Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 29. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 6. mars 2009

1060/2008

Reglugerð um mælifræðilegt eftirlit með mælikerfum fyrir eldsneytisskammtara, tankbifreiðar og mjólk.

I. KAFLI Gildissvið og skilgreiningar.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um mælikerfi fyrir eldsneytisskammtara, tankbifreiðar og mjólk sem ætluð eru til samfelldrar og sívirkrar mælingar á rúmmáli, þegar þau eru notuð til beinnar sölu til neytenda og í viðskiptum. Mælikerfi, sem reglugerð þessi tekur til, skulu uppfylla þær kröfur og sæta því mælifræðilega eftirliti sem kveðið er á um í þessari reglugerð og þeim reglum sem hún vísar til.

Setja má á markað og taka í notkun skv. 1. mgr. EBE-mælikerfi og MID-mælikerfi.

2. gr. Skilgreiningar.

Nota skal eftirfarandi skilgreiningar um mælikerfi, sbr. 1. mgr. 1. gr.:

  1. EA (European co-operation for Accreditation) eru Evrópusamtök um faggildingu sbr. lög nr. 24/2006, um faggildingu o.fl.
  2. EBE-sannprófun er frumsannprófun í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 129/1994, um mælitæki og aðferðir við mælifræðilegt eftirlit.
  3. EBE-gerðarviðurkenning er gerðarviðurkenning í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 129/1994, um mælitæki og aðferðir við mælifræðilegt eftirlit.
  4. EBE-mælikerfi eru mælikerfi sem hafa gilda EBE-gerðarviðurkenningu, bera rétt merki þar um og eru innsigluð sbr. reglugerð nr. 129/1994, um mælitæki og aðferðir við mælifræðilegt eftirlit.
  5. Eldsneytisskammtari er mælikerfi ætlað til að fylla á vélknúin ökutæki, litla báta og lítil loftför.
  6. MID-mælikerfi eru mælikerfi sem ekki hafa fullgilda EBE-gerðarviðurkenningu fyrir 30. október 2006 og sem falla undir ákvæði í viðauka MI-005 í viðauka við reglugerð nr. 465/2007, um innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/22/EB, um mælitæki og uppfylla viðeigandi kröfur, bera réttar merkingar þar um og eru innsigluð. Samræmismati MID-mælikerfa skal lokið áður en þau eru tekin í fyrstu notkun.
  7. Mælikerfi er kerfi, sem samanstendur af mælinum sjálfum og öllum búnaði sem krafist er til að tryggja rétta mælingu, eða ætlaður er til að auðvelda mæliaðgerðir. Mælikerfi skiptast samkvæmt töflu 5 í viðauka MI-005 í viðauka við reglugerð nr. 465/2007, um innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/22/EB, um mælitæki eftir notkun upp í mælikerfi á leiðslu, mælikerfi fyrir gas, mælikerfi fyrir lághitavökva og önnur mælikerfi sem einkum eru fyrir eldsneytisskammtara, tankbifreiðar, fermingu og affermingu skipa og tankbifreiða, mjólk og loks áfyllingu loftfara.
  8. Mælir er tæki hannað til að mæla samfellt, geyma og sýna magn vökva við mælingarskilyrði sem rennur í gegnum mælingarbreytinn í lokaðri leiðslu með fullum þrýstingi.
  9. Mælitækjabirgir er framleiðandi, viðurkenndur fulltrúi, seljandi eða dreifingaraðili á mælikerfum sem falla undir gildissvið þessarar reglugerðar, sbr. 8. gr. laga nr. 91/2006.

Auk ofangreindra skilgreininga skal nota skilgreiningar í viðauka MI-005 í viðauka við reglugerð nr. 465/2007, um innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/22/EB, um mælitæki fyrir MID-mælikerfi.

II. KAFLI Mælagerðir, merking og nákvæmnisflokkar.

3. gr. Heimilar gerðir nýrra mælikerfa.

Ekki er heimilt að setja ný mælikerfi á markað og taka í notkun skv. 1. mgr. 1. gr. önnur en EBE- eða MID-mælikerfi.

EBE-mælikerfi skal merkt til samræmis við EBE-gerðarviðurkenninguna áður en það er markaðssett og vera EBE-sannprófað áður en það er tekið í fyrstu notkun, sbr. reglugerð nr. 129/1994, um mælitæki og aðferðir við mælifræðilegt eftirlit.

