Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 29. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 26. mars 2011

401/2005

Reglugerð um vatnsveitur sveitarfélaga.

I. KAFLI Gildissvið og markmið.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um vatnsveitur í eigu sveitarfélaga. Einnig gilda ákvæði hennar eftir því sem við á um aðrar vatnsveitur sem starfa samkvæmt ákvæðum laga um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 32/2004.

2. gr. Markmið.

Markmið með reglugerðinni eru að tryggja öryggi og auka sveigjanleika í rekstri vatnsveitna, stuðla að tæknilegum framförum og setja reglur um réttindi, skyldur og ábyrgð notenda annars vegar og þjónustu vatnsveitu við íbúa og atvinnulíf hins vegar.

3. gr. Orðskýringar.

Merking eftirfarandi orða í reglugerð þessari er sem hér segir:

a. Aðveituæð: Vatnsæð sem liggur frá vatnsbóli að fyrstu tengingu við stofnæð.
b. Dreifiæð: Vatnsæð sem liggur frá stofnæð og ætlað er að flytja vatn um einstakar götur eða opin svæði.
c. Heimilisnotkun: Notkun neysluvatns til venjulegra heimilisþarfa, þ.e. vatnsnotkun sem ekki er til atvinnustarfsemi eða sambærilegra nota.
d. Heimæð: Vatnsæð sem liggur frá aðveituæð, stofnæð eða dreifiæð til einstakra notenda.
e. Heimæðargjald: Gjald sem felur í sér greiðslu fasteignareiganda til vatnsveitu fyrir lagningu einnar heimæðar og uppsetningu á stofnloka.
f. Inntaksrými: Rými eða klefi þar sem stofnleiðslur tengjast húsi eins og kveðið er á um í byggingarreglugerð.
g. Ídráttarrör: Hlífðarrör sem vatnsæð er dregin inn í.
h. Notkunargjald: Gjald sem sveitarstjórn leggur á þá notendur vatns er kaupa vatn til atvinnustarfsemi eða annars en venjulegrar heimilisnotkunar samkvæmt mældri notkun í rúmmetrum.
i. Rekstrareining: Bókhaldslega aðskilinn starfsemisþáttur í veitufyrirtæki eða hjá sveitarfélagi, hvort sem um er að ræða fjárhagslega sjálfstæða einingu eða ekki.
j. Starfssvæði vatnsveitu: Allt það landsvæði sem vatnsveita þjónar, óháð því hvort vatnsæðar veitunnar mynda sameiginlegt dreifikerfi.
k. Stjórn vatnsveitu: Sá aðili sem ber ábyrgð á daglegri stjórn vatnsveitunnar, hvort sem um er að ræða sveitarstjórn, sérstaka stjórn vatnsveitu sem kjörin er skv. 4. gr., eða annan þann aðila sem fer með málefni vatnsveitu sbr. 7. eða 8. gr.
l. Stofnloki: Sá hluti heimæðar sem vatnslagnir innanhúss eru tengdar við.
m. Stofnæð: Vatnsæð sem liggur frá aðveituæð út í einstaka hluta dreifikerfis.
n. Tengiloki: Loki sem settur er á enda heimæðar við lóðarmörk.
o. Vatnsgjald: Gjald sem sveitarstjórn leggur á eigendur fasteigna er geta notið vatns frá vatnsveitu sveitarfélagsins í samræmi við 6. gr. laga nr. 32/2004, með síðari breytingum, og ætlað er ásamt öðrum tekjum að standa straum af stofnkostnaði og rekstri vatnsveitu.
p. Vatnsæð: Samheiti yfir heimæð, dreifiæð, stofnæð og aðveituæð.
q. Veitusvæði: Sá hluti starfssvæðis vatnsveitu sem stjórn vatnsveitu hefur ákveðið að setja sérstaka gjaldskrá fyrir. Veitusvæði getur verið heilt sveitarfélag eða svæði sem þjónað er af tilteknu vatnsbóli eða stofnæð.

