Fara beint í efnið

Prentað þann 18. apríl 2024

Stofnreglugerð

937/2001

Reglugerð um jöfnun flutningskostnaðar á sementi.

1. gr.

Jafna skal flutningskostnað sements þannig að kostnaðarverð í vöruskemmu á hverri sementstegund frá hverjum innlendum framleiðanda eða innflutningsaðila verði hið sama á þeim verslunarstöðum sem jöfnun þessi nær til.

2. gr.

Jöfnun flutningskostnaðar á sementi nær til eftirtalinna verslunarstaða sem jafnframt eru aðaltollhafnir:

  1. Reykjavík
  2. Akranes
  3. Ísafjörður
  4. Sauðárkrókur
  5. Siglufjörður
  6. Akureyri
  7. Húsavík
  8. Seyðisfjörður
  9. Neskaupstaður
  10. Eskifjörður
  11. Vestmannaeyjar
  12. Keflavík
  13. Keflavíkurflugvöllur
  14. Hafnarfjörður
  15. Egilsstaðir
  16. Höfn í Hornafirði
  17. Þorlákshöfn

Auk þess nær jöfnun flutningskostnaðar á sementi til eftirtalinna verslunarstaða:

  1. Borgarnes
  2. Snæfellsbær
  3. Grundarfjörður
  4. Stykkishólmur
  5. Búðardalur
  6. Skriðuland
  7. Króksfjarðarnes
  8. Patreksfjörður
  9. Tálknafjörður
  10. Bíldudalur
  11. Þingeyri
  12. Flateyri
  13. Suðureyri
  14. Bolungarvík
  15. Súðavík
  16. Norðurfjörður
  17. Hólmavík
  18. Óspakseyri
  19. Borðeyri
  20. Hvammstangi
  21. Blönduós
  22. Skagaströnd
  23. Hofsós
  24. Ólafsfjörður
  25. Dalvík
  26. Hrísey
  27. Svalbarðseyri
  28. Grenivík
  29. Grímsey
  30. Kópasker
  31. Raufarhöfn
  32. Þórshöfn
  33. Bakkafjörður
  34. Vopnafjörður
  35. Borgarfjörður eystri
  36. Reyðarfjörður
  37. Fáskrúðsfjörður
  38. Stöðvarfjörður
  39. Breiðdalsvík
  40. Djúpivogur
  41. Kirkjubæjarklaustur
  42. Vík í Mýrdal
  43. Hvolsvöllur
  44. Hella
  45. Laugarvatn
  46. Selfoss
  47. Stokkseyri
  48. Eyrarbakki
  49. Hveragerði
  50. Grindavík
  51. Sandgerði
  52. Gerðar

3. gr.

Leggja skal flutningsjöfnunargjald á allt sement, sem framleitt er í landinu eða flutt er til landsins.

Flutningsjöfnunargjaldið skal reikna og greiða á hvert selt tonn af sementi. Skulu innlendir framleiðendur og innflytjendur, sem stunda endursölu á sementi á minnst tveimur verslunarstöðum sem jafnframt eru aðaltollhafnir, greiða gjaldið til flutningsjöfnunarsjóðs sements af sölu í hverjum mánuði eigi síðar en á síðasta virka degi að tveimur mánuðum liðnum frá lokum sölumánaðar. Flutningsjöfnunargjald af öðru innfluttu sementi skal innheimt með aðflutningsgjöldum. Annast tollstjórar innheimtuna og skulu þeir skila gjaldinu til flutningsjöfnunarsjóðs sements.

Þrátt fyrir 1. mgr. skal ekki leggja flutningsjöfnunargjald á sement sem notað er til framleiðslu á viðgerðarefnum eða tilbúnum múrblöndum. Flutningsjöfnunarsjóður greiðir ekki flutningskostnað á sementi til þeirra nota.

4. gr.

Viðskiptaráðuneytið ákveður flutningsjöfnunargjaldið fyrir allt að eitt ár í senn og skal upphæð þess við það miðuð að tekjur af því nægi til að greiða eftirtalinn kostnað við flutning frá framleiðslustað eða innflutningshöfn til þeirra verslunarstaða sem jöfnun flutningskostnaðarins nær til:
1. Flutningur með skipum:

  1. Útskipun.
  2. Flutningsgjald.
  3. Sjótrygging.
  4. Uppskipun.
  5. Flutningur frá skipshlið í vöruskemmu.
  6. Vörugjald.

2. Flutningur með bifreiðum:

  1. Flutningskostnaður, sem nægi til að greiða rekstrarkostnað bifreiða í þessum flutningum.
  2. Jarðgangnagjöld.
  3. Flutningsgjöld bifreiða með ferjum.

5. gr.

Tekjur af flutningsjöfnunargjaldi skal leggja í sérstakan sjóð, flutningsjöfnunarsjóð sements. Þeir aðilar, sem gera kröfur á hendur sjóðnum, skulu haga bókhaldi sínu þannig að fullnægjandi sé með tilliti til jöfnunar flutningskostnaðar.

6. gr.

Nú verður tekjuafgangur á flutningsjöfnunarsjóði í árslok og skal hann þá yfirfærast til næsta árs. Ef tekjur sjóðsins eitthvert ár hrökkva ekki fyrir gjöldum skv. 4. gr. skal greiða það, sem á vantar, af fyrstu tekjum sjóðsins næsta ár.

7. gr.

Viðskiptaráðherra skipar til fjögurra ára í senn flutningsjöfnunarsjóði þriggja manna stjórn án tilnefningar og skipar viðskiptaráðherra formann sjóðstjórnar. Stjórnin skal annast framkvæmd jöfnunar flutningskostnaðar á sementi undir yfirstjórn viðskiptaráðherra, sem jafnframt sker úr ágreiningsatriðum, sem upp kunna að koma.

8. gr.

Stjórn sjóðsins skal ávaxta fé það, sem á hverjum tíma er í sjóðnum, á sérstökum bankareikningi og er hún ábyrg fyrir sjóðnum gagnvart viðskiptaráðherra. Ennfremur skal hún skila ráðuneytinu árlega endurskoðuðu uppgjöri yfir sjóðinn.

9. gr.

Stjórn flutningsjöfnunarsjóðs úrskurðar, hvað teljast skuli flutningskostnaður, sbr. 4. gr. Er stjórninni meðal annars heimilt að ákveða að jöfnun flutningskostnaðar milli tiltekinna verslunarstaða, þar á meðal framleiðslustaðar eða aðaltollhafnar og annarra verslunarstaða, skuli takmörkuð við kostnað af þeim flutningsháttum sem ódýrastir eru á hverjum tíma og skemmstu flutningsleið. Sömuleiðis skal stjórninni heimilt að synja um greiðslu tiltekins kostnaðar úr sjóðnum að hluta eða að fullu, ef sýnist um að ræða misnotkun á jöfnunarkerfinu í tilteknum viðskiptum.

10. gr.

Kostnaður við stjórn sjóðsins, skrifstofuhald og endurskoðun, greiðist af fé sjóðsins og skal þá tekið tillit til þess við ákvörðun flutningsjöfnunargjaldsins.

11. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum nr. 62, 30. apríl 1973, um jöfnun flutningskostnaðar á sementi, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 272, 25. apríl 1982, um jöfnun flutningskostnaðar á sementi.

Viðskiptaráðuneytinu, 13. desember 2001.

Valgerður Sverrisdóttir.

Þorgeir Örlygsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.