Fara beint í efnið

Prentað þann 18. apríl 2024

Stofnreglugerð

241/2018

Reglugerð um rétt lögmanna frá öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu til að veita þjónustu hér á landi.

I. KAFLI Inngangur og skilgreiningar.

1. gr.

Lögmaður, sem hefur öðlast starfsréttindi í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) getur til frambúðar veitt hér á landi viðvarandi lögmannsþjónustu, bæði sjálfstætt og sem launamaður, undir starfsheiti heimalands síns.

Með lögmanni er í reglugerð þessari átt við hvern þann sem er ríkisborgari í öðru EES-ríki og rétt hefur til að starfa undir einhverju eftirtalinna starfsheita:

í Austurríki Rechtsanwalt
í Belgíu Avocat/Advocaat/Rechtsanwalt
í Búlgaríu Aдвокат
í Danmörku Advokat
í Eistlandi Vandeadvokaat
í Finnlandi Asianajaja/Advocat
í Frakklandi Avocat
í Grikklandi Dikhgoroq (Dikigoros)
í Hollandi Advocaat
í Írlandi Barrister/Solicitor
á Ítalíu Avvocato
í Króatíu Odvjetnik/Odvjetnica
á Kýpur Δικηγόροç
í Lettlandi Zvērinats advokāts
í Liechtenstein Rechtsanwalt
í Litháen Advokatas
í Luxembourg Avocat
á Möltu Avukat/Prokuratur Legali
í Noregi Advokat
í Portúgal Advogado
í Póllandi Adwokat/Radca prawny
í Rúmeníu Avocat
í Slóveníu Odvetnik/Odvetnica
í Slóvakíu Advokát/Komerčný právnik
á Spáni Abogado/Advocat/Avogado/Abokatu
á Stóra-Bretlandi Advocate/Barrister/Solicitor
í Svíþjóð Advokat
í Tékklandi Advokát
í Ungverjalandi Ügyvéd
í Þýskalandi Rechtsanwalt

Með heimalandi er í reglugerð þessari átt við aðildarríki þar sem lögmaðurinn öðlaðist rétt til að nota eitthvert þeirra starfsheita sem talin eru upp í 2. mgr. áður en hann hóf lögmannsþjónustu í öðru aðildarríki.

Með lögmannahópi er í reglugerð þessari átt við einingu, hvort sem hún er persóna að lögum eða ekki, sem stofnuð er í samræmi við löggjöf í aðildarríki og þar sem fleiri lögmenn stunda lögmannsþjónustu saman undir sameiginlegu heiti.

Lögmannsþjónusta samkvæmt reglugerð þessari tekur ekki mið af þeirri sérhæfðu þjónustustarfsemi sem fellur undir tilskipun 77/249/EBE um að auðvelda lögmönnum að neyta réttar til að veita þjónustu.

II. KAFLI Starf undir starfsheiti heimalands.

2. gr.

Lögmaður sem hyggst starfa hér á landi skv. 1. gr. skal tilkynna til sýslumannsins á Norðurlandi eystra um að hann óski eftir skráningu hér á landi.

Tilkynningunni skal fylgja staðfesting á skráningu lögmannsins hjá lögbæru yfirvaldi í heimalandi hans. Staðfestingin má ekki vera meira en þriggja mánaða gömul þegar tilkynning berst. Lögmaður skal upplýsa í skráningartilkynningu hvort hann tilheyri lögmannahópi í heimalandi sínu og skulu þá upplýsingar um lögmannahópinn fylgja. Einnig skal hann tilkynna til sýslumanns ef hann síðar gerist félagi í lögmannahópi í heimalandi sínu.

Uppfylli lögmaður skilyrði til skráningar skal hann færður á skrá sýslumanns yfir EES-lögmenn sem starfa hér á landi undir sínum heimatitli.

3. gr.

Sýslumaður tilkynnir Lögmannafélagi Íslands um þá lögmenn sem færðir eru á skrá skv. 2. gr. og skulu þeir skráðir sem félagsmenn í Lögmannafélagi Íslands með þeim réttindum og skyldum sem því fylgir. Lögmannafélag Íslands hefur eftirlit með þeim lögmönnum sem skráðir eru samkvæmt reglugerð þessari og starfa hér á landi. Ber þeim að starfa í samræmi við starfs- og siðareglur íslenskra lögmanna.

Sýslumaður tilkynnir einnig lögbæru yfirvaldi í heimalandi lögmannsins um skráningu hans.

4. gr.

