Fara beint í efnið

Prentað þann 18. apríl 2024

Stofnreglugerð

780/2021

Reglugerð um upplýsingar í endurbótaáætlunum, upplýsingaöflun vegna skilaáætlana og mat á skilabærni lánastofnana og verðbréfafyrirtækja.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um endurbótaáætlanir lánastofnana og verðbréfafyrirtækja og samstæður þeirra samkvæmt IX. kafla A laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.

Reglugerðin gildir einnig um upplýsingagjöf lánastofnana og verðbréfafyrirtækja til skilavalds Seðlabanka Íslands vegna skilaáætlana samkvæmt III. kafla laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020. Þá gildir reglugerðin um atriði sem skilavaldinu ber að líta til við mat á skilabærni lánastofnana, verðbréfafyrirtækja og samstæða þeirra samkvæmt sama kafla laganna.

2. gr. Upplýsingar í endurbótaáætlun.

Endurbótaáætlun skal innihalda eftirfarandi upplýsingar:

  1. samantekt lykilþátta áætlunarinnar, sbr. 4. gr. reglugerðar (ESB) 2016/1075, og samantekt yfir heildarmöguleika til endurbóta,
  2. samantekt yfir mikilvægar breytingar á lánastofnuninni eða verðbréfafyrirtækinu frá því síðasta endurbótaáætlun var lögð fram,
  3. áætlun um samskipti og upplýsingagjöf, sbr. 14. gr. reglugerðar (ESB) 2016/1075, þar sem m.a. er gerð grein fyrir því með hvaða hætti fyrirtækið hyggst bregðast við hugsanlegum neikvæðum viðbrögðum á markaði,
  4. stefnumiðaða greiningu, sbr. 6.-12. gr. reglugerðar (ESB) 2016/1075, og umfang þeirra fjármögnunar- og lausafjáraðgerða sem grípa þarf til til að viðhalda eða endurreisa rekstrarhæfi og fjárhagsstöðu lánastofnunarinnar eða verðbréfafyrirtækisins,
  5. áætlaðar tímasetningar fyrir framkvæmd á sérhverjum efnislegum þætti áætlunarinnar,
  6. nákvæma lýsingu á verulegum hindrunum á árangursríkri og tímanlegri framkvæmd áætlunarinnar, þ.m.t. tillit til áhrifa á aðra í samstæðunni, viðskiptavini og gagnaðila,
  7. tilgreiningu á nauðsynlegri starfsemi,
  8. nákvæma lýsingu á verklagi við ákvörðun á virði og markaðshæfi kjarnastarfssviða, annarrar starfsemi og eigna lánastofnunarinnar eða verðbréfafyrirtækisins,
  9. upplýsingar um stjórnarhætti, sbr. 5. gr. reglugerðar (ESB) 2016/1075, og nákvæma lýsingu á því hvernig gerð endurbótaáætlunarinnar er samþætt í stjórnarhætti lánastofnunarinnar eða verðbréfafyrirtækisins auk stefnu og málsmeðferðar fyrir samþykki endurbótaáætlunarinnar og tilgreiningu á þeim aðilum sem bera ábyrgð á gerð og framkvæmd áætlunarinnar,
  10. ráðstafanir til að varðveita eða endurnýja eiginfjárgrunn lánastofnunarinnar eða verðbréfafyrirtækisins,
  11. ráðstafanir til að tryggja að lánastofnunin eða verðbréfafyrirtækið hafi nægilegan aðgang að neyðarfjármögnunarleiðum, þ.m.t. mögulegum leiðum til að afla lausafjár, mati á tiltækum veðum og mati á möguleikanum til að færa til lausafé milli aðila samstæðunnar og viðskiptaeininga, til að tryggja að lánastofnunin eða verðbréfafyrirtækið geti haldið áfram starfsemi sinni og staðið við skuldbindingar sínar þegar þær falla í gjalddaga,
  12. ráðstafanir til að draga úr áhættu og skuldsetningu,
  13. ráðstafanir til að endurskipuleggja skuldbindingar,
  14. ráðstafanir til að endurskipuleggja starfssvið,
  15. ráðstafanir sem eru nauðsynlegar til að viðhalda stöðugum aðgangi að innviðum fjármálamarkaða,
  16. ráðstafanir sem eru nauðsynlegar til að viðhalda stöðugri virkni rekstrarferla lánastofnunarinnar eða verðbréfafyrirtækisins, þ.m.t. innviðum og tölvuþjónustu,
  17. undirbúningsfyrirkomulag til að auðvelda sölu eigna eða starfssviða innan viðeigandi tímasetningar til að endurheimta trausta fjárhagsstöðu,
  18. aðrar aðgerðir eða áætlanir til að endurheimta trausta fjárhagsstöðu og fyrirhuguð fjárhagsleg áhrif þeirra aðgerða eða áætlana,
  19. undirbúningsráðstafanir sem lánastofnunin eða verðbréfafyrirtækið hefur gert eða fyrirhugar að gera til að auðvelda framkvæmd endurbótaáætlunarinnar, sbr. 15. gr. reglugerðar (ESB) 2016/1075, þ.m.t. þær sem eru nauðsynlegar til að gera tímanlega endurfjármögnun lánastofnunarinnar eða verðbréfafyrirtækisins mögulega, og
  20. umgjörð yfir vísa sem gefa til kynna á hvaða stigi grípa megi til viðeigandi aðgerða sem um getur í áætluninni.

3. gr. Upplýsingaöflun vegna skilaáætlunar.

Í þeim tilgangi að útbúa eða uppfæra skilaáætlun getur skilavaldið krafið lánastofnun og verðbréfafyrirtæki um eftirfarandi upplýsingar, eftir því sem við á:

  1. nákvæma lýsingu á stjórnskipulagi lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis, þ.m.t. skrá yfir alla lögaðila,
  2. tilgreiningu á eigendum og hlutfall réttinda hvers lögaðila með og án atkvæðisréttar,
  3. staðsetningu, lögsögu stofnsetningar, leyfi og lykilstjórnendur hjá hverjum lögaðila,
  4. kortlagningu á nauðsynlegum rekstri og kjarnastarfssviðum lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis, þ.m.t. verulegra eignarhluta og skuldbindinga sem varða slíka starfsemi og starfssvið, með tilvísun til lögaðila,
  5. nákvæma lýsingu á samsetningu skuldbindinga lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis og allra aðila innan samstæðu, þar sem að lágmarki er gerð aðgreining á tegundum og fjárhæðum skammtíma- og langtímaskulda, tryggðra, ótryggðra og undirskipaðra skuldbindinga,
  6. nákvæmar upplýsingar um hæfar skuldbindingar lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis,
  7. tilgreiningu á því ferli sem þarf að eiga sér stað til að ákvarða til hverra lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki hefur veitt tryggingarréttindi, tryggingarhafa og lögsögu tryggingarréttindanna,
  8. lýsingu á áhættuskuldbindingum utan efnahags lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis og lögaðila þeirra, þ.m.t. kortlagningu á tengingu viðkomandi skuldbindinga við nauðsynlegan rekstur og kjarnastarfssvið,
  9. mikilvægar áhættuvarnir lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis, þ.m.t. kortlagningu á tengslum við lögaðila,
  10. tilgreiningu á helstu eða þýðingarmestu mótaðilum lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis auk greiningar á því hvaða áhrif fall þeirra hafi á fjárhagsstöðu lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis,
  11. öll kerfi sem lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki notar til að framkvæma viðskipti sem teljast veruleg miðað við fjölda eða virði fjárhæðar, þ.m.t. kortlagningu á tengslum þessara kerfa við lögaðila á meðal lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis, nauðsynlegan rekstur og kjarnastarfssvið,
  12. öll greiðslu- og uppgjörskerfi sem lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki er með beinum eða óbeinum hætti þátttakandi í, þ.m.t. kortlagningu á tengslum kerfa við lögaðila á meðal lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis, nauðsynlegan rekstur og kjarnastarfssvið,
  13. nákvæma skrá og lýsingu á mikilvægum upplýsingakerfum stjórnenda, þ.m.t. fyrir áhættustýringu, bókhald, reiknings- og gagnaskil, þ.m.t. kortlagningu á staðsetningu skráa og kerfa á meðal lögaðila lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis, og tengsl við nauðsynlegan rekstur og kjarnastarfssvið,
  14. tilgreiningu á eigendum kerfa skv. 13. tölul., þjónustusamninga sem þeim tengjast og hvers konar hugbúnað, kerfi og leyfi, þ.m.t. kortlagningu á lögaðilum, nauðsynlegum rekstri og kjarnastarfssviði þeirra,
  15. tilgreiningu og kortlagningu á lögaðilum og innbyrðis tengslum og víxltengslum milli mismunandi lögaðila, svo sem:

    1. sameiginlegt eða samnýtt starfsfólk, aðstaða eða kerfi,
    2. fjármagn, fjármögnun eða lausafjárfyrirkomulag,
    3. fyrirliggjandi eða skilyrtar lánaáhættuskuldbindingar,
    4. gagnkvæma ábyrgðarsamninga, gagnkvæmar tryggingaráðstafanir, víxlvanefndaákvæði og gagnkvæmar greiðslujöfnunarráðstafanir,
    5. tilflutningur á áhættu og fyrirkomulag fyrir samtengd viðskipti (e. back-to-back transactions), og
    6. þjónustusamninga,
  16. eftirlitsstjórnvald og skilastjórnvald sérhvers lögaðila,
  17. tilgreiningu á stjórnarmanni eða framkvæmdastjóra sem ber ábyrgð á að útvega nauðsynlegar upplýsingar til að undirbúa skilaáætlun lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis auk þeirra sem bera ábyrgð á mismunandi lögaðilum, nauðsynlegum rekstri og kjarnastarfssviðum, ef um aðra aðila er að ræða,
  18. lýsingu á fyrirkomulaginu sem lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki hefur komið á fót til að tryggja, komi til skilameðferðar, að skilavaldið muni hafa allar nauðsynlegar upplýsingar, eins og það er ákvarðað af skilavaldinu, til að beita skilaúrræðum og skilaheimildum,
  19. alla samninga sem lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki hefur gert við þriðju aðila og heimilt er að segja upp vegna ákvörðunar skilavaldsins eða skilastjórnvalda um að beita skilaúrræðum og hvort afleiðingar uppsagnar gætu haft áhrif á beitingu skilaúrræðis,
  20. lýsingu á mögulegum leiðum við öflun lausafjár til að styðja við skilameðferð, og
  21. upplýsingar um kvaðabundnar eignir, lausafjáreignir, starfsemi utan efnahagsreiknings, áætlanir um áhættuvarnir og bókhaldsvenjur.

4. gr. Mat á skilabærni.

Við mat á skilabærni lánastofnunar, verðbréfafyrirtækis eða samstæðu skal skilavaldið, eftir því sem við á, líta til eftirfarandi atriða:

