Móttaka fyrir börn og unglinga með ADHD opnar í haust
10. júní 2025
Heilbrigðisstofnun Austurlands vinnur nú að því að opna móttöku fyrir börn og unglinga sem fá lyfjagjöf vegna ADHD. Teymið mun fylgja eftir börnum og unglingum upp að 18 ára aldri á öllu Austurlandi. Starfstöð teymisins verður fyrst um sinn á Egilsstöðum.
Umfang eftirfylgdarinnar er misjafnt og fer meðal annars eftir aldri barns og þörfum hvers barns og fjölskyldu þess. Þó verður eftirfylgd aldrei sjaldnar en einu sinni á önn hjá hjúkrunarfræðingi og árlega hjá lækni.
Við eftirfylgdina verður fylgst með lífsmörkum, hæð og þyngd. Jafnframt verður óskað upplýsinga um mataræði, svefn, kippi, krampa og geðvanda. Auk þess kann að vera spurt um venjur á heimilinu og mögulegar breytingar á högum barnsins. Möguleiki á lyfjahléi kann að verða ræddur.
Stefnt er að því að formleg opnun móttökunnar verði um miðjan september 2025. Fram að því er mögulegt að senda fyrirspurnir til teymishjúkrunarfræðings á netfangið adhd.teymi@hsa.is.