Fara beint í efnið
Heilbrigðisstofnun Suðurlands Forsíða
Heilbrigðisstofnun Suðurlands Forsíða

Heilbrigðisstofnun Suðurlands

,,Hjá geðheilsuteymi HSU er traust og virðing ofar öllu”

20. janúar 2025

HSU á Selfossi // Svanhildur Inga Ólafsdóttir, teymisstjóri geðheilsuteymis

Svanhildur Inga Ólafsdóttir, félagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur, teymisstjóri geðheilsuteymis HSU

Félagsráðgjafinn og fjölskyldufræðingurinn Svanhildur Inga Ólafsdóttir er teymisstjóri geðheilsuteymis Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU). Viðmælandi okkar er fædd í Vestmannaeyjum árið 1979 og bjó þar sín fyrstu 10 ár, en flutti þá á Selfoss þar sem hún hefur búið nokkuð samfleytt síðan. Sem félagsráðgjafi starfaði Svanhildur áður við barnavernd og starfstengda endurhæfingu og rak svo eigið fyrirtæki í nokkur ár áður en hún var ráðin teymisstjóri geðheilsuteymis HSU í ágúst 2019.

TRAUST OG VIRÐING OFAR ÖLLU
Hvernig er samsetning og fjöldi starfsfólks í Geðheilsuteyminu? ,,Teymið hérna á Selfossi er skipað átta starfsmönnum og við erum að auki í náinni samvinnu við önnur teymi og deildir innan HSU. Fagþekking í teyminu er fjölbreytt og allt starfsfólk hefur byggt ofan á sína grunnmenntun og með sérhæfingu  á mismunandi sviðum. Ég er virkilega stolt af þeim starfsmannahópi sem ég vinn með. Hjá geðheilsuteymi HSU er traust og virðing ofar öllu.”

MAGNAÐ MÖTUNEYTI
Hvað er það besta við vinnustaðinn? ,,Ég hlakka til að mæta í vinnuna á hverjum degi því ég vinn með fólki sem hefur húmor, vinnur vel og þétt saman, hugar að hvort öðru, er lausnamiðað og er tilbúið að hugsa út fyrir boxið. Ég tel það til forréttinda að starfa á vinnustað eins og HSU þar sem maður fær tækifæri til að vaxa og þróast í sinni faggrein. Og svo er mötuneytið líka magnað og alltaf góður matur sem ýtir undir starfsánægju!”

STJÓRNANDI MEÐ TVO HATTA
Við forvitnumst um starf Svanhildar. ,,Ég er í rauninni með nokkra hatta ef þannig má að orði komast. Sem teymisstjóri ber ég ábyrgð á starfsemi teymisins, mannaforða, stuðla að þróun, skipulagi og endurskoðun verklags. Ég hef einstakan hóp fagaðila í teyminu sem mér þykja forréttindi að fá að starfa með. Starfsfólk teymisins er víðsýnt og lausnamiðað og vinnum við saman að því að veita fjölbreytta þjónustu. Annar hattur er að vera málastjóri sem hefur það hlutverk að halda utan um meðferðaráætlun skjólstæðinga í teyminu, veita meðferð og hópaúrræði. Einnig fer mikill tími í allskonar fundi er varða samstarf, ákvarðanir, framkvæmdir og þróun.”

VAXANDI ÞJÓNUSTUÞÖRF
,,Geðheilsuteymið er skilgreint sem 2.stigs skammtíma geðendurhæfing fyrir einstaklinga með greindan geðsjúkdóm, sem þurfa á þverfaglegri þjónustu að halda. Teymið var stofnað á haustmánuðum 2019 og umfang verkefna hefur vaxið mikið á þeim fimm árum sem við höfum starfað. Okkar verkefni eru gríðarlega mörg og fjölbreytt. Geðheilbrigðismál hafa verið mikið í umfjöllun síðustu ár og auðvitað tökum við undir þær áhyggjur sem eru á lofti varðandi bið eftir þjónustu. En þetta er oft og tíðum mjög flókinn vandi og mikilvægt að vanda vel til verka og finna lausnir með einstaklingunum sem miða að þeirra bata og betri lífsgæðum. Samvinna við önnur kerfi eða önnur úrræði er sömuleiðis áríðandi verkefni, sem og að vinna með einstaklingum heildrænt.”

