Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Stofnreglugerð

918/2009

Reglugerð um innihald IS 50V landfræðilegs gagnasafns um Ísland.

1. gr. Markmið.

Markmið þessarar reglugerðar er að skilgreina innihald, uppbyggingu og nákvæmni landfræðilegs gagnasafns um Ísland sem nefnist IS.

Allar þekjur IS 50V skulu vera landsþekjandi. Landmælingar Íslands skulu afla nýrra gagna vegna uppbyggingar IS 50V gagnasafnsins og sjá til þess að gögnin séu endurskoðuð reglulega. Landmælingum Íslands ber að hafa gagnasafnið aðgengilegt öllum sem á þurfa að halda. Um gjaldtöku fer skv. 2. mgr. 7. gr. laga um landmælingar og grunnkortagerð.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um IS 50V gagnasafnið sem Landmælingar Íslands veita aðgang að. Tilkynnt er um nýjar útgáfur á heimasíðu stofnunarinnar.

3. gr. Uppbygging.

Gagnasafnið er byggt upp af eftirfarandi þekjum:

  1. Vatnafar.
  2. Yfirborð.
  3. Vegir og samgöngur.
  4. Örnefni.
  5. Stjórnsýslumörk.
  6. Mannvirki.
  7. Hæðarlínur og hæðarpunktar.

Í viðauka þessarar reglugerðar skal fjallað um uppbyggingu og lágmarksupplýsingar í hverri þekju IS 50V landfræðilega gagnasafnsins. Fitjur, eigindir og þekjur skulu vera skráðar samkvæmt íslenskum staðli ÍST 120:2007 Skráning og flokkun landupplýsinga - Fitjuskrá.

4. gr. Skilgreiningar.

Merking eftirtalinna orða og hugtaka í reglugerð þessari er sem hér segir:

  1. Eigind: Eiginleiki eða einkenni viðfangsefnis t.d. nákvæmni, aldur eða uppruni.
  2. Fitja: Staðtengdur hlutur sem skráður er á kort eða í landfræðilegu gagnasafni.
  3. Landupplýsingar: Upplýsingar tengdar yfirborði jarðar hvort heldur með hnitum eða auðkenni, t.d. heimilisfangi eða póstnúmeri.
  4. Landfræðileg gagnasöfn: Söfn landupplýsinga sem yfirleitt eru geymd flokkuð á tölvutæku formi og hægt er að setja fram með margskonar hætti á korti. Gögn eða upplýsingar í landfræðilegum gagnasöfnum eru flokkaðar eftir gerð í mismunandi þekjur.
  5. Landshnitakerfi: Hnitakerfi með viðmiðun sem nær til alls landsins og samanstendur af mælistöðvum á yfirborði jarðar, t.d. málmboltum.
  6. Lýsigögn: Ágrip upplýsinga um gögn og/eða þjónustu eða lýsing einkenna gagnasafna, svo sem innihalds, eiginleika eða ástands.
  7. Viðmiðun: Kennistærðir sem lýsa legu, stefnu og kvarða landshnitakerfisins á jörðinni.
  8. Þekja: Ákveðin gerð eða flokkur landupplýsinga sem mynda eina heild í landfræðilegu gagnasafni t.d. vegaþekja eða vatnafarsþekja.

5. gr. Gæði gagna.

Staðsetningarnákvæmni IS 50V gagna er mismunandi eftir uppruna þeirra. Um staðsetningarnákvæmni og gæði einstakra þekja fer samkvæmt viðauka reglugerðarinnar.

6. gr. Viðmiðunarkerfi.

IS 50V gagnasafnið skal vera í gildandi viðmiðun og landshnitakerfi á Íslandi. Gögnin eru sett fram í hornsannri Lambert keiluvörpun og hæðargildi miðast við meðalsjávarhæð.

7. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 4. gr. laga nr. 103/2006 um landmælingar og grunnkortagerð og öðlast þegar gildi.

Umhverfisráðuneytinu, 29. október 2009.

Svandís Svavarsdóttir.

Magnús Jóhannesson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.