Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 28. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 3. des. 2022

935/2004

Reglugerð um innflutning gæludýra og hundasæðis.

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr. Tilgangur.

Markmið reglugerðar þessarar er að tryggja heilbrigði dýra og manna með því að fyrirbyggja að smitsjúkdómar berist til landsins við innflutning á gæludýrum og hundasæði.

2. gr. Orðskýringar.

Í reglugerð þessari hafa eftirtalin orð og orðasambönd merkingu sem hér segir:

a) Innflutningsleyfi er leyfi Matvælastofnunar til innflutnings á gæludýri eða hundasæði.
b) Heilbrigðis- og upprunavottorð er vottorð sem staðfestir heilbrigði og uppruna viðkomandi gæludýrs eða hundasæðis. Einungis skal nota gilt eyðublað útgefið af Matvælastofnun.
c) Gæludýr sem þessi reglugerð tekur til eru kanínur, naggrísir, hamstrar, stökkmýs, degu, búrfuglar, skrautfiskar og vatnadýr.
d) Lönd án hundaæðis eru viðurkennd útflutningslönd sem eru á lista sem Matvælastofnun gefur út, sem byggir á skilgreiningu Alþjóða dýraheilbrigðisstofnunarinnar (OIE) hvað varðar hundaæði á hverjum tíma. Í viðauka I reglugerðar um innflutning hunda og katta er að finna lista yfir lönd án hundaæðis.
e) Lönd þar sem hundaæði er haldið vel í skefjum eru viðurkennd útflutningslönd sem eru á lista sem Matvælastofnun gefur út, sem byggir á skilgreiningu Alþjóða dýraheilbrigðisstofnunarinnar (OIE) hvað varðar hundaæði á hverjum tíma. Í viðauka I reglugerðar um innflutning hunda og katta er að finna lista yfir lönd þar sem hundaæði er haldið í skefjum.
f) Innflutningsstaður er flugvöllur sem samþykktur hefur verið af Matvælastofnun til móttöku gæludýra.
g) Móttökustöð gæludýra er aðstaða á innflutningsstað á vegum Matvælastofnunar þar sem innflutningseftirlit fer fram.
h) Upprunaland er fæðingarland dýrs.
i) Opinber dýralæknir er dýralæknir sem er starfsmaður dýralæknayfirvalda í hverju landi eða starfar með fulltingi dýralæknayfirvalda.
í) Sæðisgjafi er hundur sem sæði er tekið úr og fryst í útflutningslandi í þeim tilgangi að flytja það til Íslands.
j) Gild bólusetning er bólusetning þar sem sæðisgjafi hefur hlotið viðeigandi grunnbólusetningu og henni viðhaldið samkvæmt leiðbeiningum framleiðanda bóluefnisins.

3. gr. Innflutningur / innflutningsleyfi.

Innflutningur gæludýra, annarra en hunda og katta, og hundasæðis er óheimill nema að fengnu leyfi Matvælastofnunar og uppfylltum skilyrðum reglugerðar þessarar.

Innflytjandi skal sækja um innflutningsleyfi til Matvælastofnunar á þar til gerðu umsóknareyðublaði.

Innflytjandi skuldbindur sig og staðfestir með undirskrift sinni á umsóknareyðublað að hlíta í hvívetna öllum þeim fyrirmælum sem Matvælastofnun setur sem skilyrði til innflutnings og einangrunar.

Innflutningsleyfi fiska og vatnadýra eru háð samþykki fisksjúkdómanefndar, skv. 80. gr. laga nr. 76/1970, um lax og silungsveiði, ásamt síðari breytingum.

Innflutningsleyfi gildir í allt að eitt ári frá útgáfudegi.

Skilyrði til innflutnings hunda og katta koma fram í reglugerð um innflutning hunda og katta.

4. gr. Kostnaður við innflutning, öflun vottorða, sýnatökur, eftirlit o.fl.

Innflytjandi skal sjá til þess að þau vottorð sem krafist er fylgi dýrinu/hundasæðinu við innflutning og ber hann allan kostnað af sóttvarnarráðstöfunum og öflun vottorða, þ.m.t. nauðsynlegum sýnatökum, eftirliti og rannsóknum sem yfirdýralæknir telur nauðsynlegar.

