Fara beint í efnið
Sýna breytingar
Næsta útgáfa

Prentað þann 29. apríl 2024

Upprunaleg útgáfa reglugerðar gilti á tímabilinu 10. júlí 2017 – 1. júní 2022 Sjá núgildandi

619/2017

Reglugerð um samræmda afhendingu og miðlun upplýsinga um flutninga á sjó.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðarinnar er að greiða fyrir flutningum á sjó og draga úr stjórnsýslubyrði skipafélaga með því að gera rafræna afhendingu og miðlun upplýsinga að reglu og með því að einfalda upplýsingagjöf um flutninga á sjó.

2. gr. Gildissvið.

Ákvæði reglugerðarinnar gilda um afhendingarhátt og miðlun upplýsinga um flutninga á sjó að því er varðar skip sem koma til hafnar eða láta úr höfn á Íslandi.

3. gr. Afhendingarháttur upplýsinga.

Skipstjóra, rekstraraðila eða umboðsmanni útgerðar er skylt að afhenda vaktstöð siglinga upplýsingar sem veita ber vegna komu og brottfarar skipa samkvæmt ákvæðum laga og stjórnvaldsfyrirmæla þar að lútandi eins og kveðið er á um í viðauka við reglugerðina.

Upplýsingarnar skulu veittar í gegnum sameiginlega gagnagátt vaktstöðvar siglinga.

Upplýsingarnar skulu veittar eigi síðar en:

  1. Tuttugu og fjórum klukkustundum áður en skip leggst að höfn,
  2. þegar skipið leggur frá höfn ef siglingatíminn er undir tuttugu og fjórum klukkustundum, eða
  3. eins fljótt og upplýsingarnar liggja fyrir ef ekki er vitað hver viðkomuhöfnin er eða ef viðkomuhöfn er breytt á meðan á siglingu stendur.

4. gr. Innleiðing á EES-gerð.

Með reglugerð þessari eru innleidd ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2010/65/ESB frá 20. október 2010 um formsatriði við skýrslugjöf að því er varðar skip sem koma í og/eða láta úr höfn í aðildarríkjum og um niðurfellingu á tilskipun 2002/6/EB, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 89/2013 frá 3. maí 2013, sem birt var í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 61, 31. október 2013, bls. 62. Tilskipunin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 28, 16. maí 2013, bls. 336-345.

5. gr. Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 2. og 3. mgr. 16. gr. c og 1. mgr. 17. gr. laga nr. 41/2003, um vaktstöð siglinga, með síðari breytingum, og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 869/2004, um formsatriði við skýrslugjöf að því er varðar skip sem koma í og/eða láta úr höfn í ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 26. júní 2017.

F. h. r.

Sigurbergur Björnsson.

Björn Freyr Björnsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.