II. KAFLI Stjórn og rekstrarform vatnsveitu.

4. gr. Stjórn vatnsveitu.

Sveitarstjórn getur kosið sérstaka stjórn til að hafa umsjón með framkvæmd vatnsveitumála sveitarfélagsins í umboði sveitarstjórnar og skal hún þá kjörin á fyrsta eða öðrum fundi sveitarstjórnar að afloknum sveitarstjórnarkosningum. Kjörtímabilið skal vera hið sama og sveitarstjórnar nema sveitarstjórn ákveði annað. Sveitarstjórn skal ákveða fjölda stjórnarmanna. Um fundarsköp gilda ákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, svo og ákvæði í samþykkt um stjórn og fundarsköp hlutaðeigandi sveitarfélags. Sveitarstjórn skipar formann stjórnar nema samþykktir sveitarstjórnar kveði á um annað.

Þar sem ekki hefur verið kosin stjórn vatnsveitu fer sveitarstjórn eða nefnd samkvæmt samþykkt sveitarfélags með þau verkefni sem stjórn vatnsveitu eru falin samkvæmt reglugerð þessari.

Sveitarstjórn skal fylgjast reglubundið með því að þjónusta vatnsveitu við íbúa sé í samræmi við það sem lög eða samningar kveða á um.

5. gr. Hlutverk stjórnar.

Helstu verkefni stjórnar vatnsveitu eru þessi:

a. Að ákveða framkvæmd vatnsveitumála á starfssvæði vatnsveitunnar í samræmi við samþykktir sveitarstjórnar og ákvæði laga, þar á meðal að hafa yfirumsjón með uppbyggingu og viðhaldi veitunnar, virkjun vatnsbóla, lagningu vatnsæða, þ.e. aðalæða, stofnæða, dreifiæða og heimæða, og byggingu annarra mannvirkja sem nauðsynleg kunna að vera til reksturs veitunnar, svo sem dælustöðva og miðlunargeyma.
b. Að semja gjaldskrá vatnsveitunnar, sbr. 10. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 32/2004, og auglýsa gjaldskrána og breytingar á henni.
c. Að annast eftirlit með rekstri vatnsveitu í umboði sveitarstjórnar og marka stefnu um þjónustu hennar með því að setja nánari reglur um einstök framkvæmdaratriði eftir því sem þörf gerist.
d. Að fjalla um drög að fjárhagsáætlun fyrir vatnsveituna og leggja fyrir sveitarstjórn.

6. gr. Vatnsveitustjóri.

Sveitarstjórn getur ráðið vatnsveitustjóra að fengnum tillögum stjórnar vatnsveitunnar. Gera skal sérstakan ráðningarsamning við vatnsveitustjóra. Vatnsveitustjóri annast daglegan rekstur vatnsveitunnar í umboði stjórnar vatnsveitunnar. Stjórn vatnsveitunnar skal setja honum erindisbréf, í samráði við sveitarstjórn, þar sem nánar er kveðið á um verksvið hans. Vatnsveitustjóri skal sitja fundi stjórnar vatnsveitunnar með málfrelsi og tillögurétt.

7. gr. Samvinna sveitarfélaga.

Þegar sveitarfélög hafa samvinnu sín á milli um stofnun og rekstur vatnsveitu skal gerður um það skriflegur samningur eða samþykkt sem hljóta skal staðfestingu hlutaðeigandi sveitarstjórna.

Í stofnsamningi, sbr. 1. mgr., skal meðal annars kveða á um rekstrarform, stjórn og kjör fulltrúa, fjölda þeirra, kjörtímabil, fjárhagslega ábyrgð á skuldbindingum veitunnar og hvaða ákvarðanir stjórnar þarfnist staðfestingu eigenda veitunnar.

8. gr. Framsal einkaréttar.

