Fara beint í efnið

Prentað þann 28. apríl 2024

Eldri útgáfa reglugerðar gilti á tímabilinu 9. apríl 2009 – 13. feb. 2016 Sjá núgildandi
Sýnir breytingar gerðar 9. apríl 2009 af rg.nr. 360/2009

1043/2008

Reglugerð um flug- og vinnutímamörk og hvíldartíma flugverja.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um allt atvinnuflug á vegum aðila sem hafa leyfi til reksturs loftfara í atvinnuskyni, útgefið af Flugmálastjórn Íslands.

Reglugerð þessi gildir um flug á vegum íslenskra fyrirtækja og stofnana sem starfrækja loftför í þágu eigin starfsemi.

Reglugerð þessi gildir um kennsluflug.

2. gr. Viðaukar.

Viðauki I við reglugerð þessa, sem telst hluti hennar, hefur að geyma ákvæði Q-kafla í viðauka III við reglugerð ráðsins nr. 3922/91 um samræmingu á tæknikröfum og stjórnsýslumeðferð á sviði flugmála með síðari breytingum. Ákvæði viðauka I gilda um flutningaflug á flugvél, að sjúkraflugi og flugi með einn flugmann í áhöfn undanskildu.

Viðaukar II og III við reglugerð þessa, sem teljast hluti hennar, hafa að geyma sértæk ákvæði er lúta að öðrum tegundum atvinnuflugs og kennsluflugs en greinir í 1. mgr.

3. gr. Leiðbeiningarefni o.fl.

Flugmálastjórn Íslands skal taka saman og viðhalda með samræmdum hætti þeim leiðbeiningum, skýringum og heimildum sem veittar eru skv. 4. gr. af hálfu stofnunarinnar vegna reglugerðar þessarar. Upplýsingarnar skulu settar fram í aðgengilegu formi á heimasíðu Flugmálastjórnar Íslands.

4. gr. Undanþágur.

Um meðferð undanþágubeiðna vegna ákvæða í viðauka I er nánar kveðið á um í 8. gr. fylgiskjals við reglugerð um samræmingu á tæknikröfum og stjórnsýslumeðferð á sviði flugmála, sbr. 5. tl. OPS 1.1090 í viðauka I við reglugerð þessa.

Flugmálastjórn Íslands er heimilt að veita undanþágur frá ákvæðum viðauka II og III, enda sé sérstökum ástæðum til að dreifa sem réttlæti slíkt og flugöryggi er ekki stefnt í hættu að mati stofnunarinnar.

5. gr. Viðurlög.

Brot gegn reglugerð þessari varðar refsingu skv. 141. gr. laga nr. 60/1998 um loftferðir með síðari breytingum.

6. gr. Kæruréttur.

Ákvarðanir Flugmálastjórnar Íslands sæta kæru samkvæmt almennum reglum stjórnsýslulaga.

7. gr. Gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 4. mgr. 37. gr., sbr. 145. gr. laga nr. 60/1998 um loftferðir og tekur gildi 1. febrúar 2009. Samhliða fellur úr gildi reglugerð nr. 782/2001 um flug- og vinnutímamörk og hvíldartíma flugáhafna.

Með reglugerð þessari öðlast gildi hér á landi Q-kafli í viðauka III í eftirtöldum reglugerðum Evrópuþingsins og ráðsins og framkvæmdastjórnarinnar með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af XIII. viðauka samningsins, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans:

  1. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1899/2006 frá 12. desember 2006 um breytingu á reglugerð ráðsins nr. 3922/91 um samræmingu á tæknikröfum og stjórnsýslumeðferð á sviði flugmála, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 120/2007;
  2. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 8/2008 frá 11. desember 2007 um breytingu á reglugerð ráðsins nr. 3922/91 um samræmingu á tæknikröfum og stjórnsýslumeðferð á sviði flugmála, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 70/2008, og
  3. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 859/2008 frá 20. september 2008 um breytingu á reglugerð ráðsins nr. 3922/91 um samræmingu á tæknikröfum og stjórnsýslumeðferð á sviði flugmála.

Með reglugerð þessari öðlast ennfremur gildi hér á landi tiltekin ákvæði í tilskipun ráðsins 2000/79/EB frá 27. nóvember 2000 um Evrópusamning og skipulag vinnutíma farstarfsmanna í almenningsflugi sem gerður var milli Evrópusambands flugfélag (AEA), Sambands félags flutningaverkamanna í Evrópu (ETF), Evrópska flugliðasambandsins (ECA), Samtaka evrópskra svæðisflugfélaga (ERA) og Alþjóðasamtaka flutningafélaga (IACA), sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 120/2001, með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af XIII. viðauka samningsins, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans.

 Samgönguráðuneytinu, 30. október 2008. 

 Kristján L. Möller. 

 Ragnhildur Hjaltadóttir. 

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.