5. gr. Heilbrigðis- og upprunavottorð og önnur vottorð vegna innflutnings.

Gæludýrum og hundasæði sem heimilað hefur verið að flytja til landsins skal fylgja frumrit heilbrigðis- og upprunavottorðs.

Matvælastofnun gefur út eyðublöð fyrir heilbrigðis- og upprunavottorð sem nota skal við innflutninginn.

Vottorðið skal vera rétt útfyllt og gefið út af dýralækni með starfsleyfi í útflutningslandinu. Vottorðið gildir í 10 sólarhringa frá útgáfudegi.

Vottorðinu skulu fylgja rannsóknarniðurstöður sýna sem krafist er skv. 14. gr.

i) Staðfesting rannsóknarstofu á niðurstöðum blóðrannsóknar á hundaæðismótefnum, skv. 11. og 14. gr.
ii) Niðurstöður skapgerðarmats, skv. 12. og 15. gr.

6. gr. Umsögn yfirdýralæknis.

Fimm til tíu sólarhringum fyrir áætlaðan komudag gæludýra eða hundasæðis til landsins skal innflytjandi senda Matvælastofnun öll tilskilin vottorð til umsagnar og samþykktar með rafrænum hætti.

Berist tilskilin gögn Matvælastofnun síðar en 5 sólarhringum fyrir áætlaðan komudag er stofnuninni heimilt að synja innflutningi dýrs.

7. gr. Innflutningsstaður.

Einungis er heimilt að flytja inn gæludýr til Íslands um innflutningsstað. Innflutningseftirlit getur þó farið fram á öðru tilgreindu svæði en móttökustöð gæludýra. Á móttökustöð gæludýra skal vera tímabundin aðstaða til vistunar dýra sem hafa innflutningsleyfi. Aðstaðan skal vera fullnægjandi hvað varðar smitvarnir og dýravelferð, sbr. reglugerð um velferð gæludýra. Þess skal sérstaklega gætt að dýr sleppi ekki út úr aðstöðunni. Matvælastofnun setur nánari verklagsreglur um umgengni og umönnun dýra í móttökustöð gæludýra.

8. gr. Innflutningseftirlit.

Opinber dýralæknir skoðar gæludýr við komu til landsins á innflutningsstað og sannreynir að þau sýni ekki einkenni smitsjúkdóms, hafi innflutningsleyfi og að öll tilskilin vottorð fylgi.

Við innflutning á djúpfrystu hundasæði skal opinber dýralæknir sannreyna auðkenni sendingar og að öll tilskilin vottorð fylgi.

9. gr. Brottfall innflutningsleyfis.

Komi í ljós að skilyrðum reglugerðar þessarar sé ekki framfylgt í hvívetna fellur innflutningsleyfið samstundis úr gildi og verður dýrið/hundasæðið sent úr landi til sama lands og það kom frá, sé þess kostur, en dýrið aflífað ella og hræinu/hundasæðinu eytt, bótalaust og á kostnað eiganda.

III. KAFLI Innflutningur hundasæðis.

14. gr. Heilbrigðis- og upprunavottorð sæðisgjafa.

Innflutningur á fersku kældu hundasæði eða djúpfrystu hundasæði í þar til gerðum ampúlum eða stráum er heimill að uppfylltum neðangreindum skilyrðum.

Um komu hundasæðis til landsins og eftirlit á innflutningsstað fer eftir ákvæðum 6. - 8. gr. reglugerðar þessarar.

