Fara beint í efnið

Prentað þann 16. apríl 2024

Stofnreglugerð

476/2001

Reglugerð fyrir sjóð skv. 2. gr. laga nr. 80/1966 um kísilgúrverksmiðju við Mývatn.

Birta efnisyfirlit

1. gr.

Sjóðurinn starfar samkvæmt 2. gr. laga nr. 80/1996, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2001 og eftir ákvæðum reglugerðar þessarar.

Iðnaðarráðherra skipar stjórn sjóðsins til tveggja ára í senn. Stjórn sjóðsins skal skipuð einum fulltrúa Skútustaðahrepps, einum fulltrúa Húsavíkurbæjar, einum fulltrúa samgönguráðherra, einum fulltrúa umhverfisráðherra og einum fulltrúa iðnaðarráðherra sem jafnframt skal vera formaður stjórnarinnar.

2. gr.

Stjórnin tekur ákvarðanir um málefni sjóðsins. Hver stjórnarmaður fer með eitt atkvæði. Til ákvörðunar þarf meirihluta atkvæða. Falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns stjórnar sjóðsins.

Stjórnin fer með vörslu fjármuna sjóðsins og skulu þeir ávaxtaðir á sem hagkvæmastan hátt hjá innlánsstofnunum eða í verðbréfum útgefnum af ríkinu eða lánastofnunum.

3. gr.

Tilgangur sjóðsins er að kosta undirbúning aðgerða til þess að efla atvinnulíf í þeim sveitarfélögum sem nú eiga verulegra hagsmuna að gæta vegna starfsemi kísilgúrverksmiðjunnar.

Sjóðurinn skal einbeita sér að nýsköpun í atvinnulífi, einkum á sviði þekkingariðnaðar eða annarrar framsækinnar atvinnustarfsemi sem er til þess fallin að auka fjölbreytni atvinnulífsins. Í þessum tilgangi er stjórn sjóðsins heimilt:

  1. að eiga minnihlutaaðild að sprotafyrirtækjum,
  2. að veita styrki, m.a. til tækniaðstoðar, rannsókna, vöruþróunar og markaðsathugana á móti meirihluta framlagi annarra.

4. gr.

Ráðstöfunarfé sjóðsins er:

  1. 20% af námagjaldi kísilgúrverksmiðjunnar árið 2001.
  2. 68% af námagjaldi verksmiðjunnar frá og með árinu 2002 og þar til kísilgúrvinnslu er hætt.
  3. Framlag á fjárlögum samkvæmt ákvörðun Alþingis hverju sinni.
  4. Aðrar tekjur.

5. gr.

Stjórn sjóðsins skal semja ársreikning fyrir hvert reikningsár í samræmi við ákvæði laga. Ársreikningur skal hafa að geyma rekstrarreikning, efnahagsreikning og skýringar. Ennfremur skal semja ársskýrslu. Reikningsár sjóðsins er almanaksárið.

Ársreikningur sjóðsins skal endurskoðaður af Ríkisendurskoðun.

Fyrir 1. júní hvert ár skal stjórnin afhenda iðnaðarráðherra ársskýrslu sjóðsins ásamt eintaki af ársreikningi hans, árituðum af endurskoðanda sjóðsins.

6. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 2. gr. laga nr. 80/1966 um kísilgúrverksmiðju við Mývatn, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2001, öðlast þegar gildi. Jafnframt er felld úr gildi eldri reglugerð sama efnis, nr. 205/1995.

Iðnaðarráðuneytinu, 21. maí 2001.

Valgerður Sverrisdóttir.

Þorgeir Örlygsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.