Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Ógild reglugerð

670/2020

Reglugerð um sérstakan rekstrarstuðning til einkarekinna fjölmiðla.

1. gr. Gildissvið.

Ákvæði reglugerðarinnar gilda um einkarekna fjölmiðla, þ.m.t. staðbundna fjölmiðla, sem uppfylla skilyrði 5. gr. reglugerðarinnar og miðla efni til almennings hér á landi.

Reglugerðin gildir ekki um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, sbr. lög nr. 23/2013.

2. gr. Markmið.

Markmið hins sérstaka rekstrarstuðnings er að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru. Heimilt er að veita einkareknum fjölmiðlum sérstakan rekstrarstuðning á árinu 2020 í ljósi þess víðtæka rekstrarvanda sem að þeim steðjar vegna tekjufalls í kjölfars heimsfaraldurs kórónuveiru.

3. gr. Orðskýringar.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér greinir:

  1. Einkarekinn fjölmiðill er fjölmiðill sem er hvorki í heild eða að hluta í opinberri eigu, þ.e. hvorki í eigu opinberra hlutafélaga, ríkis, sveitarfélaga eða stofnana, né í eigu félags eða annars lögaðila alfarið í þeirra eigu.
  2. Fjölbreytt efni er efni sem birtist í fjölmiðlum og hefur breiða skírskotun og er fyrir allan almenning á Íslandi en ekki afmarkaða hópa. Í þessu felst að efnistök séu almenn og fjölbreytt en ekki bundin við eitt afmarkað eða fá svið.
  3. Fjölmiðlaveita er einstaklingur eða lögaðili sem starfrækir fjölmiðil.
  4. Sérstakur rekstrarstuðningur til einkarekinna fjölmiðla er ein skiptis fjárstuðningur sem veittur er á grundvelli bráðabirgðaákvæðis VI í lögum nr. 38/2011 um fjölmiðla, sbr. 9. gr. laga nr. 37/2020 um frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.
  5. Staðbundinn fjölmiðill er landshluta-, héraðs-, hverfis- eða bæjarmiðill sem hefur fyrst og fremst staðbundna efnisskírskotun og höfðar aðallega til notenda sem tengsl hafa við útbreiðslusvæði miðilsins.
  6. Stuðningshæfur rekstrarkostnaður er sá kostnaður sem heimilt er að leggja til grundvallar við útreikning fjárhæðar hins sérstaka rekstrarstuðnings.

4. gr. Umsókn.

Mennta- og menningarmálaráðherra tekur ákvörðun um úthlutun sérstaks rekstrarstuðnings að fengnum tillögum fjölmiðlanefndar. Umsóknir skulu afgreiddar fyrir 1. september 2020.

Fjölmiðlanefnd auglýsir eftir umsóknum um sérstakan rekstrarstuðning. Umsókn um sérstakan rekstrarstuðning, ásamt fylgigögnum, skal berast fjölmiðlanefnd eigi síðar en 7. ágúst 2020.

Ef fjölmiðlaveita starfrækir beint eða óbeint fleiri en einn fjölmiðil sem uppfyllir skilyrði 5. gr. reglugerðarinnar skal umsókn vera sameiginleg vegna þeirra beggja eða allra.

Í umsókn skulu koma fram upplýsingar um greitt tryggingagjald, meðalfjölda stöðugilda, fjölda verktaka og heildarfjárhæð greiðslna til þeirra vegna miðlunar á fréttum og fréttatengdu efni fyrir árið 2019. Upplýsingarnar skulu vera staðfestar af löggiltum endurskoðanda.

Í því skyni að sannreyna stuðningshæfan kostnað skv. 6. gr. reglugerðarinnar getur fjölmiðlanefnd óskað eftir viðeigandi upplýsingum frá umsækjanda, til að mynda virðisaukaskattsskýrslum og bókhaldi.

Séu gögn ófullnægjandi skal fjölmiðlanefnd veita umsækjanda frest til að skila inn fullnægjandi gögnum.

Við mat á umsóknum getur fjölmiðlanefnd aflað álits sérfróðra aðila um hvort skilyrði 5. og 6. gr. reglugerðarinnar séu uppfyllt. Kostnaður við mat á umsóknum og annarri umsýslu skal greiddur úr ríkissjóði af fjárveitingu hins sérstaka rekstrarstuðnings.

5. gr. Skilyrði fyrir sérstökum rekstrarstuðningi.