Eftirfarandi skal staðfest í heilbrigðis- og upprunavottorði, sbr. 5. gr.:

1) Útflutningsland.
2) Innflytjandi: Nafn, kennitala, heimili, símanúmer og netfang.
3) Umráðamaður sæðisgjafa: Nafn, kennitala, heimili, símanúmer og netfang.
4) Örmerking: Sæðisgjafi skal vera örmerktur áður en sæðistaka, bólusetningar og blóðpróf fara fram.
5) Nafn, tegund og fæðingardagur sæðisgjafa.
6) Dagsetning sæðistöku.
7) Dýralæknir sem undirritar vottorðið skal hafa tekið sæðið eða verið viðstaddur töku þess.
8) Smitsjúkdómar:
a) Heilbrigðisskoðun: Við heilbrigðisskoðun við sæðistöku skal sæðisgjafi ekki hafa sýnt nein einkenni smitsjúkdóms.
b) Bólusetningar:
i. Bólusetning og mótefnamæling gegn hundaæði (rabies):
1. Sæðisgjafi sem dvalið hefur í landi án hundaæðis a.m.k. síðustu 6 mánuði fyrir sæðistöku skal hafa gilda bólusetningu gegn hundaæði (sjá 4. gr. reglugerðar um innflutning hunda og katta og viðauka I sömu reglugerðar). Mótefnamæling skal fara fram í fyrsta lagi 30 dögum eftir bólusetningu og framkvæmd af rannsóknarstofu sem viðurkennd er af Evrópusambandinu í þessum tilgangi. Mótefni skulu mælast jafnt og/eða hærri en 0,5 a.e./ml. Niðurstaða mótefnamælingar gildir svo lengi sem bólusetningu er viðhaldið samkvæmt leiðbeiningum framleiðanda bóluefnisins.
2. Sæðisgjafi sem dvalið hefur í landi þar sem hundaæði er haldið vel í skefjum a.m.k. síðustu 6 mánuði fyrir sæðistöku skal hafa gilda bólusetningu gegn hundaæði (sjá 4. gr. reglugerðar um innflutning hunda og katta og viðauka I sömu reglugerðar). Mótefnamæling skal fara fram í fyrsta lagi 30 dögum eftir bólusetningu og framkvæmd af rannsóknarstofu sem viðurkennd er af Evrópusambandinu í þessum tilgangi. Mótefni skulu mælast jafnt og/eða hærri en 0,5 a.e./ml. Sæðistaka vegna innflutnings má fara fram í fyrsta lagi 90 dögum eftir mótefnamælingu. Niðurstaða mótefnamælingar gildir svo lengi sem bólusetningu er viðhaldið samkvæmt leiðbeiningum framleiðanda bóluefnisins.
Sæðisgjafi frá áhættusvæðum (sjá viðauka I með reglugerð um innflutning hunda og katta) skal hafa gilda bólusetningu gegn viðeigandi stofnum hundainflúensu. Sæðistaka vegna innflutnings má fara fram í fyrsta lagi 14 dögum eftir bólusetningu.
iii. Bólusetning gegn leptóspírusýkingu (e. leptospirosis):
Sæðisgjafi skal hafa gilda bólusetningu gegn leptóspírusýkingu. Sæðistaka vegna innflutnings má fara fram í fyrsta lagi 14 dögum eftir bólusetningu.
iv. Bólusetning gegn hundafári (e. canine distemper):
Sæðisgjafi skal hafa gilda bólusetningu gegn hundafári. Sæðistaka vegna innflutnings má fara fram í fyrsta lagi 14 dögum eftir bólusetningu.
c) Rannsóknir:
i. Blóðrannsókn vegna brúsellósu (Brucella canis):
Í fyrsta lagi 30 sólarhringum fyrir sæðistöku vegna innflutnings skal taka blóðsýni úr sæðisgjafa og það rannsakað m.t.t. Brucella canis með aðferð sem samþykkt er af Matvælastofnun. Niðurstaða skal vera neikvæð.
ii. Rannsókn vegna Leishmaniosis (Leishmania spp.):
Í fyrsta lagi 30 sólarhringum fyrir sæðistöku vegna innflutnings skal taka sýni (blóð- eða vefjasýni) úr sæðisgjafa og það rannsakað m.t.t. Leishmania spp. með aðferð sem samþykkt er af Matvælastofnun. Niðurstaða skal vera neikvæð.
d) Náttúruleg pörun: Óheimilt er að nota sæðisgjafa í náttúrulega pörun síðustu tvo mánuðina fyrir sæðistöku vegna innflutnings.
(2) smáveirusótt (parvovirus).
Hundurinn skal fullbólusettur gegn smitandi lifrarbólgu og smáveirusótt. Fylgja skal fyrirmælum framleiðanda viðkomandi bóluefnis varðandi grunn- og endurbólusetningar.
Óheimilt er að flytja til landsins sæði úr hundi, sem tekið hefur verið innan 30 daga frá því hann var síðast bólusettur gegn smitandi lifrarbólgu og smáveirusótt.
c) Rannsóknir:
Blóðrannsókn vegna brúsellósu (Brucellosis):
Á síðustu 30 dögum fyrir sæðistöku skal taka blóðsýni til rannsókna á Brucella canis.
Sé sýnið jákvætt er óheimilt að flytja sæði úr hundinum til landsins.
d) Náttúruleg pörun:
9) Dvalarland sæðisgjafa.