Lögmaður sem veitir lögmannsþjónustu hér á landi samkvæmt reglugerð þessari undir starfsheiti heimalands síns hefur heimild til að veita ráðgjöf varðandi réttarkerfi heimalandsins, réttarkerfið hér á landi, Evrópurétt og þjóðarétt. Hann skal í öllum tilvikum fara að gildandi málsmeðferðarreglum hér á landi.

Lögmaður sem veitir þjónustu hér á landi samkvæmt reglugerð þessari getur gætt hagsmuna málsaðila fyrir dómstóli hér á landi sem svarar til dómstóls þess sem hann hefur réttindi fyrir í heimalandi sínu.

5. gr.

Lögmenn sem skráðir eru skv. reglugerð þessari skulu fullnægja skyldu sinni til að hafa starfsábyrgðartryggingu, annaðhvort með tryggingu hjá vátryggingafélagi sem hefur starfsleyfi hér á landi eða með ábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélagi í heimalandi sínu, sem veitir a.m.k. samsvarandi tryggingarvernd og sú ábyrgðartrygging sem íslenskum lögmönnum ber að hafa skv. reglugerð um starfsábyrgðartryggingar lögmanna.

6. gr.

Lögmaður skal við störf sín undir starfsheiti heimalands síns tilgreina á greinilegan hátt starfsheiti sitt í heimalandi sínu á opinberu tungumáli heimalandsins. Hann skal einnig tilgreina hvaða fagfélagi hann tilheyrir í heimalandi sínu og hjá hvaða lögbæru yfirvaldi hann er þar skráður.

Lögmaður sem tilgreinir heiti lögmannahóps sem hann tilheyrir í heimalandi sínu skal tilgreina það félagsform sem sá lögmannahópur hefur. Hann skal einnig tilgreina nöfn þeirra manna úr lögmannahópnum sem starfa hér á landi.

7. gr.

Um niðurfellingu skráningar lögmanns sem starfar hér samkvæmt 2. gr. gilda ákvæði 13.-17. gr. laga um lögmenn eftir því sem við á. Sýslumaður skal tilkynna lögbæru yfirvaldi í heimaríkinu um niðurfellinguna.

Sýslumaður fellir niður skráningu lögmanns hér á landi skv. 2. gr. ef lögbært yfirvald í heimalandi lögmannsins afturkallar starfsréttindi hans tímabundið eða varanlega.

8. gr.

Lögmannafélag Íslands skal tilkynna sýslumanni um kvartanir sem úrskurðarnefnd félagsins berast um störf lögmanns sem starfar skv. 2. gr. Sýslumaður skal tilkynna lögbæru yfirvaldi í heimalandi lögmannsins um slíkar kvartanir varðandi störf hans.

Ef lögmaður, sem hefur íslensk málflutningsréttindi en er jafnframt skráður starfandi í öðru aðildarríki, sætir kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna eða í ljós kemur við eftirlit Lögmannafélags Íslands að hann uppfyllir ekki skilyrði fyrir málflutningsréttindum skal sýslumaður tilkynna það lögbæru yfirvaldi í því aðildarríki sem lögmaðurinn er skráður.

III. KAFLI Öflun íslenskra málflutningsréttinda.

9. gr.

Lögmaður sem veitir þjónustuhér á landi undir starfsheiti heimalands síns og sannar fyrir sýslumanni að hann hafi í minnst þrjú ár reglubundið og með virkum hætti starfað við íslenskt réttarkerfi, þ.m.t. við EES-rétt, skal undanþeginn skilyrðum sem ákveðin eru í b-lið 1. mgr. 4. gr. í tilskipun 89/48/EBE, sbr. reglugerð um veitingu málflutningsréttinda fyrir héraðsdómstólum til erlendra lögmanna, þegar hann leitar eftir málflutningsréttindum hér á landi. Í því að hafa starfað "reglubundið og með virkum hætti" felst að starfa samfellt og einungis með þeim hléum sem eðlilegt og venjulegt má teljast.

Sá sem leitar eftir málflutningsréttindum á grundvelli þessarar undanþágu skal leggja fram upplýsingar um störf sín, gögn um þau mál sem hann hefur annast og eðli þeirra. Sýslumanni er heimilt að kanna upplýsingarnar og gögnin og hvort starfið hefur verið reglubundið og virkt og getur krafið lögmanninn um nánari skýringar, bæði munnlega og skriflega, um gögnin.

Uppfylli lögmaðurinn að mati sýslumanns skilyrði 1. mgr. veitir sýslumaður honum málflutningsréttindi fyrir héraðsdómstólum og gefur út leyfisbréf honum til handa í samræmi við 8. gr. laga um lögmenn.

Synji sýslumaður lögmanninum um málflutningsréttindi á grundvelli starfa hans hér á landi skal synjunin rökstudd. Synjun sýslumanns er kæranleg til dómsmálaráðuneytisins.

