Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

636/2021

Reglugerð um gildistöku framkvæmdarreglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/775 um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda að því er varðar reglur um tilgreiningu á upprunalandi eða upprunastað megininnihaldsefnis matvæla.

1. gr.

Ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem vísað er til í XII. kafla II. viðauka skulu öðlast gildi með breytingum og viðbótum sem leiðir af II. viðauka, bókun 1 við samninginn og öðrum ákvæðum hans. Á grundvelli ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 134/2021, frá 23. apríl 2021, öðlast eftirtalin ESB-gerð gildi hér á landi:

Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/775 frá 28. maí 2018 um reglur um beitingu 3. mgr. 26. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1169/2011 um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda að því er varðar reglur um tilgreiningu á upprunalandi eða upprunastað megininnihaldsefnis matvæla. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 34, frá 12. maí 2021, bls. 56.

2. gr.

Eftirfarandi bætist við 2. mgr. 1. gr. reglugerðar (ESB) 2018/775: Reglugerð þessi gildir ekki um landfræðilegar merkingar á landbúnaðarafurðum og matvælum sem njóta verndar samkvæmt reglum landsréttar í EFTA-ríkjunum.

Um slíkar afurðir og matvæli gilda lög nr. 130/2014, um vernd afurðarheita sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu, með síðari breytingum.

3. gr.

Matvælastofnun og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga undir yfirumsjón Matvælastofnunar fara með eftirlit með því að ákvæðum þessarar reglugerðar sé framfylgt í samræmi við 6. og 22. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli.

4. gr.

Um brot gegn reglugerð þessari fer samkvæmt 30. gr., 30. gr. a - 30. gr. e og 31. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli.

5. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 31. gr. a laga nr. 93/1995, um matvæli, með síðari breytingum.

Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 26. maí 2021.

Kristján Þór Júlíusson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Iðunn Guðjónsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.