Sveitarfélag hefur einkarétt á rekstri vatnsveitu og sölu vatns sem hún getur fullnægt innan staðarmarka sveitarfélagsins, að því leyti sem ekki er mælt fyrir um annað í lögum. Sveitarstjórn er heimilt að fela stofnun eða fyrirtæki, sem er að meiri hluta í eigu ríkis og/eða sveitarfélaga, skyldur sínar og réttindi samkvæmt þessari reglugerð.

Við ráðstöfun skv. 1. mgr. skal, eftir því sem við á, kveðið á um eignarrétt á stofnkerfi vatnsveitu, verð til notenda veitunnar, innlausnarrétt sveitarfélagsins á stofnkerfi og fastafjármunum vatnsveitunnar í samningi aðila auk annarra atriða sem sveitarstjórn telur nauðsynleg.

Ef ekki er kveðið á um annað í samningi aðila skal innlausnarverð stofnkerfis og fastafjármuna skv. 2. mgr. miðast við afskrifað endurstofnverð þessara eigna. Ef ágreiningur verður um verð skera dómkvaddir matsmenn úr nema samningsaðilar verði ásáttir um að leysa ágreininginn á annan hátt.

III. KAFLI Fjármál og reikningsskil.

9. gr. Bókhald og reikningsskil.

Vatnsveitur skulu haga bókhaldi og reikningshaldi sínu á skýran og aðgengilegan hátt. Að svo miklu leyti sem ekki er sérstaklega mælt fyrir á annan veg í reglugerð þessari eða sérlögum gilda ákvæði laga um bókhald, nr. 145/1994, laga um ársreikninga, nr. 144/1994, og góðar bókhalds- og reikningsskilavenjur.

Í bókhaldi skal lögð áhersla á að leiða fram beinan rekstrarkostnað og tekjur einstakra rekstrareininga á reikningsárinu. Gera skal reikninga fyrir hlutdeild í beinum rekstrarkostnaði svo og vöru og þjónustu, sem einstakar rekstrareiningar fá frá öðrum rekstrareiningum. Reikningar þessir skulu ekki nema hærri fjárhæð en sem nemur kostnaði vegna viðkomandi rekstrarþáttar og skulu þeir færðir í bókhaldi viðkomandi rekstrareiningar með reglubundnum hætti innan reikningsársins.

Sameiginlegur rekstrarkostnaður, þ.e. kostnaður sem ekki telst til beins rekstrarkostnaðar einstakra rekstrareininga, skal færður á sérstakan málaflokk í bókhaldi vatnsveitu. Til frádráttar á sama málaflokk skal færa reikninga sem gerðir eru vegna hlutdeildar rekstrareininga með sjálfstætt reikningshald í sameiginlegum rekstrarkostnaði. Reikningar þessir skulu ekki vera hærri en sem nemur kostnaðarverði og skulu þeir færðir í bókhaldi viðkomandi rekstrareiningar með reglubundnum hætti innan reikningsársins.

10. gr. Langtímaáætlun.

Stjórn vatnsveitu skal samþykkja langtímaáætlun fyrir veituna þar sem meðal annars er gerð grein fyrir áformum um framkvæmdir á hverju gjaldskrársvæði veitunnar á næstu fimm árum hið skemmsta. Langtímaáætlun skal gefa glögga mynd af áformum um rekstur, framkvæmdir og efnahag og gilda sem rammi við gerð árlegrar fjárhagsáætlunar, stefnumörkun, ákvörðun gjaldskrár og stjórnun vatnsveitunnar.

Langtímaáætlun skal uppfærð árlega.

IV. KAFLI Gjaldskrá vatnsveitu.

11. gr. Gjaldskrá.