Sönnun þess að kröfur til EBE-mælikerfa séu uppfylltar skal liggja fyrir í vottorðum um EBE-gerðarviðurkenningu og EBE-sannprófun og með merkingum í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 129/1994, um mælitæki og aðferðir við mælifræðilegt eftirlit.

MID-mælikerfi skulu uppfylla kröfur um samræmi við þær grunnkröfur sem gerðar eru í I. viðauka og þær sérstöku kröfur sem gerðar eru í viðauka MI-005 í viðauka við reglugerð nr. 465/2007, um innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/22/EB, um mælitæki áður en þau eru markaðssett og tekin í fyrstu notkun.

Sönnun þess að kröfur um samræmi MID-mælikerfa séu uppfylltar skal liggja fyrir skjalfest í samræmisyfirlýsingu sem hefur verið gerð á þann hátt sem kveðið er á um í 9. gr. í viðauka við reglugerð nr. 465/2007, um innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/22/EB, um mælitæki og með CE-merkingu og viðbótarmælifræðimerki í samræmi við ákvæði 7. og 17. gr. sama viðauka.

4. gr. Áframhaldandi notkun eldri mælikerfa.

Nota má til verkefna skv. 1. mgr. 1. gr. mælikerfi önnur en EBE- eða MID-mælikerfi sem þegar hafa verið tekin í notkun, meðan þau mæla rétt sbr. ákvæði V. kafla.

5. gr. Fyrsta notkun og merking.

EBE-mælikerfi og MID-mælikerfi, sem uppfylla kröfur 3. gr., teljast hafa löggildingu til fyrstu notkunar sé samræmismati að fullu lokið og uppsetning uppfylli kröfur 7. gr.

Auk þess skal eigandi sjá til þess að þau beri sérstakt merki fyrir ný mælikerfi, sbr. reglugerð nr. 955/2006, um löggildingartákn og merkingar eftirlitsskyldra mælitækja.

6. gr. Hitastig og nákvæmnisflokkar.

Mælikerfi fyrir eldsneytisskammtara, skulu sýna afhent rúmmál við mælingarskilyrði í beinni sölu til neytenda án þess að nota umreikningsbúnað vegna hitastigs.

Þær kröfur sem gerðar eru í 7. lið viðauka MI-005 í viðauka við reglugerð nr. 465/2007 um innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/22/EB, um mælitæki og kveða á um að nota eigi ákveðna nákvæmnisflokka, sem eru háðir því til hvers MID-mælikerfið er notað, eru lágmarkskröfur.

III. KAFLI Um ábyrgð aðila.

7. gr. Kröfur til birgja.

Mælitækjabirgir má ekki markaðssetja, selja eða afhenda mælikerfi til notkunar samkvæmt 1. mgr. 1. gr. nema þau uppfylli ákvæði 3. gr. og önnur viðeigandi ákvæði í þessari reglugerð.

Þegar framleiðandi annast sjálfur uppsetningu mælikerfa er heimilt að taka mælikerfi í notkun án undangenginnar löggildingar og hið sama gildir fyrir dreifingaraðila, sem annast uppsetningu með samþykki og samkvæmt fyrirmælum framleiðanda, hafi dreifingaraðilinn lagt fram tilskilin gögn og verið skráður hjá Neytendastofu.

8. gr. Kröfur til eigenda mælikerfa.

Eigandi mælikerfis ber ábyrgð á því að fá löggildingu hjá prófunarstofu sem hefur til þess umboð, sbr. reglugerð nr. 956/2006, um starfshætti þeirra sem annast löggildingu mælitækja í umboði Neytendastofu.

Eigandi mælikerfa má ekki setja eða láta setja þau upp til notkunar samkvæmt 1. mgr. 1. gr. nema þau uppfylli ákvæði 3. gr. og önnur viðeigandi ákvæði í þessari reglugerð.

Eigandi skal hlíta skilyrðum framleiðanda um aðstæður fyrir notkun og leyfð rekstrarskilyrði. Fyrir MID-mælikerfi skal taka mið af kröfum í tl. 1.3 í I. viðauka og tl. 1 í viðauka MI-005 í viðauka við reglugerð nr. 465/2007, um innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/22/EB, um mælitæki.