STÖÐUG FRAMÞRÓUN
Er eitthvað nýtt á sjóndeildarhringnum í vinnunni? ,,Teymið er í stöðugri þróun og við viljum að þjónustan taki breytingum í takt við þarfir einstaklinganna sem nýta þjónustuna. Við horfum bjartsýn á framtíðina og höfum trú á að húsakostur teymisins muni batna og að við fáum tækifæri til að stækka og efla okkar þjónustu. Við höfum miklar væntingar um stækkun teymisins til að geta útfært þjónustuna á þann hátt að biðlistar styttist. Við viljum efla þau meðferðarúrræði sem við þegar höfum upp á að bjóða og framtíðarsýnin er að HSU verði framúrskarandi í þjónustu á geðheilbrigðissviði.”

MENNTAVEGURINN
Við lítum aftur til fortíðar og spyrjum Svanhildi um menntaveginn. ,,Ég lauk grunnskóla á Selfossi, en tók mér síðan frí frá námi í óþarflega langan tíma. Með hvatningu og stuðningi frá fjölskyldunni lauk ég svo stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Suðurlands og lærði félagsliða í Borgarholtsskóla áður en ég nam félagsráðgjöf við Háskóla Íslands. Tveimur árum eftir að ég lauk meistaraprófi í félagsráðgjöf bætti ég við mig tveggja ára námi í fjölskyldufræði, ásamt því að læra sáttamiðlun og EMDR-áfallameðferð, sem ég legg áherslu á að viðhalda með reglulegri sí- og endurmenntun.“

BRENNANDI ÁHUGI Á FÓLKI
En hvers vegna valdirðu þér þennan starfsferil? ,,Starf félagsráðgjafa er fjölbreytt og skemmtilegt og snertir marga fleti í vinnu með einstaklingnum. Ég held að brennandi áhugi minn á fólki hafi leitt til þess að ég valdi þennan starfsvettvang. Mér finnst saga hvers og eins áhugaverð og er þakklát öllum þeim sem hafa treyst mér til að vinna með sér.“

ÁHRIFARÍKUR VINKONUHÓPUR
Voru einhverjir áhrifavaldar eða áhrifaþættir öðrum fremri þegar kom að því vali? „Hugsanlega hefur vinkonuhópurinn haft áhrif á unglingsárunum, við áttum mörg trúnaðarsamtöl og leituðumst við að styðja hver aðra. Ég myndi segja að vinnan mín í dag sé nokkuð áþekk slíkum samtölum þar sem skjólstæðingar veita manni traust fyrir sínum erfiðustu tilfinningum og erfiðleikum og við reynum síðan í sameiningu að finna leiðir til að bæta líðan.“

FORMAÐUR KRABBAMEINSFÉLAGS ÁRNESSÝSLU
Hvernig eru fjölskylduhagir og lífið utan vinnu? ,,Ég er gift Ölver Jónssyni flugmanni og við eigum fimm börn, hund og páfagauk. Síðustu sex ár hef ég gegnt starfi formanns Krabbameinsfélags Árnessýslu þar sem ég nýt þess að byggja upp  þjónustu í heimabyggð ásamt öflugri stjórn og sjálfboðaliðum sem koma að starfinu. Ég stunda jafnframt líkamsrækt og ver tíma með fjölskyldunni minni. Okkur finnst gaman að ferðast erlendis, fara í útilegur eða dvelja í sumarbústað.“

Geðheilsuteymi HSU á Selfossi. Frá vinstri til hægri eru Ragnheiður Kristín Björnsdóttir (fremst), Guðrún Geirsdóttir, Svanhildur Inga Ólafsdóttir, Helena Bragadóttir, Jónína Lóa Kristjánsdóttir, Gunnar Þór Gunnarsson og Thelma Sif Einarsdóttir.

Geðheilsuteymi HSU á Selfossi. Frá vinstri til hægri eru Ragnheiður Kristín Björnsdóttir (fremst), Guðrún Geirsdóttir, Svanhildur Inga Ólafsdóttir, Helena Bragadóttir, Jónína Lóa Kristjánsdóttir, Gunnar Þór Gunnarsson og Thelma Sif Einarsdóttir. Á myndina vantar Gunnhildi Stellu Pálmarsdóttur.