Stjórn vatnsveitu skal semja gjaldskrá þar sem meðal annars komi fram fjárhæð þeirra gjalda sem heimilt er að innheimta samkvæmt þessum kafla, svo og gjalddagar þeirra. Heimilt er að binda gjöld þessi, önnur en vatnsgjald sem ákveðið er sem hlutfall af fasteignamati, við breytingar á vísitölu byggingarkostnaðar. Miða skal við að vatnsgjald ásamt öðrum tekjum vatnsveitu af sölu vatns standi undir rekstri hennar, þ.m.t. fjármagnskostnaði, og fyrirhuguðum stofnkostnaði samkvæmt langtímaáætlun veitunnar.

Stjórn vatnsveitu auglýsir gjaldskrána og breytingar á henni á þann hátt sem venja er að birta opinberar auglýsingar á starfssvæði veitunnar.

Heimilt er að skipta starfssvæði vatnsveitu í veitusvæði og setja sérstaka gjaldskrá fyrir hvert veitusvæði. Nýti stjórn vatnsveitu sér þessa heimild skal hún jafnframt gæta þess að rekstri einstakra veitusvæða sé haldið aðskildum í bókhaldi vatnsveitunnar.

12. gr. Vatnsgjald.

Heimilt er að heimta vatnsgjald af öllum fasteignum er vatns geta notið og má gjaldið nema allt að 0,5 hundraðshlutum af fasteignamati. Liggi matsverð fasteignar ekki fyrir við álagningu vatnsgjalds en fasteign getur þó notið vatns frá vatnsveitu, er heimilt að ákveða upphæð vatnsgjalds með hliðsjón af áætluðu fasteignamati eignarinnar fullfrágenginnar og ber þá að taka mið af fasteignamati sambærilegra fasteigna í sveitarfélaginu.

Í stað þess að miða við fasteignamat, sbr. 1. mgr., er heimilt að miða vatnsgjaldið við fast gjald auk álags vegna annars eða beggja af eftirfarandi:

a. Stærðar fasteignar samkvæmt flatarmáli og/eða rúmmáli.
b. Notkunar samkvæmt mæli.

Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. er heimilt að ákveða í gjaldskrá hámark og lágmark vatnsgjalds miðað við rúmmál húseigna. Álagning samkvæmt málsgrein þessari má þó aldrei vera hærri en segir í 1. mgr. þessarar greinar.

Greiða ber fullt vatnsgjald þótt lokað sé fyrir vatn skv. 28. grein reglugerðar þessarar.

Heimilt er að innheimta vatnsgjald með fasteignaskatti. Skulu þá gjalddagar vatnsgjalds vera þeir sömu og sveitarstjórn ákveður fyrir fasteignaskatt og skal innheimtu vatnsgjalds hagað á sama hátt og innheimtu fasteignaskatts.

13. gr. Notkunargjald.

Þar sem vatn frá vatnsveitu er notað til atvinnustarfsemi eða annars en venjulegra heimilisþarfa er vatnsveitu heimilt að innheimta sérstakt notkunargjald er miðast við notkun mælda í rúmmetrum. Notkunargjald skal að jafnaði innheimta eftir á samkvæmt mældri notkun en verði því eigi við komið ákveður stjórn vatnsveitu gjaldið samkvæmt áætlaðri notkun.

14. gr. Vatnsmælar.

Vatnsveita lætur þeim er greiða skulu notkunargjald eða vatnsgjald samkvæmt mældri notkun í té löggilta vatnsmæla. Vatnslagnir innanhúss eiga jafnan að vera þannig lagðar að unnt sé að nota einn mæli fyrir hvert innanhússkerfi. Verði vatnsmæli eigi komið fyrir án breytinga á vatnslögn er fasteignareiganda skylt að láta breyta lögninni á eigin kostnað.

Vatnsveita er eigandi mælisins og ákveður stærð hans og gerð í samræmi við vatnsnotkun á hverjum stað. Sá er notar vatn samkvæmt mæli skal greiða árlegt leigugjald fyrir mælinn. Kveðið skal á um upphæð gjaldsins í gjaldskrá. Vatnsveita annast og kostar eðlilegt viðhald vatnsmælis, en allar skemmdir af mannavöldum og frosti ber notanda að bæta.