Það er á ábyrgð eiganda mælikerfis að sjá til þess að notkunarfrávikin fari ekki yfir tvöfalda mestu leyfðu skekkju, sem höfð er til viðmiðunar fyrir ný mælikerfi, sbr. V. kafla.

9. gr. Kröfur til þjónustuaðila.

Mælikerfi sem notað er skv. 1. mgr. 1. gr. og er með rofið innsigli, hefur farið í viðgerð þannig að það geti haft áhrif á nákvæmni þess eða hefur verið flutt, ber að láta löggilda áður en það er tekið aftur í notkun, sjá þó heimild þjónustuaðila í 14. gr.

Þjónustuaðili, sem hefur framkvæmt einhverja þá aðgerð, sem krefst endurlöggildingar, sbr. 1. mgr. skal þegar tilkynna það eiganda þess.

IV. KAFLI EBE-sannprófun og samræmismat MID-mælikerfa.

10. gr. EBE-sannprófun EBE-mælikerfa.

Framleiðandi ber ábyrgð á að afla EBE-sannprófunar hjá lögbærum stjórnvöldum aðildarríkja EES-samningsins eða þeim sem annast sannprófanir í umboði þeirra.

Neytendastofa getur veitt prófunarstofu umboð til þess að annast EBE-sannprófun hafi hún faggildingu til viðeigandi prófana og skoðunar.

11. gr. Samræmismat MID-mælikerfa.

Framleiðandi ber ábyrgð á samræmismati fyrir MID-mælikerfi. Hann annast það sjálfur með þátttöku tilkynntra aðila samkvæmt fyrirmælum aðferðaeininga við samræmismat, sem lýst er í viðaukum A, B, D, F, G og H1 í viðauka við reglugerð nr. 465/2007 um innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/22/EB, um mælitæki, sbr. einnig reglugerð nr. 957/2006, um aðferðareiningar fyrir hin ýmsu þrep samræmismatsins og reglur um áfestingu og notkun CE-samræmismerkja sem ætlað er að nota í tilskipunum um tæknilega samhæfingu.

Annist birgir eða þjónustuaðili einhvern hluta samræmismatsins, sem framleiðanda er heimilt að annast, er það á ábyrgð framleiðandans og viðkomandi aðili skal uppfylla sömu kröfur og gerðar eru til framleiðanda vegna samræmismatsins.

V. KAFLI Löggilding og prófun mælikerfa í notkun.

12. gr. Löggildingar.

Löggildingar mælikerfa eru heildarskoðanir, þ.e. hver einstakur mælir er löggiltur við lok gildistíma.

Löggildingar eru framkvæmdar af aðila sem annast löggildingar mælitækja í umboði Neytendastofu sbr. reglugerð nr. 956/2006, um starfshætti þeirra sem annast löggildingu mælitækja í umboði Neytendastofu, sjá þó 15. gr. um innra eftirlit í stað löggildinga.

Löggilt mælikerfi skal merkja með löggildingartákni sbr. reglugerð nr. 955/2006, um löggildingartákn og merkingar eftirlitsskyldra mælitækja.

13. gr. Prófun vegna löggildingar.

Til að mælikerfi standist prófun mega skekkjur ekki vera meiri en mesta leyfða skekkja. Gildir þetta um hvert atriði sem prófað er eftir því sem við á. Innsigla skal mælikerfi hafi það hluti sem notanda er óheimilt að fjarlægja eða stilla áður en löggildingartákn er sett á.

Prófað skal við dæmigert rennsli og fyrir það magn sem mæliker prófunaraðila leyfa með þeim fyrirvara að lítil mæliker geta valdið of mikilli óvissu við prófunina. Prófun skal framkvæmd í það minnsta við Qmax-raun fyrir dæmigert sölumagn svo sem 20 eða 25 lítra þegar um söludælur fyrir eldsneyti er að ræða. Í þeim tilfellum sem notað er vatn við prófun mjólkurmæla eru heimiluð hámarksfrávik á bilinu 0% til +1,0%.

Við löggildingu skal þess gætt að gerð, merking og nákvæmnisflokkur mælikerfis sé í samræmi við vökvann sem mældur er.