Skilyrði fyrir sérstökum rekstrarstuðningi til einkarekins fjölmiðils eru eftirfarandi:

  1. Um sé að ræða stuðningshæfan rekstrarkostnað, sbr. 6. gr.
  2. Fjölmiðill skal vera skráður eða hafa leyfi til hljóð- eða myndmiðlunar samkvæmt IV. kafla laga nr. 38/2011 um fjölmiðla.
  3. Efni sem birtist í fjölmiðli skal vera fjölbreytt og ætlað fyrir almenning á Íslandi. Staðbundnir fjölmiðar eru undanþegnir þessu skilyrði.
  4. Fjölmiðlaveita skal hafa staðið skil á árlegri skýrslugjöf til fjölmiðlanefndar, skv. 23. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla, vegna ársins 2019 og hafa veitt fjölmiðlanefnd fullnægjandi gögn og upplýsingar um eignarhald fjölmiðlaveitunnar þar með talin gögn um raunverulegan eiganda.
  5. Fjölmiðlaveita sé ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir, sem komnar voru á eindaga fyrir lok árs 2019, og álagðir skattar og gjöld byggjast ekki á áætlunum vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum, þ.m.t. staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattskýrslum, til Skattsins síðastliðin þrjú ár áður en umsókn barst eða síðan fjölmiðlaveita hóf starfsemi ef það var síðar.
  6. Fjölmiðlaveita hafi ekki verið í fjárhagserfiðleikum þann 31. desember 2019, í skilningi reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 651/2014 um almenna hópundanþágu (GBER), sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 152/2014 frá 27. júní 2014, sem innleidd var í íslenskan rétt með reglugerð nr. 1165/2015 um gildistöku reglugerða framkvæmdastjórnarinnar (ESB) um ríkisaðstoð, með síðari breytingum. Undanþegin þessu ákvæði eru lítil fyrirtæki í skilningi reglugerðar um almenna hópundanþágu, að því tilskildu að þau sæti ekki skiptameðferð eða gjaldþrotameðferð og hafi ekki fengið björgunaraðstoð eða endurskipulagningaraðstoð.

6. gr. Stuðningshæfur rekstrarkostnaður.

Eftirfarandi kostnaðarliðir falla undir stuðningshæfan rekstrarkostnað:

  1. Beinn launakostnaður umsækjanda til blaða- og fréttamanna, ritstjóra og aðstoðarritstjóra, myndatökumanna og ljósmyndara á árinu 2019 vegna miðlunar á fréttum og fréttatengdu efni.
  2. Beinar verktakagreiðslur til aðila skv. a-lið á árinu 2019 vegna miðlunar á fréttum og fréttatengdu efni.

7. gr. Útreikningur og hámark hins sérstaka rekstrarstuðnings.

Við ákvörðun um fjárhæð sérstaks rekstrarstuðnings skal m.a. litið til launa, fjölda starfsmanna og verktakagreiðslna vegna miðlunar á fréttum og fréttatengdu efni á ritstjórnum árið 2019, útgáfutíðni og fjölbreytileika fjölmiðla.

Hinn sérstaki rekstrarstuðningur skal að hámarki vera 25% af stuðningshæfum rekstrarkostnaði umsækjanda, sbr. 6. gr., enda hækki sá kostnaður með aukinni útgáfutíðni og auknum fjölda starfsfólks á ritstjórn eða verktaka, sem nauðsynlegur er til að tryggja fjölbreytileika í efnistökum.

Stuðningur til hvers umsækjanda getur ekki orðið hærri en sem nemur 25% af þeirri fjárveitingu sem Alþingi hefur úthlutað til sérstaks rekstrarstuðnings.

Fari svo að heildarfjárhæð samþykktra umsókna um stuðningshæfan rekstrarkostnað, að teknu tilliti til takmarkana skv. 1. og 2. mgr., fari umfram fjárveitingar Alþingis skerðist stuðningur til allra umsækjenda í jöfnum hlutföllum. Fari svo að heildarfjárhæð samþykktra umsókna um stuðningshæfan rekstrarkostnað verði lægri en fjárveitingar Alþingis skiptast afgangsfjármunir milli umsækjanda í réttum hlutföllum við kostnað þeirra. Þannig ræður umfang og fjöldi umsókna um stuðning endanlegu endurgreiðsluhlutfalli til fjölmiðils.

8. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett á grundvelli bráðabirgðaákvæðis VI í lögum um fjölmiðla nr. 38/2011 og öðlast þegar gildi. Reglugerðin fellur úr gildi 31. desember 2020.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 3. júlí 2020.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir.

Páll Magnússon.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.