Fasteignareiganda ber að tilkynna vatnsveitu tafarlaust um bilanir eða skemmdir á vatnsmæli, er hann kann að verða var við. Ef maður rýfur innsigli vatnsmælis varðar það refsingu samkvæmt almennum hegningarlögum.

15. gr. Heimæðargjald.

Til þess að standa straum af kostnaði vatnsveitu við lagningu heimæðar frá dreifiæð í stofnloka húss og uppsetningu hans skal fasteignareigandi greiða heimæðargjald fyrir lagningu einnar heimæðar. Fjárhæð heimæðargjalds skal ákveða í gjaldskrá og skal gjaldið miðað við meðalkostnað við lagningu heimæða í sveitarfélaginu, að teknu tilliti til gerðar, stærðar og lengdar heimæðarinnar. Þurfi að gera breytingar á heimæð vegna framkvæmda á vegum fasteignareiganda skal hann kosta þær.

Gjalddagi heimæðargjalds skal ákveðinn í gjaldskrá, sbr. 11. gr. reglugerðar þessarar, en gjaldið getur þó fyrst fallið í gjalddaga við útgáfu byggingarleyfis eða úthlutun lóðar sem er í eigu sveitarfélags.

16. gr. Vatnssala í höfnum.

Endurgjald hafnarsjóðs til vatnsveitu fyrir vatnssölu til skipa, báta og annarra úr vatnsdreifikerfi hafnar skal miðast við mælda notkun í rúmmetrum samkvæmt gjaldskrá. Verð fyrir hvern rúmmetra vatns, sem seldur er til skipa og báta skal ákveðið í gjaldskrá hafnarinnar. Heimilt er að áætla vatnsnotkun ef ekki er unnt að mæla hana.

17. gr. Sala vatns til annarra vatnsveitna.

Selji vatnsveita annarri vatnsveitu vatn skal endurgjald fyrir vatnið ákveðið með samkomulagi aðila eða mati dómkvaddra matsmanna, náist ekki samkomulag. Við mat skal þess gætt að endurgjaldið verði aldrei minna en sannanlegur kostnaður vatnsveitunnar af vatnsöflun og dreifingu vegna vatnssölunnar, ásamt allt að 5% álagi.

18. gr. Vatnssölusamningar.

Heimilt er að binda vatnssölu til fyrirtækja sem nota óvenju mikið vatn í tengslum við starfsemi sína eða nota vatn til sérstakrar framleiðslu því skilyrði að gerður verði sérstakur vatnssölusamningur er taki meðal annars mið af kostnaði vatnsveitunnar ef gera þarf sérstakar ráðstafanir til að tryggja vatnsþrýsting eða leggja þarf sérstaka vatnsæð til notanda.

V. KAFLI Lagning veitukerfis, viðhald o.fl.

19. gr. Heimæðar í einkaeigu.

Heimæðar í einkaeigu sem lagðar hafa verið fyrir 1. janúar 1992 verða eign vatnsveitu í framhaldi af endurnýjun vatnsveitunnar á þeim, þ.e. þegar vatnsveita stendur straum af kostnaði við endurnýjunina.

Vatnsveitu er skylt að yfirtaka heimæð að fenginni skriflegri beiðni eiganda.

20. gr. Staðlar o.fl.

Um gerð og lagningu veitukerfa vatnsveitu gilda ákvæði íslensks staðals, eftir því sem við getur átt, en norrænir staðlar og ISO staðlar skulu vera leiðbeinandi að öðru leyti.

Um vatnsból, starfsleyfi vatnsveitna, innra eftirlit og vatnsgæði gilda eftir því sem við á ákvæði reglugerðar nr. 536/2001 um neysluvatn, reglugerðar nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns og reglugerðar nr. 522/1994 um matvælaeftirlit.