EBE-mælikerfi skulu við löggildingu uppfylla kröfur um merkingar í samræmi við ákvæði reglugerðar 129/1994, um mælitæki og aðferðir við mælifræðilegt eftirlit og í samræmi við kröfur um aðstæður og notkun. Við prófun skulu skekkjur vera innan þeirra marka sem eru sambærileg við kröfur í tl. 2 í viðauka MI-005 í viðauka við reglugerð nr. 465/2007, um innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/22/EB, um mælitæki.

MID-mælikerfi skulu við löggildingu uppfylla kröfur viðauka MI-005 í viðauka við reglugerð nr. 465/2007, um innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/22/EB, um mælitæki fyrir aðstæður og notkun í samræmi við þau gildi sem framleiðandi tilgreinir um leyfð rekstrarskilyrði og skekkjur skulu vera innan þeirra marka sem gefin eru í tl. 2 í viðauka MI-005 fyrir mestu leyfðu skekkju. Prófun MID-mælikerfa skal framkvæmd við sama eða hliðstætt magn og rennsli sem gildir fyrir EBE-mælikerfi.

Eldri mælikerfi en EBE- og MID-mælikerfi skulu uppfylla sömu kröfur og EBE-mælikerfi um aðstæður, notkun og skekkjur en heimilt er að löggilda eldri mælikerfi sem hafa verið löggilt áður þó svo að merkingar séu ekki í fyllsta samræmi við kröfur að því tilskildu að lágmarksmerkingar komi fram. Lágmarksmerkingar eru framleiðandi, gerð, hámarksrennsli, lágmarksrennsli, leyfilegt lágmarkssölumagn og raðnúmer.

14. gr. Gildistími löggildinga og samþykki þjónustuaðila.

Ný mælikerfi skal löggilda í fyrsta sinn ekki síðar en þegar tvö ár eru liðin frá uppsetningu þeirra.

Mælikerfi sem notuð eru skv. 1. mgr. 1. gr. skulu löggilt annað hvert ár.

Löggilding fellur úr gildi, þrátt fyrir að gildistími sé ekki liðinn, ef mælikerfi bilar, innsigli er rofið, viðgerð er framkvæmd á mælikerfi, átt hefur verið við mælikerfi þannig að áhrif geti haft á mæliniðurstöður þess, mælikerfi er flutt eða ef skekkja er meiri en tvöföld mesta leyfða skekkja skv. 13. gr.

Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. er þjónustuaðila, sem Neytendastofa samþykkir, heimilt að rjúfa innsigli og annast viðgerðir eða flutning mælikerfis án þess að löggilding falli úr gildi. Þjónustuaðilinn skal innsigla mælikerfið að nýju með auðkenni sínu og halda skýrslur um hvað var gert og senda Neytendastofu yfirlit árlega.

Samþykki Neytendastofu á þjónustuaðila sbr. 4. mgr. er háð skilyrðum, sem Neytendastofa setur og ákvörðun Neytendastofu eftir könnun á hæfni og vinnubrögðum hans til þess að tryggja að mæliniðurstöður verði áfram innan mesta leyfilega fráviks í notkun. Mæliker þjónustuaðila skulu hafa rekjanlega kvörðun.

Neytendastofa gefur út skriflegt samþykki til þjónustuaðila með nánari skilmálum og afmörkun heimilaðra viðgerða. Uppfylli þjónustuaðili ekki lengur þau skilyrði, sem Neytendastofa setur, skal hún afturkalla og fella úr gildi samþykki þjónustuaðila samkvæmt þessari grein.

VI. KAFLI Innra eftirlit, löggildingaraðilar og prófunarstofur.

15. gr. Almenn skilyrði um innra eftirlit.

Heimilt er að nota innra eftirlit í stað löggildinga að fengnu samþykki Neytendastofu samkvæmt ákvæðum þessarar reglugerðar sbr. 14. gr. laga nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn.

Innra eftirlit skal tryggja réttar mælingar og að viðhald og prófanir fari fram á réttum tíma og að það hlutfall mælikerfa sem ætla má að komið sé út fyrir mestu leyfðu skekkju skv. 13. gr. sé ásættanlegt.

Prófanir mælikerfa undir innra eftirliti skulu vera eftir ákvæðum V. kafla og prófanirnar skulu gerðar af prófunarstofu sem uppfyllir ákvæði 19. gr.

Við innra eftirlit í stað löggildinga skal nota upplýsingakerfi sem veitir yfirlit um öll mælikerfi sem falla undir gildissvið þessarar reglugerðar. Veita skal Neytendastofu viðkomandi upplýsingar úr þessu kerfi og sýna neytendum að mælikerfin séu undir innra eftirliti með tilskildum merkingum.

