Heimaspítali HSU þróaður til að bæta þjónustu og auka skilvirkni
22. apríl 2025
Heimaspítali HSU // Guðný Stella Guðnadóttir, yfirlæknir

Mikil og góð reynsla er nú komin á Heimaspítala HSU, sem hefur verið starfræktur hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi undanfarin misseri. Frumkvöðull Heimaspítalans er Guðný Stella Guðnadóttir, lyf- og öldrunarlæknir, sem segir spítalann þann fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. HSU rekur þríþætta þjónustu í heimahúsum: Heimaspítalann, líknarteymi og hefðbundnar vitjanir heimilislæknis.
Betri þjónusta og meiri skilvirkni
Guðný Stella segir samfélagið standa andspænis mikilli fjölgun í elsta aldurshópnum. ,,Því ber að fagna. Eldra fólk gefur svo mikið af sér til samfélagsins. En í þessari fjölgun felast líka ærin verkefni í heilbrigðisþjónustu. Um áttatíu prósent fólks 65 ára og eldra þurfa fremur litla þjónustu hjá heilbrigðiskerfinu, en hin tuttugu prósentin geta þurft mjög mikla þjónustu. Við hjá Heimaspítala HSU sinnum einnig fólki með líknandi áherslur í meðferð á öllum aldri og fólki sem er með fatlanir og á erfitt með að koma á heilsugæsluna. Heimaspítali HSU var þróaður til að mæta þörfum þessara hópa. Þannig fer saman bætt þjónusta og aukin skilvirkni."
Vaxandi þróun í heilbrigðiskerfinu
Algengustu viðfangsefni Heimaspítalans eru mæði og slappleiki, sem gjarnan tengjast hjarta- eða lungnasjúkdómum. Um 20% sjúklinga Heimaspítalans fá líknarmeðferð. Guðný Stella segir að hægt sé að veita afbragðsgóða heilbrigðisþjónustu í heimahúsum, sambærilega sjúkrahúsþjónustu að flestu leyti. Hún kveður göngu- og dagdeildarþjónustu sjúkrahúsa vera hvarvetna mjög vaxandi, ásamt fjarvöktun í heimahjúkrun, og vill efla heimahjúkrun og vitjanaþjónustu heimilislækna, ásamt því að stuðla að möguleikum til endurhæfingar í heimahúsum.
Mikil ánægja með verkefnið
,,Heimaspítalinn gengur mjög vel. Við erum að sinna flóknum sjúklingahópi og fækka komum á bráðamóttöku. Þetta eru sjúklingar með margbrotnar þarfir sem farnast oft ekki vel inni á sjúkrahúsum. Heimaspítalinn sinnir þörfum þessa veikasta hóps prýðilega, en þó með aðferðum sem eru einfaldari og ódýrari en vist á sjúkrahúsi. Það ríkir mikil ánægja með verkefnið meðal skjólstæðinga og ættingja þeirra og starfsfólks."
Þjónustusvæði heimaspítalans stækkað
Þjónustusvæði Heimaspítala HSU er sveitarfélagið Árborg og þar búa um 12 þúsund manns, en skjólstæðingar Heimaspítalans voru um 120 talsins 2024. ,,Við höfum í huga að stækka þjónustusvæðið út fyrir Árborg á næstu mánuðum. Ef við lítum á aðrar nýjungar á döfinni, þá erum við nýbyrjuð að gefa fólki súrefni heima vegna bráðra veikinda. Við læknarnir í Heimaspítalanum ætlum sömuleiðis að læra að ómskoða eins og bráðalæknar gera í dag og fara að gera það í vitjunum þegar þörf. Jafnframt erum við að velta fyrir okkur að prófa fjarviðtöl læknis."

Thelma Dröfn Ásmundsdóttir hjúkrunarfræðingur, Guðný Stella Guðnadóttir læknir og Sólveig Hrönn Gunnarsdóttir hjúkrunarfræðingur.

Sólveig Hrönn, Thelma Dröfn og Guðný Stella.