Fara beint í efnið

Prentað þann 14. maí 2024

Eldri útgáfa reglugerðar gilti á tímabilinu 31. júlí 2002 – 1. jan. 2010 Sjá núgildandi
Sýnir breytingar gerðar 31. júlí 2002 af rg.nr. 556/2002

541/2001

Reglugerð um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna sölu hópferðabifreiða úr landi.

1. gr. Gildissvið.

Eftir ákvæðum reglugerðar þessarar skal endurgreiða rekstraraðilum hópferðabifreiða, sem leyfi hafa samkvæmt lögum nr. 13/1999 um skipulag á fólksflutningum með hópferðabifreiðum, 19,68% af söluverði hópferðabifreiða sem þeir sannanlega selja úr landi, sbr. þó 2. mgr.

Endurgreiða skal rekstraraðilum hópferðabifreiða, sem nýskráðar eru á tímabilinu 1. september 2000 til 31. desember 2003 og notið hafa endurgreiðslu virðisaukaskatts skv. lögum nr. 57/2001, um breyting á lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988, 6,56% af söluverði hópferðabifreiða sem þeir sannanlega selja úr landi.

2. gr. Endurgreiðslubeiðni.

Sækja skal um endurgreiðslu á sérstöku eyðublaði í því formi sem tollstjórinn í Reykjavík ákveður.

 Réttur til endurgreiðslu samkvæmt reglugerð þessari fellur niður ef umsókn um endurgreiðslu berst tollstjóranum í Reykjavík eftir að sex ár eru liðin frá því að réttur til endurgreiðslu stofnaðist.

3. gr. Afgreiðsla á umsóknum og skilyrði endurgreiðslu.

Tollstjórinn í Reykjavík afgreiðir beiðnir um endurgreiðslu samkvæmt reglugerð þessari og annast endurgreiðslu.

Skilyrði endurgreiðslu er að í beiðni um endurgreiðslu sé sýnt fram á með fullnægjandi hætti að mati tollstjóra að hópferðabifreiðin hafi verið seld úr landi.

Tollstjórinn í Reykjavík skal rannsaka endurgreiðslubeiðni og getur hann í því sambandi krafið umsækjanda nánari skýringa á viðskiptunum. Með beiðni um endurgreiðslu skal fylgja frumrit sölureiknings eða greiðsluskjal frá tollyfirvöldum þar sem fram kemur söluverð hópferðabifreiðar með áritaðri staðfestingu tollgæslunnar á því að hópferðabifreið samkvæmt reikningnum hafi verið seld úr landi.

4. gr.

Röng skýrslugjöf eða framlagning rangra eða villandi gagna, svo og röng upplýsingagjöf látin í té í því skyni að fá endurgreiðslu á virðisaukaskatti samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar, varðar við 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

5. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 6. gr. laga nr. 105/2000, um breyting á lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

 Fjármálaráðuneytinu, 3. júlí 2001. 

 F. h. r.
 Baldur Guðlaugsson. 

 Ingvi Már Pálsson. 

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.