Óheimilt er að nota sæðisgjafa í náttúrulega pörun frá því blóðpróf voru tekin og fram að sæðistöku.

15. gr. Skapgerðarmat sæðisgjafa.

Yfirdýralæknir metur í hverju tilfelli fyrir sig hvort krefjast skuli sérstaks skapgerðarmats á sæðisgjafa sem sótt er um leyfi til að flytja inn sæði úr. Hann skal taka mið af því sem vitað er um eðli viðkomandi hundategundar og leita álits sérfræðinga eftir þörfum. Yfirdýralæknir setur nánari reglur um framkvæmd skapgerðarmats.

16. gr. Geymsla og merking sæðis.

Sæði skal geymt í innsigluðum höggþéttum umbúðum sem merkt er númeri örmerkis sæðisgjafa, nafni hans og uppruna.

17. gr. Sæðing með innfluttu sæði og tilkynningarskylda.

Einungis dýralæknum með starfsleyfi á Íslandi er heimilt að sæða tíkur með innfluttu sæði. Tíkur sem sæddar hafa verið með innfluttu sæði er óheimilt að para á sama gangmáli.

Dýralæknar skulu halda skrá yfir sæðingar með innfluttu hundasæði. Láti tík eða veikist eftir sæðingu eða á meðgöngu skal eigandi tilkynna það viðkomandi héraðsdýralækni. Fóstur og fylgjur eftir fósturlát skal varðveita og þeim komið til héraðsdýralæknis til rannsóknar.

IV. KAFLI Innflutningur skrautfiska og vatnadýra.

18. gr. Heilbrigðis- og upprunavottorð.

Eftirfarandi skal staðfest í heilbrigðis- og upprunavottorði sbr. 5. gr.:

a) Útflutningsland skrautfiskanna/vatnadýranna.
b) Innflytjandi: Nafn, kennitala, heimili, símanúmer og netfang.
c) Fisktegund/dýrategund.
d) Smitsjúkdómar: Fiskarnir/vatnadýrin skulu ekki hafa nein einkenni smitsjúkdóms sem borist getur í nytjafisk.

Innflutningur skrautfiska og vatnadýra frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins skal uppfylla skilyrði reglugerðar Evrópusambandsins nr. 1251/2008.

19. gr. Einangrun.

Skrautfiskum og vatnadýrum sem heimilað hefur verið að flytja til landsins skal haldið í einangrun fyrstu fjórar vikurnar eftir innflutning, sbr. nánari ákvæði í reglugerð um einangrun og einangrunarstöðvar fyrir gæludýr.

V. KAFLI Innflutningur nagdýra og kanína.

20. gr. Heilbrigðis- og upprunavottorð.

Eftirfarandi skal staðfest í heilbrigðis- og upprunavottorði fyrir nagdýr og kanínur sbr. 5. gr.:

a) Útflutningsland nagdýrs eða kanínu.
b) Innflytjandi: Nafn, kennitala, heimili, símanúmer og netfang.
c) Dýrategund.
d) Smitsjúkdómar: Dýrið skal ekki hafa nein einkenni smitsjúkdóms.
e) Salmonella: Á síðustu þremur vikunum fyrir innflutning skal taka saursýni til rannsókna á salmonellu. Reynist sýnið jákvætt er óheimilt að flytja dýrið til landsins, nema áhættan við innflutninginn sé ásættanleg að mati yfirdýralæknis.
f) Auðkenni dýrs: Kanínur skulu örmerktar.

