Fara beint í efnið
Sýna breytingar
Næsta útgáfa

Prentað þann 6. maí 2024

Upprunaleg útgáfa reglugerðar gilti á tímabilinu 19. júlí 2002 – 9. okt. 2007 Sjá núgildandi

540/2002

Reglugerð um mæðra- og feðralaun.

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr.

Tryggingastofnun ríkisins er heimilt, að fenginni umsókn, að greiða mæðra- og feðralaun þeim sem eiga lögheimili hér á landi. Skilyrði er að foreldri hafi tvö eða fleiri börn yngri en 18 ára á framfæri sínu, og að börnin séu búsett hér á landi hjá foreldri samkvæmt lögmætri skipan.

II. KAFLI Greiðsla mæðra- og feðralauna til einstæðra foreldra.

2. gr.

Heimilt er að greiða mæðra- og feðralaun til einstæðra foreldra sem uppfylla skilyrði 1. gr.

Með einstæðu foreldri í reglugerð þessari er átt við:

a) Foreldri sem skilið er við maka sinn að borði og sæng eða að lögum, eða hefur slitið óvígðri sambúð eða staðfestri samvist.
b) Foreldri sem hefur eignast börn utan hjúskapar eða óvígðrar sambúðar og hefur ekki tekið upp sambúð, samvist eða gengið í hjónaband.
c) Foreldri sem er eitt vegna andláts maka.

3. gr.

Upphaf greiðslna eftir skilnað foreldra skal miðast við útgáfudag leyfisbréfs til skilnaðar að borði og sæng eða lögskilnaðar. Þegar sambúðarfólk eða fólk í staðfestri samvist á í hlut skal miða upphaf greiðslna við dagsetningu sambúðar- eða samvistarslitavottorðs frá sýslumanni.

Þegar alveg sérstaklega stendur á er heimilt, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr., að hefja greiðslu mæðra- og feðralauna þótt ekki liggi fyrir skilnaðarleyfi eða staðfesting á sambúðar- eða samvistarslitum. Umsækjanda ber þá að leggja fram ótvíræð gögn sem sýna að hann sjái einn um framfærslu barna sinna.

Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að binda greiðslur mæðra- og feðralauna því skilyrði að meðlagsúrskurður hafi verið kveðinn upp eða samkomulag um greiðslu framfærslueyris staðfest.

4. gr.

Upphaf greiðslna vegna andláts skal vera í næsta mánuði eftir fráfall foreldris.

Heimilt er að hefja greiðslur þrátt fyrir að ekki liggi fyrir skilríki um andlát ef upp hefur verið kveðinn úrskurður um að um bú horfins manns megi fara sem dánarbú, sbr. 1. gr. laga nr. 44/1981 um horfna menn.

III. KAFLI Greiðsla mæðra- og feðralauna til annarra en einstæðra foreldra.

5. gr.

Um greiðslur mæðra- eða feðralauna til maka elli- eða örorkulífeyrisþega þegar bætur almannatrygginga falla niður vegna vistunar á stofnun og um greiðslur mæðra- eða feðralauna til maka einstaklings sem sætir gæsluvist eða afplánar fangelsisrefsingu fer samkvæmt reglum tryggingaráðs nr. 951/1999 um greiðslu mæðra- og feðralauna skv. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 118/1993 um félagslega aðstoð.

IV. KAFLI Stöðvun greiðslna.

6. gr.

Greiðslur mæðra- og feðralauna stöðvast í lok þess mánaðar sem skilyrði fyrir greiðslum eru ekki lengur uppfyllt, sbr. þó 7. gr.

7. gr.

Greiðslur stöðvast í lok þess mánaðar sem einstætt foreldri gengur í hjúskap, hefur óvígða sambúð eða staðfesta samvist við fyrri sambýlisaðila eða foreldri þeirra barna sem greitt er vegna.

Greiðslur stöðvast ári eftir að einstætt foreldri hefur óvígða sambúð eða staðfesta samvist við annan en foreldri barna eða fyrri sambýlisaðila. Þó skal stöðva greiðslur fyrsta næsta mánaðar eftir að þeim fæðist barn, sé það innan árs frá skráningu í sambúð.

V. KAFLI Gildistaka.

8. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 2. gr., sbr. 13. gr., laga nr. 118/1997 um félagslega aðstoð, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 11. júlí 2002.

Jón Kristjánsson.

Davíð Á. Gunnarsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.