Fara beint í efnið

Prentað þann 19. apríl 2024

Stofnreglugerð

855/2020

Reglugerð um starfsemi og fjámögnun Húsnæðissjóðs.

1. gr. Húsnæðissjóður.

Húsnæðissjóður er lánasjóður í eigu og á ábyrgð ríkissjóðs sem hefur það hlutverk að fjármagna lánveitingar og hluta reksturs Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar samkvæmt lögum um húsnæðismál nr. 44/1998. Yfirumsjón með sjóðnum er í höndum stjórnar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar en umsýsla sjóðsins er í höndum stofnunarinnar sem tekur ákvarðanir um einstaka lánveitingar.

Óheimilt er að ráðstafa eignum og tekjum sjóðsins til annarra verkefna en þeirra sem heyra undir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun lögum samkvæmt.

2. gr. Fjármögnun og áætlun um lánsfjárþörf.

Húsnæðissjóður er fjármagnaður annars vegar með tekjum af eigin fé sjóðsins og afborgunum, vöxtum og verðtryggingu af lánum í eigu sjóðsins og hins vegar með lántöku úr ríkissjóði í samræmi við áætlaða lánsþörf byggða á húsnæðisáætlunum. Vaxtatekjur af lánum skulu standa undir rekstrarkostnaði Húsnæðissjóðs.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skal árlega gera lánsfjáráætlun fyrir Húsnæðissjóð og meta þörf fyrir lánsfé úr ríkissjóði á grundvelli húsnæðisáætlana sveitarfélaga, lausafjárstöðu sjóðsins og áætlana stjórnar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um lánveitingar næsta árs. Áætlunin skal lögð fyrir stjórn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem sendir hana til fjármála- og efnahagsráðuneytis, félagsmálaráðuneytis og Seðlabanka Íslands fyrir fjárlagagerð hvers árs.

3. gr. Fjárstýring.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skal varðveita og ávaxta á tryggan hátt það fé sem Húsnæðissjóður hefur umsjón með, í þeim tilgangi að tryggja eins góð lánskjör og kostur er og lágmarka áhættu ríkissjóðs af skuldbindingum sjóðsins. Stjórn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar skal setja Húsnæðissjóði stefnu um fjárstýringu.

Fjárstýring Húsnæðissjóðs skal tryggja að sjóðurinn hafi nægilegt laust fé til að standa við skuldbindingar sjóðsins og sinna lögbundnum verkefnum. Reynist lausafé vera mun meira en sjóðurinn þarf til að standa við skuldbindingar og fjármögnun verkefna getur fjárhagsnefnd gert tillögu til stjórnar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um ráðstöfun hluta eigin fjár til að greiða upp skuldbindingar sjóðsins.

4. gr. Áhættustýring.

Stjórn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar skal setja Húsnæðissjóði stefnu um áhættustýringu í því skyni að stýra áhættu sjóðsins og draga úr henni sem kostur er.

Áhættustýringarstefnan skal marka umgjörð um mat á áhættu sjóðsins og gera kleift að greina áhættuþætti, leggja mat á ólíka áhættu og mæla fyrir um skipulag sem tryggir aðskilnað verkþátta og skilgreinir ábyrgð á þeim.

5. gr. Fjárhagsnefnd.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skal starfrækja fjárhagsnefnd. Fjárhagsnefnd hefur eftirlit með fjár- og áhættustýringu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og Húsnæðissjóðs og gefur stjórn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar reglulega stöðuskýrslu. Forstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar skipar fjárhagsnefnd.

6. gr. Skýrslugjöf.

Stjórn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar skal árlega skila félagsmálaráðherra skýrslu um fjárhag Húsnæðissjóðs, heildarútlán og áætlaða fjármögnunarþörf næsta árs. Í skýrslunni skal jafnframt greina þróun vanskila, hlutfall lána í sérmeðferð af heildarútlánum sjóðsins, uppgreiðslur og vaxtaþróun nýrra útlána. Þá skal leggja mat á tapsáhættu og vaxtaáhættu útlána og greina stöðu afskriftarreiknings, horfur um afskriftir og áhrif aukaafborgana og uppgreiðslna á fjárhag sjóðsins.

7. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 4. mgr. 13. gr. laga um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, nr. 137/2019, tekur þegar gildi.

Félagsmálaráðuneytinu, 17. ágúst 2020.

Ásmundur Einar Daðason.

Gunnhildur Gunnarsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.