Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 28. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 30. jan. 2004

291/1995

Reglugerð um veiðikort og hæfnispróf veiðimanna.

1. gr.

Í reglugerð þessari merkir:

Villt dýr: allir fuglar og spendýr, önnur en selir, hvalir, gæludýr og bústofn. Dýr, sem er handsamað og haft í haldi, telst villt.

Veiðar: að handsama eða drepa villt dýr. Þegar um er að ræða fuglaveiðar er einnig átt við eggjatöku.

Tjón af völdum villtra dýra: fjárhagslegt tjón sem einstaklingar, fyrirtæki eða aðrir verða fyrir, heilsufarslegt tjón fólks eða búfénaðar og tjón á náttúru landsins.

2. gr.

Allir sem stunda veiðar á villtum dýrum, öðrum en rottum og músum, sbr. lög nr. 64/1994, skulu afla sér veiðikorts. Veiðikort þarf ekki til eggjatöku.

Embætti veiðistjóra annast útgáfu veiðikorta.

3. gr.

Veiðikort veitir handhafa þess rétt til að stunda veiðar á villtum dyrum á Íslandi og í íslenskri efnahagslögsögu.

4. gr.

Gefa skal út þrenns konar veiðikort; almennt veiðikort, hlunnindakort fyrir þá sem eingöngu ætla að nýta hlunnindi sem þeir hafa rétt á að nýta (sbr. 18. gr. laga nr. 64/1994) eða til að verjast tjóni af völdum villtra dýra, og almennt veiði- og hlunnindakort, enda eigi korthafi rétt á almennu veiðikorti samkvæmt ákvæðum 9. og 11 gr. þessarar reglugerðar.

Einungis handhafar veiðikorta mega stunda skolveiðar, enda hafi þeir skotvopnaleyfi hér á landi.

Veiðikort skal veiðimaður bera á sér á veiðum, ásamt fullnægjandi persónuskilríkjum.

Landeigandi sem veitir heimild til veiða á sínu landi skal ganga úr skugga um að veiðimaður hafi gilt veiðikort.

5. gr.

Ábúendur hlunnindajarða og aðrir rétthafar hefðbundinna hlunninda sem nýta vilja hlunnindi býlanna eða verjast tjóni af völdum villtra dýra geta einir sótt um hlunnindakort eða almennt veiði- og hlunnindakort. Hvert hlunnindakort skal gefið út á nafn eins ábúenda lögbýlis eða rétthafa hlunninda og er hann handhafi kortsins. Ef hlunnindum lögbýla hefur verið skipt formlega skal hver rétthafi hlunninda sækja um hlunnindakort.

Hlunnindakort gilda fyrir eiganda eða ábúanda og það fólk sem honum er nauðsynlegt að hafa með sér við nýtingu hlunninda og verjast tjóni af völdum villtra dýra. Handhafi hlunnindakorts er ábyrgur fyrir framkvæmd veiðanna og að sjá um að útfylla veiðiskýrslu.

Sé hlunnindaréttur í eigu sveitarfélags, hlutafélags eða félagasamtaka þarf hver sá sem nýtir hlunnindi að hafa hlunnindakort og skila veiðiskýrslu.

Þegar hlunnindaréttur er í eigu sveitarfélags er veiðistjóra heimilt með sérstökum samningi að fela sveitarstjórn útgáfu hlunnindakorta sbr. 4. gr. til þeirra sem hlunnindin nýta, innheimtu gjalda fyrir hlunnindakort skv. 6. gr. og skil á veiðiskýrslum skv. 7. og 8. grein.

Við útgáfu hlunnindakorts skal ávallt liggja fyrir staðfesting á rétti umsækjanda til hlunnindanýtingar og skal eigandi afla staðfestingar viðkomandi sveitarstjórnar eða sýslumanns á rétti sínum.

Gjald fyrir hlunnindakort og almennt veiði- og hlunnindakort skal vera hið sama og fyrir almennt veiðikort og um endurnýjun þess gilda sömu reglur.

6. gr.

Veiðikort gildir að jafnaði í eitt ár í senn frá 1. apríl ár hvert.

Árlegt gjald fyrir veiðikort skal vera fimmtán hundruð krónur. Gjald þetta skal taka breytingum í samræmi við framfærsluvísitölu Hagstofu Íslands eins og hún er 1. janúar ár hvert, sbr. lög nr. 5/1984.

Gjald fyrir veiðikort skal renna í sjóð sem notaður skal til að greiða fyrir umsýslu á veiðikortum, rannsókna og stýringar á stofnum villtra dýra. Umhverfisráðherra ákveður hvernig sjóðnum skuli varið.

7. gr.

Veiðistjóraembættið leggur til eyðublöð fyrir veiðiskýrslu og umsókn um veiðikort sem send skulu í upphafi hvers árs til allra handhafa veiðikorta í landinu.

Í umsókn um veiðikort skal skrá nafn handhafa, kennitölu hans, heimilisfang og tegundir dýra sem handhafi óskar eftir að fá heimild til að veiða.

Sá sem óskar eftir að fá veiðikort sitt endurnýjað útfyllir og skrifar undir umsókn þess efnis, fyllir út veiðiskýrslu og sendir hvort tveggja til veiðistjóraembættisins. Þar er veiðiskýrslan skilin frá umsókninni og veiðimanni sent nýtt kort gegn póstkröfu.

Veiðistjóraembætti skal óheimilt, án leyfis korthafa, að skrá veiði þannig að hægt sé að rekja saman nafn korthafa og veiðiskýrslu hans.

