig að vinna að verklagi í tengslum við lífstílsmóttöku í samvinnu við næringarráðgjafa og bindum við vonir um að fá fleiri fagaðila þar inn.”
Hvernig hljómar framtíðarsýnin?
,,Okkar markmið er ávallt að tryggja góða þjónustu og auka framboð eftir þjónustu eins og hægt er. Undanfarna mánuði höfum við til dæmis aukið framboð eftir tímum í blóðrannsókn sem mikil ánægja er með meðal skjólstæðinga og starfsfólks. Heilsugæslan í Hveragerði fékk blöðruómtæki að gjöf frá Kvenfélagi Hveragerðis um síðustu jól sem hefur nýst mjög vel í okkar starfsemi. Jafnframt getum við nú boðið upp á öndunarmælingar í bæði Hveragerði og Þorlákshöfn.”