Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 28. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 29. okt. 2010

824/2005

Reglugerð um takmörkun á notkun skaðlegra gróðurhindrandi efna og/eða búnaðar á skip.

1. gr.

Markmið reglugerðar þessarar er að koma í veg fyrir eða draga úr óæskilegum áhrifum á umhverfi og heilsu manna af völdum skaðlegra gróðurhindrandi efna og búnaðar sem notuð eru á skip og til að innleiða reglugerð (EB) nr. 782/2003 um bann við því að nota lífræn tinsambönd á skip.

2. gr.

Reglugerð þessi gildir um íslensk skip og önnur skip sem koma til hafnar á Íslandi að undanskildum herskipum, hjálparskipum í flota eða öðrum skipum í ríkiseign eða ríkisrekstri sem um stundarsakir eru nýtt í þágu hins opinbera til annars en viðskipta, sbr. 3. gr. reglugerðar (EB) nr. 782/2003 í fylgiskjali. Reglugerðin gildir einnig um fasta eða fljótandi palla, fljótandi geymslueiningar og fljótandi framleiðslueiningar með geymslu- og uppskipunarbúnaði sem staðsettir eru innan mengunarlögsögu Íslands.

3. gr.

Notkun lífrænna tinsambanda sem gegna hlutverki sæfiefna í gróðurhindrandi efnum eða búnaði er bönnuð, eins og nánar er kveðið á um í fylgiskjali við reglugerð þessa.

4. gr.

Umhverfisstofnun hefur umsjón með framkvæmd reglugerðar þessarar. Umhverfisstofnun er viðurkennd stofnun hvað varðar framkvæmd reglugerðar (EB) nr. 782/2003 um bann við því að nota lífræn tinsambönd á skip.

Siglingastofnun Íslands er viðurkennd stofnun hvað varðar framkvæmd eftirlits með skipum og búnaði skipa, sbr. lög um eftirlit með skipum.

5. gr.

Umhverfisstofnun, eða aðilar sem Umhverfisstofnun felur að sjá um ákveðin atriði eftirlits sem fellur undir þessa reglugerð, hafa eftirlit með reglugerð þessari.

Siglingastofnun Íslands er eftirlitsaðili með búnaði og gerð skipa, eða aðili sem Siglingastofnun felur að sjá um ákveðin atriði eftirlitsins.

Eftirlitsaðilar skulu hvenær sem þeir óska þess eiga greiðan aðgang að öllum upplýsingum um gróðurhindrandi efni eða búnað í skipinu, í samræmi við ákvæði í fylgiskjali við reglugerð þessa.

Eftirlitsskyldum aðilum er skylt að veita allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna eftirlits með framkvæmd reglugerðarinnar.

6. gr.

Um valdsvið, þvingunarúrræði, málsmeðferð, úrskurði, farbönn og viðurlög fer samkvæmt ákvæðum laga um varnir gegn mengun hafs og stranda, ásamt síðari breytingum.

7. gr.

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 782/2003 frá 14. apríl 2003

um bann við því að nota lífræn tinsambönd á skip, sem vísað er til í tl. 56p, V. kafla, XIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 159/2003, þann 8. nóvember 2003 sem birt var í EES-viðbæti nr. 7, 12. febrúar 2004, skal öðlast gildi hér á landi sem hluti af reglugerð þessari, og er birt sem fylgiskjal við reglugerðina.

Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 536/2008 frá 13. júní 2008 um að hrinda í framkvæmd 3. mgr. 6. gr. og 7. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 782/2003 um bann við því að nota lífræn tinsambönd á skip og breytingar á þeirri reglugerð, sem vísað er til í tl. 56p, V. kafla, XIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 73/2010 þann 11. júní 2010, sem birt var í EES-viðbæti nr. 56, 7. október 2010, skal öðlast gildi hér á landi sem hluti af reglugerð þessari, og er birt sem fylgiskjal 2 við reglugerðina.

8. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt v-lið 6. gr. laga nr. 33/2004, um varnir gegn mengun hafs og stranda, ásamt síðari breytingum, sbr. og 18. gr. laga nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni, ásamt síðari breytingum, að höfðu samráði við samgönguráðuneytið hvað varðar þátt Siglingastofnunar Íslands.

Reglugerðin öðlast gildi við birtingu.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.