21. gr. Ábyrgð á framkvæmdum.

Þeir pípulagningameistarar einir mega hafa umsjón með og bera ábyrgð á framkvæmdum við lagningu vatnsæða innanhúss og viðhald þeirra, sem til þess hafa fengið löggildingu eða hlotið staðbundna viðurkenningu byggingarnefndar, sbr. byggingarreglugerð, og fullnægja að öðru leyti skilyrðum sem sett eru í lögum og reglugerðum. Lagning vatnsæða utan húss skal vera í höndum þeirra sem að dómi vatnsveitu hafa þekkingu og reynslu til verksins.

22. gr. Lagning heimæðar.

Lóðarhafi við veg eða opið svæði þar sem dreifiæð liggur á rétt á að fá eina heimæð lagða frá vatnsveitulögn. Óski hann eftir að fá fleiri en eina heimæð af hagkvæmnisástæðum inn á lóðina skal hann hlíta þeim reglum um tæknileg atriði sem vatnsveita setur og skal sú heimæð kostuð af lóðarhafa og teljast hans einkaeign nema sérstakt samkomulag hafi verið gert um annað við vatnsveitu.

Sá, sem óskar eftir því að tengjast vatnsveitu eða að breytingar verði gerðar á heimæð vegna framkvæmda á hans vegum, skal sækja um það til vatnsveitu. Umsókn skal undirrituð af eiganda eða fullgildum umboðsmanni hans. Lega heimæðar frá lóðarmörkum skal koma fram á afstöðumynd sem fylgja skal umsókn. Enn fremur skal gera grein fyrir fyrirhugaðri stærð heimæðar og vatnsnotum.

Ef vatnsæðar hafa ekki verið lagðar í götu eða opið svæði þar sem óskað er eftir vatnsnotkun getur stjórn vatnsveitu sett það sem skilyrði fyrir lögn vatnsæðar að húseigandi/notandi taki þátt í kostnaði við lögnina.

23. gr. Tenging heimæðar.

Tenging vatnslagna við vatnsveitukerfi skal gerð í samræmi við tengiskilmála viðkomandi veitu eða sameiginlega tengiskilmála Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja, fyrir vatnsveitur.

Við hönnun húsa skal gera ráð fyrir og staðsetja á uppdrætti, sem lagður er fyrir byggingarnefnd, rými fyrir stofnloka heimæðar í samráði við byggingaryfirvöld sveitarfélags. Inntaksrými stofnloka skal uppfylla skilyrði byggingarreglugerðar, vera upphitað og aðgengilegt starfsmönnum vatnsveitunnar. Vatnsinntak skal að jafnaði vera á þeirri hlið húss sem snýr að vatnslögn þeirri sem leggja á heimæð frá nema vatnsveita samþykki annars konar fyrirkomulag.

Við ákvörðun heimæðargjalds, sbr. 15. gr., skal gera ráð fyrir að ídráttarrör sé fyrir hendi fyrir grennri heimæðar.Við nýbyggingu húss leggur vatnsveita hluta heimæðar frá dreifiæð inn fyrir lóðarmörk og setur þar tengiloka sem fasteignareiganda er heimilt í samvinnu við vatnsveitu að nota meðan á byggingu hússins stendur. Frá þessum tengiloka ber fasteignareiganda að leggja á frostfríu dýpi ídráttarrör að inntaksstað heimæðar samkvæmt samþykktri afstöðumynd. Til að unnt verði að ganga frá tengingu heimæðar við stofnloka húss skal skilja eftir holu við báða enda ídráttarrörs/heimæðar

Sé heimæð lögð inn í hús á þeim árstíma þegar frosthætta getur verið fyrir hendi getur vatnsveita krafist þess að fasteignareigandi komi hita á inntaksrými stofnloka.

