Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Stofnreglugerð

1545/2021

Reglugerð um slysatryggingar íþróttafólks samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga.

Birta efnisyfirlit

1. gr.

Slysatrygging íþróttafólks tekur til slysa, sem verða við íþróttaiðkanir þeirra sem orðnir eru 16 ára og eru sannanlega félagar í formbundnum félögum, sem hafa íþróttaiðkun að meginmarkmiði og eru aðilar að Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands.

2. gr.

Með íþróttaiðkun er átt við sýningar eða keppni á vegum íþróttafélaga samkvæmt 1. gr. og annarra sambandsaðila Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands svo og skipulagðar íþróttaæfingar sem haldnar eru á vegum þessara aðila undir stjórn þjálfara með það að markmiði að taka þátt í keppni eða sýningum. Sama á við um íþróttaiðkun á vegum erlendra íþróttafélaga fyrir milligöngu íþróttafélaga eða annarra sambandsaðila innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.

3. gr.

Slys sem verða á ferðum til eða frá æfingum, sýningum eða keppni falla ekki undir slysatryggingar íþróttafólks samkvæmt reglugerð þessari. Það sama gildir um slys í búningsherbergjum og baðklefum og slys á keppnis-, sýningar- eða æfingaferðalögum, innanlands sem utan, nema þau sem verða við æfingar, sýningar eða keppni, sbr. 2. gr.

4. gr.

Tilkynning um íþróttaslys skal send Sjúkratryggingum Íslands. Skal tilkynningin vera undirrituð af hinum slasaða og þjálfara hans og stimpluð af íþróttafélaginu eða sambandsaðila innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Einnig skulu fylgja aðrar nauðsynlegar upplýsingar, svo sem áverkavottorð þess læknis sem skoðaði slasaða fyrst eftir slysið.

5. gr.

Bætur slysatryggingar íþróttafólks eru sjúkrahjálp, dagpeningar, örorkubætur og dánarbætur.

Ef bótaskylt slys veldur sjúkleika og vinnutjóni (óvinnufærni) í minnst 10 daga skal greiða nauðsynlegan kostnað vegna lækningar hins slasaða, nánar tiltekið læknishjálp, sjúkrahúsvist, lyf og umbúðir, tannlækningar, sjúkraþjálfun, hjálpartæki, ferðakostnað og sjúkraflutning, samkvæmt 10. gr. laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga og reglugerð nr. 541/2002 um endurgreiðslu slysatrygginga á nauðsynlegum kostnaði vegna sjúkrahjálpar.

Ef slys veldur ekki óvinnufærni í 10 daga greiðist framangreindur kostnaður ekki úr slysatryggingu íþróttamanna.

6. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í e-lið 1. mgr. 7. gr. og 23. gr. laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga, öðlast gildi 1. janúar 2022 og tekur til slysa sem eiga sér stað eftir 31. desember 2021. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 245/2002 um slysatryggingar íþróttafólks samkvæmt III. kafla laga nr. 117/1993 um almannatryggingar.

Heilbrigðisráðuneytinu, 10. desember 2021.

Willum Þór Þórsson
heilbrigðisráðherra.

Guðlaug Einarsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.