Fara beint í efnið

Prentað þann 19. apríl 2024

Stofnreglugerð

411/1988

Reglugerð fyrir Tónlistarskólann á Akureyri

1. gr.

Skólinn heitir Tónlistarskólinn á Akureyri. Skólinn er eign Akureyrarbæjar og fer bæjarstjórn Akureyrar með yfirstjórn hans.

2. gr.

Skólinn starfar eftir ákvæðum gildandi laga og reglugerða.

3. gr.

Markmið skólans er að veita almenna tónlistarfræðslu og vinna að eflingu tónlistarlífs á Akureyri.

Þessum markmiðum hyggst skólinn ná meðal annars með því:

- að annast kennslu í hljóðfæraleik og söng ásamt kennslu í öðrum tónlistargreinum sem gert er ráð fyrir í námsskrám tónlistarskólanna.

- að búa nemendum fjölbreytt skilyrði til að þroska tónlistarhæfileika sína og sköpunargáfu.

- að leggja áherslu á félagslegt gildi tónlistariðkunar með þátttöku nemenda í samleik, kór- og hljómsveitarstarfi.

- að búa nemendur undir áframhaldandi nám í tónlist.

- að gera fullorðnum kleift að auðga tómstundir sínar með tónlistariðkun.

4. gr.

Bæjarstjórn kýs 5 manna stjórn skólans og jafnmarga til vara til fjögurra ára í senn að loknum hverjum reglulegum sveitarstjórnarkosningum.

5. gr.

Skólastjórn fer með yfirstjórn skólans í umboði bæjarstjórnar eins og tilgreint er í "samþykkt um stjórn Akureyrarbæjar".

Formaður stjórnar boðar til funda með dagskrá svo oft sem þurfa þykir og er skylt að boða til fundar ef tveir stjórnarmenn, skólastjóri eða kennarafundur æskir þess. Skólastjóri eða staðgengill hans situr stjórnarfundi. Heimilt er kennarafundi að tilnefna

1 fulltrúa úr hópi fastra kennara til að sitja stjórnarfundi, með málfrelsi og tillögurétt og skal hann bundinn sömu trúnaðarskyldu og stjórnarmenn.

6. gr.

Bæjarstjórn ræður skólastjóra, yfirkennara og aðra fasta starfsmenn að fengnum tillögum stjórnar skólans. Stundakennara og aðra starfsmenn sem ráðnir eru til skemmri tíma, ræður skólastjóri í samráði við stjórn skólans.

7. gr.

Skólastjóri fer með daglega stjórnun í samráði við stjórn og kennara skólans. Hann ber ábyrgð á að skólastarfið sé í samræmi við reglugerð þessa. Hann skal framfylgja samþykktum stjórnar. Skólastjóri ráðstafar húsnæði og hefur yfirumsjón með eigum skólans.

Skólastjóri kemur fram fyrir hönd skólans gagnvart starfsmönnum, nemendum og foreldrum þeirra svo og aðilum utan skólans.

Skólastjóri skal skila vinnuskýrslum starfsmanna til launadeildar og árita reikninga til greiðslu. Skólastjóri stendur skil á innheimtu skólagjalda.

8. gr.

Yfirkennari er skólastjóra til aðstoðar og starfar að stjórn skólans í umboði hans. Hann skal vera staðgengill skólastjóra í fjarveru hans.

Yfirkennari annast m. a. skipulagningu nemendatónleika, umsjón kennslugagna og framkvæmd prófa.

9. gr.

Kennarafundur er skólastjóra til ráðuneytis um starf skólans. Almennan kennarafund skal halda í upphafi skólaárs þar sem drög að starfsáætlun eru kynnt.

Skólastjóri eða staðgengill hans boðar til kennarafunda með dagskrá og stjórnar þeim eða skipar fundarstjóra. Haldin skal gjörðabók kennarafunda.

Skylt er öllum föstum kennurum skólans að sækja kennarafundi þá mánuði sem skóli starfar. Skylt er stundakennurum að sækja kennarafund ef skólastjóri æskir þess, enda sé boðað til fundarins með a. m. k. þriggja daga fyrirvara.

Skylt er að halda kennarafund ef minnst '/a hluti fastra kennara æskir þess.

Heimilt er kennurum skólans að kjósa á almennum kennarafundi þriggja manna kennararáð úr hópi fastra kennara er fari með umboð kennarafundar.

10. gr.

Heimilt er að stofna til foreldraráðs (ráða) og skulu starfsreglur þess hljóta samþykki stjórnar skólans að fenginni umsögn kennarafundar.

Með sama hætti er heimilt að stofna til nemendaráðs (ráða) að fengnu samþykki stjórnar skólans og umsögn kennarafundar.

Heimilt er kennarafundi að kveðja til fulltrúa foreldra og/eða nemenda við umfjöllun um innri málefni skólans.

11. gr.

Rekstur skólans skal kosta með fjárveitingum á fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar, skólagjöldum nemenda og úr ríkissjóði eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum.

Skrifstofa Akureyrarbæjar annast greiðslu launa og rekstrarreikninga svo og bókhald Tónlistarskólans á Akureyri.

12. gr.

Skólafulltrúi Akureyrarbæjar og skólastjóri semja drög að fjárhagsáætlun næsta árs og leggja fyrir stjórn skólans.

Stjórn tónlistarskólans leggur tillögur að fjárhagsáætlun fyrir bæjarstjórn til endanlegrar afgreiðslu.

13. gr.

Skólastjóri skal fyrir 1. maí ár hvert gera kennsluáætlun næsta skólaárs í samráði við skólafulltrúa Akureyrarbæjar. Skal áætlun þessi lögð fyrir stjórn skólans og send menntamálaráðuneytinu í samræmi við gildandi lög.

14. gr.

Rétt til skólavistar hefur hver sá er áhuga hefur á tónlistarnámi því sem skólinn býður upp á.

Áætlun um kennsluskipan og námsframboð skal liggja fyrir í upphafi skólaárs og skal auglýsa það við innritun.

Þurfi að takmarka fjölda nemenda í einstökum námssviðum er skólanum m. a. heimilt að beita tímabundnum hæfnisprófum og breyta auglýstu kennslufyrirkomulagi.

Heimilt er skólastjóra að vísa nemanda frá námi ef hann hefur ekki sinnt því um lengri tíma eða hefur gerst brotlegur við reglur skólans og ekki látið skipast við áminningu.

Rísi ágreiningur um skólavist nemanda skal stjórn skólans úrskurða í málinu.

15. gr.

Starfstími skólans er 9 mánuðir árlega og skulu leyfisdagar fara eftir skóladagatali fyrir grunnskóla.

Viðverutími kennara og vinnuskylda fer eftir gildandi kjarasamningi, en heimilt er skólastjóra að skipuleggja vinnu kennara utan starfstíma skólans að fengnu samþykki þeirra.

16. gr.

Stjórn tónlistarskólans boðar árlega til samráðsfundar með fulltrúum starfandi tónlistarfélaga á Akureyri.

17. gr.

Reglugerð þessi er samþykkt af bæjarstjórn Akureyrar hinn 1. desember 1987 og staðfestist hér með sbr. heimild í lögum nr. 75/1985.

Menntamálaráðuneytið, 13. júlí 1988.

Birgir Ísl. Gunnarsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.