Óheimilt er að hylja vatnslagnir áður en gerð hefur verið úttekt á þeim á vegum vatnsveitu.

24. gr. Vatnsþrýstingur.

Vatnsveitu er skylt að sjá um að nægilegt vatn og vatnsþrýstingur sé fyrir hendi til slökkvistarfs og fyrir sérstakan slökkvibúnað þar sem hans er krafist, enda verði því við komið. Ef þannig stendur á að dreifiæðar geta ekki séð fyrir því vatnsmagni, sem nauðsynlegt telst vegna vatnsúðakerfis eða sambærilegs búnaðar og brunamálayfirvöld gera kröfu til að sé fyrir hendi, getur stjórn vatnsveitu krafist þess að húseigandi komi fyrir vatnsmiðlunargeymi í húsinu eða öðrum viðeigandi búnaði. Dælur eða önnur tæki sem geta valdið óeðlilegri notkun vatns eða truflun í veitukerfi vatnsveitu má ekki tengja við heimæð nema að fengnu leyfi vatnsveitu.

Réttur til að tengjast vatnsveitu skuldbindur ekki vatnsveitu til þess að tryggja að þrýstingur í dreifiæðum sé ávallt nægilegur. Ef vatnsæðar hafa ekki verið lagðar þar sem eigandi óskar eftir vatnsnotkun eða þær vatnsæðar sem fyrir eru geta ekki séð atvinnufyrirtæki eða öðrum fyrir nægilegu vatni getur stjórn vatnsveitu sett það skilyrði fyrir lagningu vatnsæða að fyrir fram ákveðinn hluti kostnaðar við lagningu þeirra skuli endurgreiddur af eiganda fasteignarinnar. Sama gildir ef nauðsynlegt er vegna stærðar og/eða nýtingar fasteignar að auka vatnsmagn eða vatnsþrýsting til hennar.

25. gr. Vatnslagnir innanhúss.

Húseigandi á allar vatnslagnir innanhúss fyrir innan stofnloka og er skylt að halda þeim og vatnstækjum hússins vel við. Vatnsveitu er þó heimilt að setja upp nauðsynlegan búnað við stofnloka, svo sem síu, tengibút vegna uppsetningar rennslismælis og einstreymisloka.

Verði notandi uppvís að óhóflegri vatnsnotkun eða hann vanrækir viðhald á vatnslögnum og vatnstækjum innanhúss þannig að veldur sóun vatns getur vatnsveita krafist þess að úr því verði bætt. Verði eigandi ekki við kröfu um úrbætur getur stjórn vatnsveitu stöðvað sölu á vatni, sbr. 29. gr., eða krafist þess að notandi greiði gjald samkvæmt mæli fyrir notkun sem er umfram venjuleg heimilisnot.

Vatnsveita getur krafist þess að fyrirtæki sem nota mikið vatn afli sér sparneytnari véla eða setji upp geyma til söfnunar vatns að næturlagi.

26. gr. Eftirlit og viðhald heimæða.

Starfsmenn vatnsveitu skulu, eftir því sem nauðsyn krefur og að höfðu samráði við húseigendur, hafa aðgang að öllum vatnslögnum innanhúss til eftirlits. Húseigendum ber að gefa þeim upplýsingar um vatnslagnir og vatnsnotkun eftir því sem unnt er. Enn fremur skulu starfsmenn vatnsveitunnar hafa frjálsan aðgang að heimæð til viðhalds og eftirlits. Hið sama gildir um lönd þar sem vatnsæðar liggja.

