Samstarf Norðurlandanna á sviði kjarnöryggis og geislavarna eflt
26. maí 2025
Birt hefur verið stefnuskýrsla norrænu geislavarnastofnananna á sviði kjarnöryggis og geislavarna: "Nordic Strategy Group Report: Enhancing Nordic cooperation in Nuclear and Radiation Safety". Geislavarnastofnanir allra Norðulandanna tóku þátt í verkefninu: DEMA (Danmörk), DSA (Noregur), GR (Ísland), SIS (Danmörk), SSM (Svíþjóð) og STUK (Finnland).

Á forstjórafundi stofnananna í Reykjavík í ágúst 2023 var ákveðið að setja saman hóp til að útbúa stefnuskjal um norrænt samstarf til næstu ára með hliðsjón af vaxandi orkuþörf og breyttri stöðu í heimsmálunum.
Um skýrsluna
Aukinn áhugi er á nýtingu kjarnorku á Norðurlöndunum. Finnland og Svíþjóð hafa tekið upp stefnu sem leyfir aukna nýtingu kjarnorku. Að auki hefur Noregur sett á laggirnar nefnd sem skoðar fýsileika þess að nota kjarnorku til orkuframleiðslu.
Einnig kallar breytt staða í heimsmálunum á aukna samvinnu geislavarnastofnana Norðurlandanna. Innrás Rússa í Úkraínu hefur hefur orðið til þess að geislavarnastofnanir hafa endurskoðað viðbúnaðaráætlanir sínar. Ástæðan er auknar líkur á slysum í kjarnorkuverum í Úkraínu vegna stríðsástandsins þó mögulegar beinar afleiðingar vegna þess yrðu ekki miklar á Norðulöndunum. Einnig þykja kjarnorkuver í Norðvestur-Rússlandi og geymslur fyrir kjarnorkuúrgang á Kólaskaga áhyggjuefni. Þá hefur umferð kjarnorkuknúinna skipa á Norður-Atlantshafinu aukist, þar með talin umferð og heimsóknir kjarnorkuknúinna skipa og kafbáta NATO.
Í ljósi þessa þurfa Norðurlöndin að hafa getu til að takast á við alvarleg geislaslys. Þau þurfa að búa yfir getu til að mæla áhrifin, geta gripið fljótt til viðeigandi öryggisráðstafana og miðla upplýsingum til almennings. Þá þarf einnig að vera til staðar þekking og geta til að þiggja erlenda aðstoð enda hefur hvert land takmarkaðan mannafla og búnað til að takast á við meiriháttar geislalys.
Í skýrslunni er 13 tillögum um bætt samstarf skipt í fjóra flokka:
Regluverk um nýtingu karnorku
Starfsemi á sviði geislavarna
Viðbúnaður og viðbragð við geislaslysum
Alþjóðlegt samstarf
Löng hefði fyrir samstarfi
Norrænt samstarf á sviði geislavarna og kjarnöryggis á sér langa sögu sem hefur styrkt getu landanna til að samræma viðbrögð sín og styðja við evrópskt og alþjóðlegt samstarf.
Skýrslan byggir á langri hefð góðs samstarfs Norðurlandanna með það að markmiði að takast á við áskoranir samtímans og framtíðarinnar.
Lesa má skýrsluna hér: