Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Stofnreglugerð

706/2004

Reglugerð um endurveitingu ökuréttar.

1. gr. Heimild til endurveitingar.

Ríkislögreglustjóri getur heimilað endurveitingu ökuréttar í tilvikum þar sem um er að ræða lengri sviptingu en þrjú ár eða ævilangt. Hafi maður verið sviptur ökurétti ævilangt má þó eigi veita ökurétt að nýju fyrr en svipting hefur staðið í fimm ár.

Lögreglustjórar annast framkvæmd endurveitinga í umboði Ríkislögreglustjóra. Sækja skal skriflega um endurveitingu, á þar til gerðu eyðublaði, hjá lögreglustjóra óháð búsetu umsækjanda.

2. gr. Skilyrði endurveitingar.

Endurveitingu ökuréttar skv. 1. gr. má heimila þegar sérstakar ástæður mæla ekki gegn því. Við mat á umsókn vegna endurveitingar skal m.a. litið til þess að viðkomandi hafi sýnt reglusemi og að ekki séu lengur fyrir hendi þær ástæður, sem ökuleyfissviptingin byggðist á. Við matið skal m.a. litið til eftirfarandi þátta:

  1. Brotaferils samkvæmt sakavottorði frá sviptingu.
  2. Háttsemi samkvæmt málaskrá lögreglu.
  3. Útistandandi sekta og sakarkostnaðar enda eigi hann rót í málarekstri vegna sviptingarinnar og umsækjandi er gjaldfær.
  4. Annarra lögmætra sjónarmiða við mat á endurveitingu.

3. gr. Frestun endurveitingar.

Ef umsækjandi hefur gerst sekur um akstur án réttinda á sviptingatímabilinu lengist tími til endurveitingar um þrjá mánuði fyrir hvert brot, þó að hámarki eitt ár.

Ef umsækjandi hefur orðið vís að ölvunarakstri, verið sviptur ökurétti eða hlotið dóm vegna annarra brota á umferðarlögum erlendis, sem hefðu haft áhrif á endurveitingu ef framin væru hér á landi, skal litið til þeirra við ákvörðun um endurveitingu. Líta má til þeirrar viðmiðunar sem er að finna í íslenskum lögum og dómaframkvæmd vegna samskonar brota.

4. gr. Kæruheimild.

Heimilt er að skjóta synjun lögreglustjóra á endurveitingu ökuréttar til samgönguráðherra með kæru. Um málsmeðferðina fer samkvæmt stjórnsýslulögum.

5. gr. Gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi er sett skv. heimild í 3. mgr. 106. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum sbr. 9. gr. laga nr. 84/2004 um breytingu á umferðarlögum.

Reglugerð þessi öðlast gildi 1. september 2004.

Samgönguráðuneytinu, 18. ágúst 2004.

Sturla Böðvarsson.

Sigurbergur Björnsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.