Í veiðikorti skal koma fram nafn handhafa, kennitala hans, heimilisfang og þær tegundir dýra sem kortið veitir heimild til að veiða.

8. gr.

Veiðimaður skal skrá alla veiði sína á veiðiárinu og skila veiðiskýrslu árlega á þar til gerðu eyðublaði. Veiðiár telst vera frá 1. janúar til 31. desember.

Skilyrði fyrir endurnýjun veiðikorts er að veiðiskýrslu um veiði síðasta árs sé skilað með umsókn um endurnýjun á veiðikorti.

Handahafa veiðikorta ber að skila veiðiskýrslu þótt ekki sé óskað endurnýjunar á veiðikorti.

9. gr.

Rétt til að fá veiðikort öðlast menn sem hafa náð fullnægjandi árangri á hæfnisprófi fyrir verðandi veiðimenn sem umhverfisráðuneytið lætur halda árlega eða oftar í samvinnu við veiðistjóra.

Á hæfnisprófi (veiðiprófi) skal m.a. könnuð þekking manna á undirstöðuatriðum í stofnvistfræði, náttúruvernd, dýravernd, greiningu fugla og spendýra, hlunnindanýtingu, veiðisiðfræði, þekkingu manna á meðferð veiðitækja, sem og í lögum og reglum um ofangreind atriði. Umhverfisráðuneytið lætur útbúa námsefni fyrir hæfnispróf í samvinnu við veiðistjóra.

Umhverfisráðuneytið gengst fyrir námsskeiðum eða felur öðrum framkvæmd og umsjón hæfnisprófa og námskeiða. Heimilt er að fella þessa fræðslu inn í námskeið fyrir umsækjendur um byssuleyfi með samvinnu við lögregluyfirvöld.

Líði 10 ár án þess að veiðikort sé endurnýjað þarf umsækjandi að gangast undir hæfnispróf að nýju og ná þar fullnægjandi árangri áður en nýtt veiðikort er gefið út.

10. gr.

Erlendir ríkisborgarar, sem ekki hafa lögheimili hér á landi, geta fengið veiðikort sem gildir skemur en eitt ár og stundað veiðar á eignarlöndum að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:

i. Viðkomandi hafi sambænleg réttindi til veiða í sínu heimalandi og krafist er hér að mati veiðistjóra, svo sem veiðikort eða heimild til veiða.

ii. Viðkomandi hafi fullnægjandi þekkingu á þeim reglum sem gilda hér á landi um veiðar á villtum dýrum.

Þeir sem sækja um veiðikort samkvæmt 1. mgr. skulu sýna fram á að þeir uppfylli skilyrði laga um skotvopn, sprengiefni og skotelda nr. 46/1977 með áorðnum breytingum og reglugerða settum samkvæmt þeim áður en þeir fá veiðikort afhent.

Veiðistjóri getur telji hann ástæðu til sett sem skilyrði að handhafi veiðikorts skv. þessari grein sé í fylgd manns sem hefur gilt veiðikort og lögheimili hér á landi.

Fyrir brottför af landinu skal handhafi veiðikorts samkvæmt 1. mgr. skila veiðiskýrslu, óháð því hver veiði hans var.

11. gr.

Brot gegn reglugerð þessari varða sektum, varðhaldi eða fangelsi og sviptingu skotvopna- og veiðileyfis. Virða skal það refsingu til þyngingar ef um sjaldgæfar eða fágætar fuglategundir er að ræða, sbr. 7. gr. laga nr. 64/1994.

Tilraun til brota gegn reglugerð þessari varðar refsingu sem fullframið brot, sbr. III. kafla almennra hegningarlaga. Hið sama gildir um hlutdeild í brotum.

Gera má upptækt til ríkissjóðs: Ólöglegt veiðifang, veiðitæki og annan búnað sem notaður hefur verið við framkvæmd brots, svo og hagnað af ólöglegri veiði og sölu framangreindra verðmæta. Ekki er það upptöku til fyrirstöðu þótt annar sé eigandi veiðitækis eða annars sem upptaka er heimil á en sá sem sekur hefur reynst um brot á ákvæðum reglugerðarinnar. Að öðru leyti skal fara um eignaupptöku samkvæmt ákvæðum 69. gr. laga nr. 19/1940.

12. gr.

Mál út af brotum gegn reglugerð þessari skulu rekin að hætti opinberra mála.

13. gr.

Reglugerðin tekur gildi þegar við birtingu hennar og um leið falla úr gildi eldri reglugerðir sem fjalla um veiðikort og settar eru á grundvelli laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

Ákvæði til bráðabirgða: Þeir sem hafa skotvopnaleyfi eða eru handhafar veiðiréttar eða hlunninda skv. 18. gr. laga nr. 64/1994 eiga rétt á veiðikorti skv. 4. gr. án þess að taka veiðipróf sæki þeir um slíkt fyrir 1. apríl 1996. Að öðrum kosti gilda um þá ákvæði 9. greinar reglugerðarinnar.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þeir sem hafa skotvopnaleyfi eða eru handhafar veiðiréttar eða hlunninda skv. 18. gr. laga nr. 64/1994, eiga rétt á veiðikorti skv. 4. gr. án þess að taka veiðipróf sæki þeir um slíkt fyrir 31. ágúst 1996. Að öðrum kosti gilda um þá ákvæði 9. gr. reglugerðarinnar.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.