Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Stofnreglugerð

651/1994

Reglugerð um ráðstöfun eigna ríkisins.

Birta efnisyfirlit

1. gr.

Innkaupastofnun ríkisins (Ríkiskaup) annast sölu á eignum ríkisins sem ekki er lengur þörf fyrir.

2. gr.

Sala fasteigna, flugvéla og skipa í eigu ríkisins fari þannig fram: Ríkiskaup óski tilboða í það sem selja á með opinberri auglýsingu. Í auglýsingunni skal taka fram hvar nánari upplýsingar eru veittar, skilafrest tilboðs ásamt öðrum þeim atriðum er söluna varðar. Lágmarksverð skal ákveðið að höfðu samráði við fjármálaráðuneyti. Ríkiskaup meti tilboð sem berast og geri tillögu til fjármálaráðuneytisins sem ákvarðar hvaða tilboði sé tekið. Tilboðsgjafar eiga rétt á að fá upplýsingar um hvaða tilboði er tekið.

3. gr.

Sala bifreiða, tækja og véla (annarra en flugvéla) í eigu ríkisins skal fara fram með þeim hætti, að þær séu boðnar til sýnis og sölu með opinberri auglýsingu, þar sem tilgreint sé árgerð tækis og aðrar upplýsingar sem að gagni koma. Kauptilboð, sem berast, skulu vera bindandi í 7 daga. Bifreiðar, tæki og vélar skulu seldar gegn staðgreiðslu. Taka skal hæsta boði. Nái tilboð ekki lágmarksverði skal setja tækið aftur á uppboð. Náist þá ekki heldur lágmarksverð er Ríkiskaupum heimilt að selja tækið með öðrum hætti en að framan greinir.

4. gr.

Húsgögnum, tölvum, skrifstofuvélum og öðrum búnaði í eigu ríkisins, sem ekki er getið um í 2. og 3. gr. reglugerðar þessarar, skal ráðstafað á hagkvæmasta hátt. Óski ríkisstofnun að selja slíkan búnað skal hún fela Ríkiskaupum að annast söluna. Ríkiskaup skulu athuga hvort sá búnaður, tæki og vélar, sem þeim er falið að selja, sé nothæfur hjá öðrum ríkisstofnunum. Sé svo, skal stofnunin meta verðgildi þeirra og annast sölu milli stofnana, en selja ella á hæsta fáanlega verði gegn staðgreiðslu.

5. gr.

Við sölu á eignarhlutum ríkisins í fyrirtækjum ákveða fjármálaráðherra og viðkomandi fagráðherra hver skuli annast sölu.

Þegar eignarhluti ríkisins í fyrirtæki er boðinn til sölu skal eftirfarandi atriðum fullnægt:

  1. Áætlað söluverð eignarhlutans skal metið af hlutlausum aðila, t.d. löggiltum verðbréfasala eða löggiltum endurskoðanda.
  2. Eignarhluti skal auglýstur opinberlega almenningi til kaups þannig að öllum sem áhuga hafa sé tryggður réttur til að gera tilboð.
  3. Meta skal tilboð til staðgreiðsluverðs. Hagstæðasta tilboði skal tekið eða öllum hafnað.
  4. Heimilt er að setja hámark á hlutafjárkaup hvers aðila eða fjárhagslega tengdra aðila, ef slíkt mun leiða til takmörkunar á samkeppni.

6. gr.

Fjármálaráðherra getur veitt heimild til að víkja frá þessum reglum við sölu eigna ríkisins liggi gildar ástæður til.

7. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimilt í 5. gr. laga nr. 52 30. mars 1987, um opinber innkaup, og öðlast þegar gildi.

Fjármálaráðuneytið, 9. desember 1994.

Friðrik Sophusson.

Skarphéðinn Steinarsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.