Fara beint í efnið

Prentað þann 27. apríl 2024

Stofnreglugerð

607/2023

Reglugerð um fjárhagsaðstoð við sjálfviljuga heimför á grundvelli laga um útlendinga.

1. gr. Gildissvið.

Þegar útlendingur sem sótt hefur um alþjóðlega vernd hefur dregið umsókn sína til baka, fengið synjun um vernd eða synjun á efnislegri meðferð og ákvörðun hefur verið tekin um aðstoð til sjálfviljugrar heimfarar, eftir atvikum í samstarfi við alþjóðastofnun, er heimilt að greiða viðkomandi flugfargjöld, ferðastyrk og/eða enduraðlögunarstyrk. Útlendingar sem koma frá ríkjum sem eru á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki, eða fá aðstoð við heimför til ríkja sem eru á þeim lista eiga þó ekki rétt á enduraðlögunarstyrk.

Útlendingur á eingöngu rétt á styrk samkvæmt reglugerð þessari einu sinni.

2. gr. Skilgreiningar.

Með greiðslu flugfargjalda er átt við greiðslu fyrir flugmiða frá Íslandi til heima- eða viðtökuríkis.

Með greiðslu ferðastyrks er átt við reiðufé sem ætlað er til kaupa á nauðsynjum meðan á ferðalagi stendur.

Með greiðslu enduraðlögunarstyrks er átt við styrk sem stuðla á að árangursríkri enduraðlögun viðkomandi í heima- eða viðtökuríki og styðja hann við að koma þar undir sig fótunum á nýjan leik. Styrkurinn er almennt greiddur út í því ríki og getur t.d. nýst í húsaleigu, nám, atvinnu eða önnur verkefni í samstarfi við alþjóðastofnun.

3. gr. Fjárhæðir styrkja.

Styrkir greiðast í samræmi við eftirfarandi töflu.

Ríki Flokkur Ferðastyrkur Enduraðlögunarstyrkur Viðbótarstyrkur
ef sótt er um áður en frestur til heimfarar er liðinn, allt að
A Fullorðinn 200 evrur 3.000 evrur 1.000 evrur
Barn 100 evrur 1.500 evrur 500 evrur
Fylgdarlaust barn 200 evrur 2.000 evrur 500 evrur
B Fullorðinn 200 evrur 2.000 evrur 500 evrur
Barn 100 evrur 1.000 evrur 500 evrur
Fylgdarlaust barn 200 evrur 2.000 evrur 500 evrur

Fjárhæð enduraðlögunarstyrkja fer eftir því hvort heima- eða viðtökuríki sé skilgreint í flokki A eða B og tekur mið af því á hvaða stigi ósk um aðstoð til heimfarar er borin fram.

Útlendingastofnun ber að halda utan um lista þar sem ríki eru flokkuð, uppfæra hann eftir því sem þörf er á og birta á vef stofnunarinnar. Við mat á því í hvorum flokki ríki skuli vera getur stofnunin meðal annars litið til þess hversu erfiðlega hafi gengið að flytja útlendinga til viðkomandi ríkis, kostnað við að komast til ríkisins og setjast þar aftur að og vergrar landsframleiðslu í ríkinu.

Kjósi útlendingur ekki að nýta styrkinn í sérstök enduraðlögunarverkefni getur hann, með samþykki viðeigandi alþjóðastofnunar, fengið hluta styrksins greiddan í reiðufé. Þó er ekki heimilt að afhenda hærri fjárhæð í reiðufé en sem nemur helmingi af upphæðinni eins og nánar greinir í töflu. Í undantekningartilvikum er þó heimilt að greiða enduraðlögunarstyrk að fullu í formi reiðufjár þegar sérstakar aðstæður eru til staðar í heima- eða viðtökuríki, t.d. þegar þar ríkir óðaverðbólga eða samstarfsaðilar íslenskra stjórnvalda eru ekki með starfsemi í ríkinu.

4. gr. Undanþágur.

Heimilt er að veita útlendingi, sem er staddur hér á landi við gildistöku reglugerðarinnar, viðbótarstyrk samkvæmt töflu í 3. gr. þrátt fyrir að frestur hans til sjálfviljugrar heimfarar sé liðinn óski hann eftir því innan 60 daga frá því að reglugerðin öðlaðist gildi.

Þegar sérstaklega stendur á er heimilt að veita ferða og/eða enduraðlögunarstyrk þótt um sé að ræða umsækjanda sem á ekki rétt á styrk skv. 1. gr. Þetta á þó ekki við ef viðkomandi hefur hlotið alþjóðlega vernd í Schengen-ríki. Slíkur styrkur kæmi einkum til skoðunar í tilvikum barnafjölskyldna þar sem allir fjölskyldumeðlimir hafa óskað eftir styrk. Það sama getur átt við um útlendinga sem taldir eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu að mati viðeigandi stjórnvalds eða ef viðeigandi stjórnvald telur umsækjanda af öðrum ástæðum hafa þörf fyrir sérstaka aðstoð í tengslum við flutning. Við mat á því hvort umsækjandi eigi rétt á styrk skal m.a. höfð hliðsjón af heilsufari og félagslegri stöðu umsækjanda.

5. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 8. mgr. 104. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um enduraðlögunarstyrk og ferðastyrk til umsækjanda um alþjóðlega vernd, nr. 961/2018, með síðari breytingum.

Dómsmálaráðuneytinu, 5. júní 2023.

Jón Gunnarsson.

Bryndís Helgadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.