Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

766/2006

Reglugerð um kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa.

Almenn ákvæði.

1. gr. Heiti og aðsetur.

Nefndin heitir kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa og hefur hún aðsetur í Neytendastofu, Borgartúni 21, 105 Reykjavík.

Neytendastofa sér nefndinni fyrir fundaraðstöðu, tekur við beiðnum til nefndarinnar um álit, sendir tilkynningar og sér um vörslu gagna.

2. gr. Valdsvið.

Aðilar að lausafjár-, þjónustu- og neytendakaupum geta óskað eftir áliti nefndarinnar á ágreiningi um réttindi og skyldur samkvæmt lögum nr. 50/2000 um lausafjárkaup, lögum nr. 42/2000 um þjónustukaup og lögum nr. 48/2003 um neytendakaup.

Niðurstöðum kærunefndar verður ekki skotið til annarra stjórnvalda en aðilar geta lagt ágreining sinn fyrir dómstóla með venjulegum hætti.

II. KAFLI Skipulag og starfshættir.

3. gr. Skipan nefndar.

Nefndarmenn skulu vera þrír. Ráðherra skipar einn nefndarmanna eftir tilnefningu Neytendasamtakanna og annan eftir tilnefningu Samtaka atvinnulífsins og þann þriðja skipar ráðherra án tilnefningar og skal hann jafnframt vera formaður. Hann skal fullnægja skilyrðum til að vera dómari. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.

4. gr. Starfshættir.

Formaður boðar fundi eftir þörfum. Fundir nefndarinnar eru því aðeins lögmætir að nefndin sé fullskipuð. Nefndin byggir álit sitt á grundvelli gagna sem fyrir hana eru lögð eða hún aflar sér. Álitsgerð nefndarinnar skal vera rökstudd og skal færð til bókar ásamt rökstuðningi. Meirihluti nefndarinnar ræður niðurstöðu. Nefndin skal skila álitsgerð innan átta vikna frá því að mál taldist tækt til efnislegrar umfjöllunar, sbr. 9. gr.

Telji formaður þörf á sérkunnáttu við úrlausn mála getur hann, að fengnu samþykki viðskiptaráðuneytisins, kvatt til mann eða menn sem hafa slíka sérkunnáttu.

Kostnaður vegna starfa nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.

5. gr. Þagnarskylda.

Nefndarmönnum ber að gæta þagmælsku um þau atvik, sem þeim verða kunn í starfinu og leynt eiga að fara vegna lögmætra almanna- og einkahagsmuna. Sama gildir um þá sem starfa fyrir nefndina. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.

III. KAFLI Meðferð mála.

6. gr. Form og efni beiðni um álit.

Beiðni um álit skal vera skrifleg og þar greint nafn, heimilisfang og kennitala þess er um álitið biður. Ef álitsbeiðni er borin fram af öðrum en þeim er hefur hagsmuni af úrlausn máls skal það gert með skriflegu umboði.

Í álitsbeiðni skal lýst því ágreiningsefni sem leitað er álits á og þeim kröfum er beiðandi gerir á hendur gagnaðila. Kröfurnar ber að rökstyðja. Álitsbeiðninni skulu fylgja þau sönnunargögn um málsatvik sem tiltæk eru.

Nefndin getur ákveðið að álitsbeiðni skuli skilað á sérstöku eyðublaði sem hún lætur útbúa.

7. gr. Frávísun.

Nefndin tekur afstöðu til þess hvort ágreiningur aðila heyri undir hana og hvort ágreiningur sé þess eðlis eða studdur þeim gögnum að nefndin geti tekið efnislega afstöðu til ágreiningsins með álitsgerð. Telji nefndin svo ekki vera skal hún vísa málinu frá. Nefndin getur á öllum stigum málsmeðferðar ákveðið að vísa máli frá skv. þessari málsgrein.

Nefndin skal vísa máli frá ef mál er svo óljóst, illa upplýst eða krafa aðila svo óskýr að það sé ekki tækt til álitsgjafar. Slík frávísun skal rökstudd. Mál, sem vísað er frá á þessari forsendu, skal taka til meðferðar að nýju hafi nauðsynlegra upplýsinga verið aflað og kröfugerð skýrð.

Nefndin vísar máli frá hafi dómur þegar fallið í því eða það er til meðferðar dómstóla eða gerðardóms.

Uppfylli beiðni um álit ekki kröfur þessarar reglugerðar skal álitsbeiðanda veittur 10 daga frestur til að bæta úr ágöllunum en að þeim tíma liðnum skal máli vísað frá.

8. gr. Málflutningur.

Málsmeðferð fyrir nefndinni er skrifleg og kallar nefndin ekki fyrir vitni eða sérfróða menn nema að 2. mgr. 4. gr. eigi við í málinu.

Sé mál tekið til meðferðar skal gagnaðila fengin álitsbeiðnin til umsagnar og andmæla. Gagnaðila skal veittur 10 daga frestur til að skila umsögn sinni. Telji nefndin að greinargerð gagnaðila sé á einhvern hátt áfátt getur hún veitt honum 5 daga frest til úrbóta. Álitsbeiðandi skal fá umsögn gagnaðila senda til upplýsingar. Telji nefndin þess þörf getur hún óskað eftir framhaldsgreinargerð álitsbeiðanda. Skal honum þá veittur 10 daga frestur til að skila greinargerð sinni. Ef við á er nefndinni jafnframt heimilt að beina skriflega til aðila spurningum og beiðnum um framlagningu tiltekinna gagna. Nefndin sendir málsaðilum tilkynningu þegar gagnaöflun er lokið.

9. gr. Málshraði.

Nefndin skal taka mál til meðferðar án tafar og skal álitsgerð nefndarinnar að jafnaði liggja fyrir innan átta vikna frá dagsetningu tilkynningar til aðila um að gagnaöflun sé lokið.

Álitsgerð skal send aðilum máls innan viku frá undirritun hennar.

10. gr. Stjórnsýslulög.

Um meðferð mála fer að öðru leyti samkvæmt stjórnsýslulögum.

11. gr. Útgáfa og kynning álitsgerða.

Nefndin skal birta álitsgerðir sínar jafnóðum á heimasíðu Neytendastofu. Nefndinni er heimilt að stytta álitsgerðir við útgáfu þeirra.

Nefndin ákveður sjálf hvernig hún hagar kynningu á einstökum álitsgerðum milli árlegrar útgáfu á ársskýrslum. Samhliða árlegri útgáfu álitsgerða skal nefndin gefa út yfirlitsskýrslu um störf sín.

IV. KAFLI Gildistaka.

12. gr.

Reglugerð þessi, sem er sett með heimild í lögum nr. 87/2006 um breytingu á lögum um lausafjárkaup, lögum um þjónustukaup og lögum um neytendakaup, öðlast þegar gildi.

Viðskiptaráðuneytinu, 28. ágúst 2006.

Jón Sigurðsson.

Kristján Skarphéðinsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.