Fara beint í efnið

Prentað þann 19. apríl 2024

Stofnreglugerð

1110/2021

Reglugerð um sameiningu annars vegar heilbrigðiseftirlits Mosfellsbæjar og Seltjarnarnesbæjar við Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæði og hins vegar sameiningu heilbrigðiseftirlits Kjósarhrepps við Vesturlandssvæði.

1. gr.

Kjósarsvæði, sbr. 10. tölulið 2. mgr. 45. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunvarnir, er skipt upp og sameinað öðrum eftirlitssvæðum sem hér segir:

  1. Kjósarhreppur sameinast Vesturlandssvæði, sbr. 2. tölulið 2. mgr. 45. gr. laganna, og
  2. Seltjarnarnesbær og Mosfellsbær sameinast Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæði, sbr. 9. tölulið 2. mgr. 45. gr. laganna.

Sameiningu, sbr. 1. mgr., skal lokið 1. janúar 2022.

2. gr.

Eftir sameiningu, sbr. 1. gr., skal, ef þörf er á, kjósa nýjar heilbrigðisnefndir á Vesturlandssvæði og á Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæði sem skulu starfa fram yfir næstu sveitarstjórnarkosningar, sbr. 1. mgr. 45. gr. laga nr. 7/1998. Kjósa skal nýja heilbrigðisnefnd eftir hverjar sveitarstjórnarkosningar á hvoru svæði. Í hvorri nefnd skulu eiga sæti sex menn, fimm kosnir af hlutaðeigandi sveitarstjórnum, þar af skal einn vera formaður, og einn tilnefndur af samtökum atvinnurekenda á eftirlitssvæðinu. Atkvæði formanns ræður úrslitum ef atkvæði falla jafnt í nefndinni. Náttúruverndarnefndir sveitarfélaga á eftirlitssvæðinu eiga rétt á að tilnefna einn fulltrúa í nefndina til viðbótar en hann hefur ekki atkvæðisrétt við afgreiðslu mála í nefndinni. Sömu reglur gilda um varamenn.

3. gr.

Reglugerð þessi er sett er með stoð í 3. mgr. 45. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og að höfðu samráði við sveitarfélög á Vesturlandi, Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, Hafnarfjarðarkaupstað, Garðabæ, Kópavogsbæ, Seltjarnarnesbæ, Mosfellsbæ og Kjósarhrepp og að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar. Reglugerðin er enn fremur sett að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga skv. 3. mgr. 45. gr. laganna.

Reglugerð þessi tekur þegar gildi.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 20. september 2021.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Sigríður Auður Arnardóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.