Fara beint í efnið

Prentað þann 2. maí 2024

Stofnreglugerð

445/2024

Reglugerð um framkvæmd atkvæðagreiðslu vegna alvarlegs smitsjúkdóms.

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að tryggja samræmda og örugga atkvæðagreiðslu utan kjörfundar á sérstökum kjörstað og dvalarstað kjósanda ef hann er haldinn alvarlegum smitsjúkdómi.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu í kosningum til Alþingis og sveitarstjórna, við forsetakjör og þjóðaratkvæðagreiðslur á sérstökum kjörstöðum og dvalarstað kjósanda ef hann er haldinn alvarlegum smitsjúkdómi.

II. KAFLI Atkvæðagreiðsla vegna alvarlegs smitsjúkdóms.

3. gr. Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar á sérstökum kjörstað.

Ef landskjörstjórn telur tilefni til skulu sýslumenn, hver í sínu umdæmi, í samráði við sóttvarnayfirvöld og landskjörstjórn, skipuleggja atkvæðagreiðslu utan kjörfundar á sérstökum kjörstað fyrir kjósendur sem ekki geta sótt kjörfund á kjördag, eða greitt atkvæði þar sem utankjörfundaratkvæðagreiðsla fer fram, sökum þess að þeir eru í sóttkví eða einangrun vegna alvarlegs smitsjúkdóms.

Skal sýslumaður auglýsa hvar og hvenær slík atkvæðagreiðsla fer fram á þann hátt á hverjum stað sem venja er þar að birta opinberar auglýsingar. Slík kosning má þó ekki hefjast fyrr en 21 degi fyrir kjördag. Sýslumanni er heimilt að lengja opnunartímann frá þegar auglýstum tíma, ef aðstæður í samfélaginu eru þannig að slíkt sé nauðsynlegt að mati hans og landskjörstjórnar. Nægilegt er að auglýsa slíka breytingu á vefsíðu sýslumanna.

Kjósendur sem hafa gefið sig fram fyrir auglýstan lokunartíma sérstaks kjörstaðar eiga rétt á að greiða atkvæði.

4. gr. Framkvæmd atkvæðagreiðslu utan kjörfundar á sérstökum kjörstað.

Í samráði við sóttvarnayfirvöld ákveður sýslumaður hvernig sérstakur kjörstaður er útbúinn, s.s. hvort kjörstaður sé færanlegur, atkvæði greitt úr bifreiðum, kjörstaður sé undir berum himni o.s.frv. Tryggt skal að kjósandi geti greitt atkvæði án þess að nokkur annar sjái.

Kjósandi sem er í sóttkví eða einangrun vegna alvarlegs smitsjúkdóms telst hvorki fær um að árita kjörseðilinn á fyrirskipaðan hátt né undirrita fylgibréfið og fær því aðstoð við atkvæðagreiðsluna, sbr. III. kafla.

Kjörstjóri má synja kjósanda um að greiða atkvæði utan kjörfundar telji sóttvarnayfirvöld að atkvæðagreiðslu verði ekki við komið án þess að tefla heilsu kjörstjóra eða annarra í hættu. Sú ákvörðun kjörstjóra er endanleg.

5. gr. Atkvæðagreiðsla á dvalarstað.

Kjósanda sem getur hvorki sótt kjörfund á kjördag né sérstakan kjörstað, sökum þess að hann er í einangrun eða sóttkví vegna alvarlegs smitsjúkdóms, er heimilt að greiða atkvæði þar sem hann dvelst. Beiðni þar um skal berast hlutaðeigandi sýslumanni, eigi síðar en kl. 10 á kjördag, ásamt staðfestingu heilbrigðisyfirvalda á að viðkomandi sé í einangrun eða sóttkví á kjördag. Kjósandi í sóttkví skal jafnframt gera grein fyrir því hvers vegna hann getur ekki greitt atkvæði á sérstökum kjörstað skv. 3. gr.

Þegar kjósandi er ekki á kjörskrá í umdæmi kjörstjóra skal kjörstjóri leitast við að halda atkvæðagreiðsluna nægjanlega snemma svo hægt sé að koma atkvæði til skila fyrir lok kjörfundar.

Synja má kjósanda um að greiða atkvæði á dvalarstað telji sóttvarnayfirvöld að atkvæðagreiðslu verði ekki við komið án þess að tefla heilsu kjörstjóra eða annarra í hættu. Sú ákvörðun kjörstjóra er endanleg.

III. KAFLI Aðstoð við atkvæðagreiðslu.

6. gr. Skilyrði fyrir því að aðstoð sé veitt.

Kjósandi sem er í sóttkví eða einangrun vegna alvarlegs smitsjúkdóms telst hvorki fær um að árita kjörseðilinn á fyrirskipaðan hátt né undirrita fylgibréfið. Skal hann annaðhvort njóta aðstoðar kjörstjóra eða aðstoðarmanns, sbr. 74. gr. kosningalaga og reglugerð um aðstoð við atkvæðagreiðslu. Aðstoð skal því aðeins veita að kjósandi geti sjálfur skýrt þeim er aðstoðina veitir frá því hvernig hann vill greiða atkvæði.

7. gr. Aðstoða veitt af kjörstjóra.

Njóti kjósandi aðstoðar kjörstjóra skal hann upplýsa kjörstjóra um hvernig hann vill greiða atkvæði, til að mynda með því að sýna kjörstjóra blað með listabókstaf framboðs eða á annan hátt sem kjörstjóri telur öruggan og nægilega skýran. Geti kjósandi ekki skýrt kjörstjóra frá því hvernig hann vill greiða atkvæði skal kjörstjóri synja kjósanda um aðstoð við atkvæðagreiðsluna. Ákvörðun kjörstjóra er endanleg.

8. gr. Aðstoð veitt af aðstoðarmanni kjósanda.

Kjósandi á rétt á aðstoð einstaklings sem fylgir kjósanda á sérstakan kjörstað eða er með honum á dvalarstað, fari atkvæðagreiðslan fram þar. Auk kjósandans getur aðstoðarmaður kjósanda tjáð kjörstjóra að kjósandinn óski eftir aðstoð aðstoðarmannsins við atkvæðagreiðsluna.

Sé aðstoðarmaðurinn einnig í sóttkví eða einangrun skal kjörstjóri aðstoða hann við framkvæmd atkvæðagreiðslunnar.

Aðstoðarmaður kjósanda skal fara í einu og öllu eftir tilmælum kjörstjóra, s.s. vegna sóttvarna.

9. gr. Bókun um aðstoð.

Sé aðstoð veitt við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar skal kjörstjóri rita á fylgibréf að aðstoð hafi verið veitt af kjörstjóra eða aðstoðarmanni og skal þá jafnframt skráð í sérstaka skrá kjörstjóra samkvæmt 77. gr. kosningalaga eða gerðabók kjörstjóra að kjósandi hafi notið aðstoðar kjörstjóra eða aðstoðarmanns, eftir því sem við á.

IV. KAFLI Gildistaka.

10. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 7. mgr. 69. gr. kosningalaga nr. 112/2021 og tekur þegar gildi.

Dómsmálaráðuneytinu, 8. apríl 2024.

Guðrún Hafsteinsdóttir.

Haukur Guðmundsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.