10. gr.

Lögmanni sem veitir þjónustu undir starfsheiti heimalands og sannar fyrir sýslumanni að hann hafi í minnst þrjú ár reglubundið og með virkum hætti veitt lögmannsþjónustu hér á landi en þó í skemmri tíma starfað við íslenskt réttarkerfi má veita málflutningsréttindi hér á landi án þess að hann þurfi að uppfylla þau skilyrði sem kveðið er á um í b-lið 1. mgr. 4. gr. í tilskipun 89/48/EBE, sbr. reglugerð um veitingu málflutningsréttinda fyrir héraðsdómstólum til erlendra lögmanna.

Sá sem leitar eftir málflutningsréttindum á grundvelli þessarar undanþágu skal leggja fram upplýsingar um störf sín og gögn um þau mál sem hann hefur annast og eðli þeirra.

Meta skal hvort lögmaðurinn hafi reglubundið og með virkum hætti veitt þá þjónustu sem greinir í 1. mgr. Einnig skal kanna og taka tillit til þess við matið í hvaða mæli lögmaðurinn hefur þekkingu á og reynslu af íslenska réttarkerfinu, svo og þátttöku hans í námskeiðum og ráðstefnum um íslenska réttarkerfið.

Mat á því hvort lögmaðurinn hafi veitt þjónustu reglubundið og með virkum hætti skal gert með viðtali hjá sýslumanni.

Uppfylli lögmaðurinn skilyrði greinar þessarar getur sýslumaður veitt honum málflutningsréttindi fyrir héraðsdómstólum og gefið út leyfisbréf honum til handa í samræmi við 8. gr. laga um lögmenn.

Synji ráðherra lögmanninum um málflutningsréttindi á grundvelli starfa hans hér á landi skal synjunin rökstudd. Synjun sýslumanns er kæranleg til dómsmálaráðuneytisins.

IV. KAFLI Lögmannahópar.

11. gr.

Lögmenn sem skráðir eru samkvæmt 2. gr. geta veitt lögmannsþjónustu í samstarfi við aðra lögmenn eða í lögmannahópi. Lögmannsþjónustu má veita í félagi við lögmenn úr sama lögmannahópi eða úr sama heimalandi, í félagi við lögmenn frá mismunandi aðildarríkjum eða lögmenn frá öðrum aðildarríkjum og íslenska lögmenn.

Um starfsemi lögmannahópa gildi ákvæði 19. gr. laga um lögmenn eftir því sem við á.

12. gr.

Lögmenn, einn eða fleiri, sem veita hér þjónustu samkvæmt 2. gr. og koma frá sama lögmannahópi geta starfað hér á landi hjá umboðsskrifstofu eða útibúi frá þeim lögmannahópi.

Séu meginreglur um lögmannahóp í heimalandi ósamrýmanlegar laga- eða reglugerðarákvæðum um lögmannahópa hér á landi skulu hérlend ákvæði gilda að því marki sem þau byggja á þjóðfélagslegum markmiðum sem miða að vernd viðskiptamanna og þriðja manns.

13. gr.

Heimild skv. 11. og 12. gr. til að veita þjónustu hér á landi tekur ekki til lögmanna sem starfa hér á landi sem félagar í lögmannahópi ef í hópnum eru aðilar sem ekki eru lögmenn.

Lögmannahópur fellur undir 1. mgr. ef í honum eru aðilar sem ekki falla undir skilgreiningu 1. gr. og:

  1. Eiga allt eigið fé lögmannahópsins eða hluta þess,
  2. nota það heiti sem lögmannahópurinn starfar undir, eða
  3. eru ráðandi um stjórn hópsins.

V. KAFLI Refsi- og gildistökuákvæði.

14. gr.

Óheimilt er þeim sem ekki hefur fengið starfsleyfi sem lögmaður, sbr. 1. gr., að nota þau starfsheiti sem þar eru talin upp eða annað heiti sem skilja má sem slíkt. Sama gildir um þann sem misst hefur heimild til að starfa sem lögmaður eða látið hefur af störfum. Brot gegn þessu ákvæði varðar sektum.

15. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 2. mgr. 1. gr. og 5. mgr. 6. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998, til innleiðingar á tilskipun nr. 98/5/EB, sem vísað er til í 2. tl. a. VII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 896/2004 um rétt lögmanna frá öðru EES-ríki til að veita þjónustu hér á landi, með síðari breytingum.

Dómsmálaráðuneytinu, 26. febrúar 2018.

Sigríður Á. Andersen.

Haukur Guðmundsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.