  1. að hve miklu leyti lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki getur kortlagt kjarnastarfssvið og nauðsynlegan rekstur niður á lögaðila,
  2. að hve miklu leyti lagaleg uppbygging og stjórnarhættir falla að kjarnastarfssviðum og nauðsynlegri starfsemi,
  3. að hve miklu leyti ráðstafanir eru fyrir hendi til að útvega nauðsynlegt starfsfólk, innviði, fjármögnun, laust fé og fjármagn til að styðja við og viðhalda kjarnastarfssviðum og nauðsynlegum rekstri,
  4. að hve miklu leyti hægt er að tryggja efndir gildandi þjónustusamninga lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis ef til skilameðferðar kemur,
  5. að hve miklu leyti stjórnarhættir lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis nægja til að stjórna og tryggja framfylgni á innri reglum lánastofnunarinnar eða verðbréfafyrirtækisins að því er varðar þjónustusamninga þeirra,
  6. að hve miklu leyti lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki hefur til staðar verklag til að umbreyta þjónustu sem veitt er á grundvelli þjónustusamninga til þriðju aðila við aðskilnað á kjarnastarfssviðum eða nauðsynlegri starfsemi,
  7. að hvaða marki viðbragðsáætlanir eru til staðar til að tryggja áframhaldandi aðgang að greiðslu- og uppgjörskerfum,
  8. getu upplýsingakerfa stjórnenda til að tryggja að skilavaldið geti aflað réttra og heildstæðra upplýsinga um kjarnastarfssvið og nauðsynlegan rekstur þannig að taka megi skjótar ákvarðanir,
  9. getu upplýsingakerfa stjórnenda til að útvega nauðsynlegar upplýsingar svo að skilvirk skilameðferð lánastofnunar eða verðbréfafyirtækis sé alltaf möguleg, þ.m.t. við aðstæður sem taka hröðum breytingum,
  10. að hve miklu leyti lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki hefur prófað upplýsingakerfi stjórnenda við álagsaðstæður, eins og þær eru skilgreindar af skilavaldinu,
  11. að hve miklu leyti lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki getur tryggt áframhaldandi tilvist upplýsingakerfis stjórnenda, bæði fyrir viðkomandi lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki sem og nýjan lögaðila, ef nauðsynlegt er að aðskilja nauðsynlegan rekstur og kjarnastarfssvið frá öðrum rekstri og starfssviðum,
  12. að hve miklu leyti lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki hefur sett upp fullnægjandi verklag til að tryggja að skilavaldinu verði veittar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að skilgreina innstæðueigendur og fjárhæðir sem tryggðar eru af Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta,
  13. ef samstæða notast við ábyrgðatryggingar innan samstæðu, þá að hve miklu leyti ábyrgðatryggingar eru veittar á markaðskjörum og hversu traust áhættustýringarkerfin fyrir slíkar ábyrgðir eru,
  14. þegar samstæðan stundar samtengd viðskipti (e. back-to-back transactions), þá að hve miklu leyti viðskiptin eru framkvæmd á markaðskjörum og hversu traust áhættustýringarkerfin fyrir slík viðskipti eru,
  15. að hve miklu leyti notkun ábyrgðatrygginga innan samstæðu eða samtengdra viðskipta eykur smitáhrif innan samstæðunnar,
  16. að hve miklu leyti lagalegt skipulag samstæðunnar kemur í veg fyrir beitingu skilaúrræða vegna fjölda lögaðila, hve flókin uppbygging samstæðunnar er eða hversu vandasamt er að aðlaga starfssvið að aðilum samstæðunnar,
  17. fjárhæð og tegundir hæfra skuldbindinga lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis,
  18. þegar matið tekur til blandaðs eignarhaldsfélags, að hve miklu leyti skilameðferð lánastofnana, verðbréfafyrirtækja eða fjármálastofnana innan samstæðunnar gæti haft neikvæð áhrif á þann hluta samstæðunnar sem ekki tengist fjármálaþjónustu,
  19. tilvist og traustleiki þjónustusamninga,
  20. hvort stjórnvöld í þriðju ríkjum hafi yfir að ráða skilaúrræðum sem nauðsynleg eru til að styðja við skilaaðgerðir skilastjórnvalda aðildarríkja og svigrúm til samræmingaraðgerða milli aðildarríkja og stjórnvalda í þriðju ríkjum,
  21. hagkvæmni þess að nota skilaúrræði á þann hátt að markmið skilameðferðar verði uppfyllt, miðað við þau úrræði sem eru tiltæk og skipulag lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis,
  22. að hve miklu leyti skipulag samstæðunnar gerir skilavaldinu kleift að grípa til skilaaðgerða gagnvart samstæðunni í heild eða einum eða fleiri lögaðila innan hennar án þess að valda meiriháttar beinum eða óbeinum skaðlegum áhrifum á fjármálakerfið, traust á markaði eða efnahagslífið og með það að leiðarljósi að hámarka verðmæti samstæðunnar í heild,
  23. tilhögun og aðferðir sem hægt væri að nota til að greiða fyrir skilameðferð þegar um er að ræða samstæður með útibú í mismunandi lögsögu,
  24. raunhæfi þess að nota skilaúrræði á þann hátt að markmið skilameðferðar verði uppfyllt, að gefnum mögulegum áhrifum á lánardrottna, mótaðila, viðskiptavini og starfsmenn ásamt mögulegum aðgerðum sem stjórnvöld í þriðju ríkjum gætu gripið til,
  25. að hve miklu leyti hægt er að leggja viðeigandi mat á áhrif skilameðferðar lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis á fjármálakerfið og traust á fjármálamarkaði,
  26. að hve miklu leyti skilameðferð lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis geti haft veruleg bein eða óbein skaðleg áhrif á fjármálakerfið, traust á markaði eða efnahagslífið,
  27. að hve miklu leyti hægt verði að halda smitáhrifum til annarra lánastofnana, verðbréfafyrirtækja eða fjármálamarkaða í skefjum með beitingu skilaúrræða og skilaheimilda,
  28. að hve miklu leyti skilameðferð lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis gæti haft veruleg áhrif á rekstur greiðslu- og uppgjörskerfa.

Við mat á skilabærni samstæðu ber að skilja tilvísun til lánastofnunar og verðbréfafyrirtækis samkvæmt þessari grein á þann hátt að átt sé við allar lánastofnanir, verðbréfafyrirtæki og einingar skv. c- og d-lið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 70/2020 sem eru hluti af samstæðu.

5. gr. Innleiðing.

Með reglugerð þessari eru innleidd ákvæði viðauka A, B og C við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/59/ESB frá 15. maí 2014 til að setja ramma um endurreisn og skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja.

6. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 5. mgr. 82. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og 2. mgr. 12. gr., 4. mgr. 13. gr. og 4. mgr. 14. gr. laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020, og öðlast þegar gildi.

Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um endurbótaáætlanir lánastofnana og verðbréfafyrirtækja og samstæður þeirra, nr. 50/2019.

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 15. júní 2021.

F. h. r.

Guðrún Þorleifsdóttir.

Hjörleifur Gíslason.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.