Innra eftirlitskerfið skal vera skráð að fullu í eftirlits- eða gæðahandbók eiganda mælikerfa.

16. gr. Umsókn og málsmeðferð fyrir innra eftirlit.

Eigendur mælikerfa geta óskað eftir samþykki Neytendastofu fyrir því að gæðakerfi eða önnur formleg tilhögun innra eftirlits með mælikerfum og rekjanleika mæligilda þeirra verði tekin gild í stað löggildingar.

Umsókn skal fylgja:

  1. Eftirlits- eða gæðahandbók, um kerfið fyrir innra eftirlit, sem byggir á ÍST ISO 9001:2008 eftir því sem við getur átt.
  2. Samningur eiganda við faggilta skoðunarstofu um forskoðun á viðkomandi innra eftirliti.
  3. Yfirlit um rekstur kerfisins og aðrar upplýsingar, sem Neytendastofa telur nauðsynlegar fyrir samþykki, komi þær ekki fram í eftirlits- eða gæðahandbók.

Kerfi fyrir innra eftirlit skal fullnægja öllum ákvæðum laga og þessarar reglugerðar, svo og reglum sem Neytendastofa setur og tryggja eiga réttar mælingar.

Neytendastofa skal tilkynna umsækjanda að forskoðun faggiltrar skoðunarstofu megi fara fram, þegar fullnægjandi umsókn og fylgigögn liggja fyrir.

Skoðunarstofan annast skoðun og úttekt á kerfi fyrir innra eftirlit á grundvelli reglna sem Neytendastofa setur og fram koma í skoðunarhandbók Neytendastofu fyrir innra eftirlit.

Í umsóknarferli um viðurkenningu á innra eftirliti er umsækjanda skylt að veita allar upplýsingar um tilhögun innra eftirlits, eftirlitshandbók og önnur gögn um rekstur kerfisins og veita allar nauðsynlegar upplýsingar sem þarf til að leggja mat á og gefa ábendingar um úrbætur á fyrirhuguðu innra eftirliti.

Neytendastofa tekur ákvörðun um samþykki á grundvelli álitsgerðar frá faggiltri skoðunarstofu og þeirra úrbóta sem umsækjandi hefur gert, þegar það á við. Uppfylli umsækjandi um innra eftirlit öll skilyrði sem Neytendastofa ákveður, veitir hún leyfi til að notað verði innra eftirlit í stað löggildinga gegn greiðslu á leyfisgjaldi samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur.

Synji Neytendastofa um samþykki skal það rökstutt skriflega.

Uppfylli innra eftirlit ekki lengur skilyrðin skal Neytendastofa afturkalla leyfi til innra eftirlits með mælikerfum sbr. einnig ákvæði 17. gr.

17. gr. Árlegt eftirlit og skýrslugerð.

Eigandi mælikerfa, sem fengið hefur samþykki Neytendastofu til innra eftirlits, sbr. 15. og 16. gr. skal hafa samning við faggilta skoðunarstofu um árlegt eftirlit í samræmi við skoðunarhandbók Neytendastofu svo og sérstakar skoðanir ef það á við. Faggilt skoðunarstofa skal gefa Neytendastofu skýrslu árlega og eigi síðar en 1. mars fyrir síðastiliðið ár, um allt eftirlit og skoðanir, niðurstöður skoðana og ákvarðanir sem hafa verið teknar um mælikerfi.

Skrá skal framkvæmdar stillingar, allar gerðir bilana, galla og skekkjur og rofin innsigli mælikerfa. Auk þess skal skrá ágalla á aðstæðum mælikerfa. Að öðru leyti skal form, flokkun frávika og innihald skýrslunnar vera eins og Neytendastofa ákveður.

Neytendastofa staðfestir eigi síðar en 1. júní framlengingu á gildistíma heimildar til innra eftirlits gegn greiðslu árlegs eftirlitsgjalds samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur.

18. gr. Löggildingaraðilar.

Aðilar sem annast löggildingar mælikerfa í umboði Neytendastofu skulu vera óháðir eigendum sbr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og skulu hafa hæfni sem staðfest er með faggildingu sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 956/2006, um starfshætti þeirra sem annast löggildingu mælitækja í umboði Neytendastofu.

