Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála Forsíða
Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála Forsíða

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála

Fyrri fasa athugunar GEV á búsetuúrræðum fyrir fullorðið fatlað fólk er lokið

14. nóvember 2025

Í apríl 2024 hóf GEV frumkvæðisathugun á búsetuúrræðum fyrir fullorðið fatlað fólk sem nær til allra sveitarfélaga landsins.

Frumkvæðisathugunin skiptist í tvo fasa og er þeim fyrri nú lokið með útgáfu skýrslu sem finna má hér að neðan. Í þessum fyrri fasa athugunarinnar var sendur út spurningalisti til allra sveitarfélaga landsins þar sem spurt var út í sjö atriði sem varða þjónustu sveitarfélaganna við fatlað fólk. Einnig var óskað eftir yfirliti yfir öll búsetuúrræði sveitarfélaganna fyrir fatlað fólk, fyrir hvaða hóp þau væru ætluð og hvort þau væru rekin af sveitarfélögunum sjálfum eða af einkaaðilum.

Spurt var hvort sveitarfélagin hefðu sett sér eftirfarandi:

Stefnu í þjónustu við fatlað fólk?

Fræðsluáætlun í málefnum fatlaðs fólks?

Viðbragðsáætlun þegar grunur vaknar um ofbeldi gagnvart þjónustunotendum?

Viðmið um fjölda íbúða í íbúðakjörnum fyrir fatlað fólk?

Áætlun um að bjóða íbúum herbergjasambýla aðra búsetukosti?

Viðmið um mönnun í búsetuúrræðum fyrir fatlað fólk?

Viðmið um fjölda fagmenntaðs starfsfólks í búsetuúrræðum fyrir fatlað fólk?

Alls bárust 26 svör við spurningalistanum fyrir hönd 62 sveitarfélaga. Í mörgum tilfellum eiga sveitarfélög í samvinnu um þjónustu við fatlað fólk og eru með sameiginlegt þjónustusvæði. Í þeim tilfellum svaraði yfirleitt eitt sveitarfélag eða félagsþjónusta viðkomandi svæðis spurningalistanum fyrir hönd fleiri sveitarfélaga.

Á myndinni má sjá hvernig svör sveitarfélaganna skiptust:

Í skýrslunni setur GEV fram ábendingar til sveitarfélaganna varðandi þær úrbætur sem stofnunin telur mikilvægar út frá svörum sveitarfélaganna. Að mati GEV er:

Sérstaklega brýnt að sveitarfélögin setji sér fræðsluáætlanir fyrir starfsfólk sem starfar í þjónustu við fatlað fólk og útbúi viðbraðgsáætlanir fyrir tilfelli þar sem grunur vaknar um ofbeldi í garð þjónustunotenda. Virkar fræðsluáætlanir og viðbragðsáætlanir sem starfsfólk þekkir til eru ekki síst mikilvægar þar sem starfsmannavelta í þjónustu við fatlað fólk er oft á tíðum mikil.

Mikilvægt að tryggja að starfsfólk og stjórnendur þekki til þeirrar tilkynningaskyldu sem gildir í málaflokknum, til dæmis þegar grunur er um brot gegn fötluðu fólki, ef upp koma alvarleg óvænt atvik í þjónustunni og þegar talin er þörf á beitingu nauðungar í einhverju formi gagnvart þjónustunotendum.

GEV telur þessi atriði sérstaklega mikilvæg til þess að stuðla að því að allt starfsfólk sem starfar í þjónustu við fatlað fólk sé meðvitað um lögbundnar skyldur sínar í starfi, sem og þær kröfur sem gerðar eru til gæða þjónustunnar.

Gert er ráð fyrir að síðari fasa frumkvæðisathugunarinnar verði lokið á fyrri hluta næsta árs, en hann felur í sér ítarlegar úttektir á þjónustu í öllum búsetuúrræðum fyrir fullorðið fatlað fólk. Sveitarfélögunum var falið að framkvæma úttekir á úrræðunum með ítarlegum spurningarlista og leiðbeiningum frá GEV, ásamt því að skila inn tillögum að úrbótaáætlunum.

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála

Hafðu samband

Sími: 540 0040

gev@gev.is

Heimilisfang

Suðurlandsbraut 24, 5. hæð

108 Reykjavík

kt. 611221 0100

Hafðu samband

Sími: 540 0040

gev@gev.is

Heimilisfang

Suðurlandsbraut 24, 5. hæð

108 Reykjavík

kt. 611221 0100