Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Heilbrigðisstofnun Suðurlands Forsíða
Heilbrigðisstofnun Suðurlands Forsíða

Heilbrigðisstofnun Suðurlands

Fréttapóstur HSU - 3. tölublað - sumar 2025: „Hjartað í HSU“

8. ágúst 2025

Hjartað í HSU // Sumar 2025

Hérna birtum við 3. tölublaðið af fréttapósti Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, sem við köllum einfaldlega „Hjartað í HSU". Þessi sumarútgáfa inniheldur tíðindi frá júní, júlí og ágúst. Smelltu hérna til að skoða Hjartað (PDF). Jafnframt er hægt að fletta gegnum myndir á samfélagsmiðlum HSU til að skoða stakar blaðsíður (JPG).

Sumarið hefur verið bæði viðburðaríkt og uppbyggilegt á HSU. Fjölbreytt umbótaverkefni hafa verið framkvæmd og mikilvæg þróunarverkefni náð góðum árangri. Þetta er allt liður í okkar sameiginlega markmiði, sem er að veita aðgengilega, öfluga og örugga heilbrigðisþjónustu. Í þessu tölublaði Hjartans er sjónum beint að slíku verkefni, en þar á ferð er metnaðarfull og mikilvæg lífsstílsmóttaka heilsugæslunnar fyrir börn með offitu.

Brautryðjandi þróunarverkefni: Kraftmiklir krakkar

,,Allt að 10% barna á landsbyggðinni og tæplega 8% barna á landinu öllu – eða um 4.500 börn á aldrinum 6-18 ára – glíma nú við offitu og vandinn hefur farið vaxandi undanfarin ár. Þjónustuúrræðin til að fást við þennan vanda með skipulögðum hætti í okkar annars mögnuðu heilbrigðisþjónustu hafa fram til þessa verið takmörkuð og einskorðast við Heilsuskóla Barnaspítala Hringsins í Reykjavík.

Við hjá HSU sáum því brýna þörf á að bjóða upp á úrræði í heimabyggð og hófum þróunarverkefnið Kraftmikla krakka sem hefur alla burði til að verða fyrirmynd á landsvísu og þótt víðar væri leitað. Skimun fór fram meðal barna í 1., 4. og 7. bekk á Suðurlandi. Þeim börnum sem greindust með offitu og foreldrum þeirra var boðin þátttaka í sex mánaða viðtalsferli með hjúkrunarfræðingi og lækni. Alls hafa um fimmtíu börn og fjölskyldur þeirra tekið þátt, hvaðanæva úr umdæminu. 

Það er skemmst frá því að segja að mikil ánægja hefur verið með verkefnið hjá bæði börnunum og og foreldrum þeirra, auk þess sem okkar metnaðarfulla starfsfólk er ákaflega stolt af þessari vinnu. Árangurinn hefur verið ótvíræður og ávinningurinn af velgengni verkefna af þessu tagi fyrir bæði skjólstæðinga okkar og heilbrigðiskerfið í heild sinni er sömuleiðis augljós," skrifar Díana Óskarsdóttir forstjóri meðal annars í inngangspistli sínum í þessu tölublaði Hjartans.


Markmið og tilgangur Hjartans

Markmið og tilgangur Hjartans er að veita almenningi, starfsfólki og skjólstæðingum innsýn í þau fjölbreyttu og krefjandi viðfangsefni sem HSU vinnur að á hverjum degi. Með þessum hætti miðlum við áhugaverðu efni og bjóðum fólki í stafræna heimsókn til að kynnast starfsemi og mannauði HSU. Verkefnið hefur stuðlað að auknum sýnileika HSU í umdæminu og við þökkum frábærar viðtökur.

Öflug upplýsingamiðlun er lykilatriði í að byggja upp og viðhalda góðum starfsanda. Hún tryggir jafnframt að starfsfólk sé vel upplýst um málefni sem varða þeirra starf og hlutverk innan heildarinnar. Með reglulegri og markvissri miðlun upplýsinga stuðlum við að opnari og skilvirkari samskiptamenningu innan HSU, Markmiðið er að verkefnið endurspeglist í betri samvinnu og sterkari liðsheild, sem aftur skilar sér í jákvæðri upplifun bæði skjólstæðinga og starfsfólks.