Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 28. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 1. júní 2022

968/2015

Reglugerð um greiðsluþátttöku ríkisins í hjálpartækjum sem Heyrnar- og talmeinastöð útvegar.

1. gr. Þátttaka ríkisins í kostnaði við hjálpartæki.

Einstaklingar sem eru sjúkratryggðir hér á landi samkvæmt lögum um sjúkratryggingar eiga rétt á greiðsluþátttöku ríkisins í kostnaði vegna hjálpartækja sem Heyrnar- og talmeinastöð útvegar sem hér segir:

  1. Fyrir börn yngri en 18 ára eru heyrnartæki greidd að fullu.
  2. Fyrir þá sem eru 18 ára og eldri og hafa tónmeðalgildi á betra eyranu ≥ 30 dB < 70 dB við tíðnina 0,5, 1,0, 2,0 og 4,0 kHz eða við tíðnina 2,0, 4,0 og 6,0 kHz greiðast 60.000 kr. fyrir hvert heyrnartæki, þó aldrei hærri fjárhæð en sem nemur kaupverði tækis.
  3. Fyrir þá sem eru 18 ára og eldri og hafa tónmeðalgildi á betra eyranu ≥ 70 dB við tíðnina 0,5, 1,0, 2,0 og 4,0 kHz, er greitt 80% af verði heyrnartækis, þó ekki lægri fjárhæð en 60.000 kr. nema kaupverð tækis sé lægra.
  4. Fyrir þá sem eru 18 ára og eldri og þurfa sérstök heyrnartæki sem krefjast skurðaðgerðar er greitt samkvæmt eftirfarandi:

    1. Fyrir kuðungsígræðslutæki 90% af verði heyrnartækis.
    2. Fyrir beinskrúfutæki og önnur sambærileg heyrnartæki 80% af verði heyrnartækis.
  5. Fyrir hjálpartæki önnur en heyrnartæki, sbr. fylgiskjal I, til þeirra sem um getur í 1., 3. og 4. tölul. fer um greiðsluþátttöku samkvæmt þeim töluliðum.
  6. Fyrir hjálpartæki önnur en heyrnartæki, sbr. fylgiskjal I, til þeirra sem hafa tónmeðalgildi á betra eyranu > 50 dB við tíðnina 0,5, 1,0, 2,0, og 4,0 kHz, fer um greiðsluþátttöku eins og um getur í 3. tölul.

Einstaklingur getur mest notið greiðsluþátttöku eða styrkja, sbr. reglugerð um veitingu styrkja vegna kaupa á heyrnartækjum hjá öðrum en Heyrnar- og talmeinastöð, vegna tveggja heyrnartækja, einu fyrir hvort eyra, skv. 1. tölul. 1. mgr. á hverju tveggja ára tímabili og skv. 2., 3. og 4. tölul 1. mgr. á hverju fjögurra ára tímabili. Einstaklingur skv. 1. tölul. 1. mgr. á til viðbótar við framangreint rétt á allt að tveimur pörum af hlustarstykkjum á ári. Einstaklingur skv. 3. tölul. 1. mgr. á rétt á pari af hlustunarstykkjum á tveggja ára fresti. Heimilt er að víkja frá þessu ef heyrn breytist umtalsvert að mati sérgreinalæknis í heyrnarfræði (háls-, nef- og eyrnalækningum) þannig að talin er nauðsyn á nýju heyrnartæki. Sjúkratryggingar Íslands skulu miðla upplýsingum til Heyrnar- og talmeinastöðvar um styrki vegna heyrnartækja sem veittir eru á grundvelli reglugerðar um styrki vegna kaupa á heyrnartækjum hjá öðrum en Heyrnar- og talmeinastöð.

Heyrnar- og talmeinastöð er heimilt að útvega heyrnartæki fyrir þá einstaklinga sem ekki uppfylla skilyrði til að njóta greiðsluþátttöku skv. 2., 3. eða 4. tölul. 1. mgr. eða 2. mgr. Gjald fyrir heyrnartæki sem útveguð eru án greiðsluþátttöku ríkisins skal taka mið af kostnaði við útvegun þeirra. Tryggt skal að þessir einstaklingar njóti ekki forgangs við úthlutun heyrnartækja umfram þá einstaklinga sem uppfylla skilyrði til að njóta greiðsluþátttöku skv. 1.-4. tölul. 1. mgr. og 2. mgr.

2. gr. Útvegun Heyrnar- og talmeinastöðvar á hjálpartækjum öðrum en heyrnartækjum.

Heyrnar- og talmeinastöð aðstoðar sjúkratryggða einstaklinga við að útvega nauðsynleg hjálpartæki önnur en heyrnartæki, sbr. fylgiskjal II. Í þeim tilvikum er tækið eign Heyrnar- og talmeinastöðvar og skal sjúkratryggður greiða hæfilegt leigugjald sem tekur mið af kostnaði við öflun tækisins og áætluðum endingartíma þess.

3. gr. Söfnun upplýsinga.

Heyrnar- og talmeinastöð skal safna upplýsingum um alla þá sem eru heyrnarskertir, heyrnarlausir eða eru með heyrnar- og talmein og öðrum tölfræðilegum upplýsingum sem nýtast við rannsóknar- og þróunarstörf. Um söfnun upplýsinga skal fara samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og lögum um landlækni og lýðheilsu, eftir því sem við á.

4. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 5. gr., 3. mgr. 6. gr. og 8. gr. laga um Heyrnar- og talmeinastöð, nr. 42/2007, öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 1118/2006, um greiðsluþátttöku ríkisins í hjálpartækjum sem Heyrnar- og talmeinastöð útvegar, með síðari breytingum.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.