21. gr. Einangrun.

Nagdýrum og kanínum sem heimilað hefur verið að flytja til landsins skal haldið í einangrun fyrstu fjórar vikurnar eftir innflutning, sbr. nánari ákvæði í reglugerð um einangrun og einangrunarstöðvar fyrir gæludýr.

VI. KAFLI Innflutningur búrfugla.

22. gr. Heilbrigðis- og upprunavottorð.

Eftirfarandi skal staðfest í heilbrigðis- og upprunavottorði, sbr. 5. gr.:

a) Útflutningsland búrfugls.
b) Innflytjandi: Nafn, kennitala, heimili, símanúmer og netfang.
c) Fuglategund.
d) Smitsjúkdómar: Búrfuglinn skal ekki hafa nein einkenni smitsjúkdóms.
e) Salmonella: Á síðustu þremur vikunum fyrir innflutning skal taka saursýni til rannsókna á salmonellu. Reynist sýnið jákvætt er óheimilt að flytja búrfuglinn til landsins, nema áhættan við innflutninginn sé ásættanleg að mati yfirdýralæknis.
f) Paramyxoviridae: Á síðustu þremur vikunum fyrir innflutning skal taka blóðsýni til rannsókna á mótefnum gegn paramyxoveirum (Newcastle disease). Reynist sýnið jákvætt er innflutningur óheimill.
g) Orthomyxoviridae: Á síðustu þremur vikum fyrir innflutning skal taka blóðsýni til rannsókna á mótefnum gegn orthomyxoveirum (Avian influenza H5 og H7). Reynist sýnið jákvætt er innflutningur óheimill.
g) Auðkenni búrfugls: Stærri fuglar skulu örmerktir eða bera fótahring með auðkennisnúmeri.

23. gr. Einangrun.

Búrfuglum sem heimilað hefur verið að flytja til landsins skal haldið í einangrun fyrstu fjórar vikurnar eftir innflutning, sbr. nánari ákvæði í reglugerð um einangrun og einangrunarstöðvar fyrir gæludýr.

VIII. KAFLI Gildistaka o.fl.

33. gr. Framlenging einangrunar.

Ef upp koma grunsemdir um að dýr sem dvelur í einangrun sé haldið smitsjúkdómi, er yfirdýralækni heimilt að ákveða að dýr verði vistað lengur en í 4 vikur í einangrunarstöð, sbr. 2. mgr. 10. gr., uns fullljóst er hvort dýrið sé hæft til innflutnings eður ei og ber eigandi dýrsins allan kostnað sem af áframhaldandi einangrun kann að hljótast.

34. gr. Frávik.

Matvælastofnun er heimilt að veita undanþágu frá ákvæðum 14. gr. reglugerðar þessarar undir sérstökum kringumstæðum, ef fagleg rök mæla með því. Ákvarðanir um slíkar undanþágur skulu tilkynntar til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins eftir því sem ástæða er til.

35. gr. Gjaldtaka.

Matvælastofnun innheimtir gjald vegna útgáfu leyfa og eftirlits á innflutningsstað og í einangrun. Gjaldtaka fer eftir gjaldskrá Matvælastofnunar hverju sinni.

36. gr. Refsingar.

Brot á ákvæðum reglugerðarinnar varða sektum nema þyngri refsing liggi við eftir ákvæðum laga. Hinn brotlegi ber allan kostnað vegna brots og getur honum m.a. verið gert að þola bótalaust að dýri eða hundasæði sé fargað eða sent úr landi á hans kostnað.

Með mál sem rísa út af brotum á reglugerðinni skal farið að hætti laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008.

Matvælastofnun ber að setja sér málsmeðferðarreglur við mat samkvæmt 15. gr. reglugerðarinnar auk annarra ákvæða hennar sem varða töku matskenndra stjórnvaldsákvarðana.

37. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í lögum nr. 54/1990, um innflutning dýra, ásamt síðari breytingum og lögum nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, ásamt síðari breytingum og öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 431/2003 um sama efni. Innflutningsleyfi sem veitt hafa verið skv. eldri reglugerð halda gildi sínu.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.