19. gr. Prófunarstofur.

Prófunarstofur sem prófa mælikerfi fyrir eigendur eftir þessum reglum skulu vera faggiltar til prófana skv. V. kafla af faggildingaraðila, sem er aðili að marghliða samkomulagi EA á sviði prófunarstofa.

Prófunarstofa má vera löggildingaraðili en skal vera óháð eigendum mælikerfa sbr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og skal vera óháð þeim sem bera ábyrgð á eftirliti með mælunum og ákvörðunum sem teknar eru á grundvelli niðurstaðna prófana.

VII. KAFLI Eftirlit, markaðseftirlit og gjöld.

20. gr. Hlutverk Neytendastofu.

Neytendastofa hefur eftirlit með því að farið sé eftir ákvæðum þessarar reglugerðar og annast markaðseftirlit í samræmi við viðauka við reglugerð nr. 465/2007, um innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/22/EB, um mælitæki og ákvæði laga nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn.

21. gr. Um framkvæmd eftirlits.

Um framkvæmd eftirlits með mælikerfum skv. þessari reglugerð, fer eftir ákvæðum laga nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn.

22. gr. Gjöld vegna innra eftirlits.

Neytendastofa innheimtir umsóknargjald, leyfisgjald og árlegt eftirlitsgjald vegna innra eftirlits sbr. 16. og 17. gr. samkvæmt gjaldskrá sem sett er í samræmi við ákvæði laga nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn.

VIII. KAFLI Áfrýjun og kæruleiðir.

23. gr. Áfrýjun og kæruleiðir.

Ákvörðunum sem Neytendastofa tekur á grundvelli reglugerðar þessarar verður skotið til áfrýjunarnefndar neytendamála sem starfar á grundvelli 4. gr. laga um Neytendastofu og talsmann neytenda.

Ákvörðun Neytendastofu verður ekki borin undir dómstóla fyrr en úrskurður áfrýjunarnefndar neytendamála liggur fyrir.

IX. KAFLI Viðurlög.

24. gr. Viðurlög.

Sá sem af ásetningi eða gáleysi brýtur gegn ákvæðum reglugerðar þessarar skal sæta fésektum eða fangelsi allt að sex mánuðum ef sakir eru miklar.

Þeim sem gefur rangar eða villandi upplýsingar í tengslum við ákvarðanir eða upplýsir ekki um atriði sem skipta máli til að upplýsa mál samkvæmt þessari reglugerð skal refsað með sektum nema þyngri refsing liggi við lögum samkvæmt.

Refsa skal þeim sem brjóta gegn ákvæði III., V. og VI. kafla með sektum.

Sekt samkvæmt reglugerð þessari er unnt að leggja á lögaðila í samræmi við 3. mgr. 41. gr. laga nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn.

X. KAFLI Gildistaka, aðlögun o.fl.

25. gr. Gildistaka og aðlögun.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 13. gr. laga nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn og öðlast þegar gildi.

Samtímis fellur úr gildi reglugerð nr. 355/1997, um löggildingu rennslismæla fyrir vökva aðra en vatn.

Þau mælikerfi sem voru tekin í notkun fyrir gildistöku reglugerðar nr. 129/1994, um mælitæki og aðferðir við mælifræðilegt eftirlit og hafa verið löggilt frá þeim tíma sem og mælikerfi sem hafa löglega verið tekin í notkun samkvæmt gildandi reglugerðum frá 1994 er heimilt að löggilda ef þau standast prófanir vegna löggildingar skv. 13. gr. þessarar reglugerðar.

Neytendastofa skal leggja mat á gildi og árangur eftirlits skv. þessari reglugerð ekki sjaldnar en á fimm ára fresti og meta þörf fyrir endurskoðun eftirlitsreglna.

Ákvæði til bráðabirgða.

Allar EBE-gerðarviðurkenningar sem gefnar hafa verið út á grundvelli reglugerðar nr. 129/1994 halda gildi sínu þar til gildistími þeirra rennur út eða uns þeim er breytt eða þær eru afturkallaðar af lögbæru stjórnvaldi á evrópska efnahagssvæðinu.

Þrátt fyrir ákvæði 19. gr. um kröfur til faggildingaraðila, verður ekki gerð krafa um aðild að marghliða samkomulagi EA fyrr en 1. janúar 2011.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.