Við lagningu heimæðar og viðhald hennar skulu starfsmenn vatnsveitunnar halda raski í lágmarki og ganga snyrtilega um. Sé nauðsynlegt vegna bilunar eða endurnýjunar á heimæð að grafa upp heimæðina er starfsmönnum vatnsveitu það heimilt, en að verki loknu skulu þeir færa lóð til fyrra horfs eins og unnt er. Starfsmönnum vatnsveitu er heimilt vegna endurnýjunar heimæðar að leggja hana á öðrum stað frá dreifiæð í hús, telji þeir það heppilegra til að forðast skemmdir. Enn fremur er starfsmönnum heimilt, að höfðu samráði við húseiganda, að fara með heimæð inn í hús á öðrum stað ef ekki er unnt að nota þann stað sem fyrir er nema valda miklu eða óbætanlegu tjóni. Hafi húseigandi gróðursett trjáplöntur, steypt veggi eða stæði yfir heimæð eða lagt yfir hana snjóbræðslukerfi ber vatnsveita ekki ábyrgð á því tjóni sem kann að verða vegna nauðsynlegra aðgerða vatnsveitu nema tjónið verði rakið til gáleysis starfsmanna vatnsveitu.

Eigandi fasteignar á ekki kröfu á sérstakri greiðslu fyrir óþægindi vegna lagningar eða viðhalds heimæðar.

27. gr. Brunahanar.

Vatnsveita skal koma fyrir brunahönum og annast viðhald þeirra og eftirlit í samráði við slökkviliðsstjóra.

Óheimilt er öðrum en slökkviliði og starfsmönnum vatnsveitunnar við störf þeirra að opna brunahana nema með sérstöku leyfi vatnsveitu.

Ef eldsvoða ber að höndum hafa slökkvilið, lögregla og starfsmenn vatnsveitu heimild til að gera hverjar þær ráðstafanir sem nauðsynlegar mega teljast, hvort heldur á vatnsæðum í eigu vatnsveitu eða einkaeign.

VI. KAFLI Ýmis ákvæði.

28. gr. Viðgerðir á veitukerfi.

Ef nauðsyn krefur, vegna viðgerða á dælustöðvum, vatnsgeymum, vatnsæðum og öðrum lögnum veitukerfis vatnsveitunnar eða af öðrum ástæðum, getur vatnsveitan fyrirskipað takmörkun á vatnsnotkun, takmarkað vatnsrennsli eða lokað fyrir vatn, eftir því sem þörf krefur hverju sinni, enda tilkynni vatnsveitan fyrirfram um slíkar takmarkanir ef unnt er.

Vatnsveita ber ekki fjárhagslega ábyrgð á tjóni er leiða kann af rekstrartruflunum sem verða vegna vinnu við veitukerfi vatnsveitunnar, rafmagnstruflana eða af öðrum óviðráðanlegum ástæðum nema tjónið verði rakið til gáleysis starfsmanna veitunnar.

29. gr. Innheimta o.fl.

Vatnsgjald og heimæðargjald ásamt áföllnum vöxtum og kostnaði eru tryggð með lögveðsrétti í fasteigninni næstu tvö ár eftir gjalddaga með forgangsrétti fyrir hvers konar samningsveði og aðfararveði. Ef hús brennur eftir að vatnsgjald eða heimæðargjald fellur í gjalddaga er sami forgangsréttur í brunabótafjárhæð eignarinnar.

Heimilt er að loka fyrir heimæðar hjá þeim sem vanrækja greiðslu notkunargjalds og gjald fyrir mælaleigu, að undangenginni skriflegri aðvörun. Notkunargjald og gjald fyrir mælaleigu má taka fjárnámi.

Heimilt er að stöðva vatnssölu til allra þeirra er vanrækja viðhald vatnslagna innanhúss, eru staðnir að sóun vatns eða brjóta gegn ákvæðum reglugerðar þessarar.

30. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er á grundvelli 11. gr. laga nr. 32/2004 um vatnsveitur sveitarfélaga, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð fyrir vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 421/1992, með síðari breytingum.

Félagsmálaráðuneytinu, 6. apríl 2005.

Árni Magnússon.

Guðjón Bragason.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.