Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

241/2009

Reglugerð um matsnefnd leikskóla-, grunnskóla- og framhaldsskólakennara.

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr. Gildissvið og hlutverk.

Reglugerð þessi tekur til starfshátta matsnefndar leikskóla-, grunnskóla- og framhaldsskólakennara þegar vafi leikur á hvort uppfyllt séu skilyrði til útgáfu leyfis menntamálaráðherra vegna umsókna um að mega nota starfsheitið leikskólakennari, grunnskólakennari eða framhaldsskólakennari, sbr. 3., 4. og 5. gr. laga nr. 87/2008 um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leik-, grunn- og framhaldsskóla.

Matsnefndin veitir menntamálaráðherra umsögn um hvort umsækjandi uppfylli skilyrði um útgáfu leyfis til þess að mega nota tilgreint starfsheiti kennara.

Með einingum er í reglugerð þessari átt við ECTS-einingar eða staðlaðar námseiningar, sbr. lög nr. 63/2006 um háskóla.

2. gr. Skipun matsnefndar.

Ráðherra skipar matsnefnd leikskóla-, grunnskóla- og framhaldsskólakennara til fjögurra ára í senn. Nefndin skal skipuð fimm fulltrúum, einum fulltrúa tilnefndum af samstarfsnefnd um háskólastigið, tveimur fulltrúum tilnefndum af heildarsamtökum kennara, einum fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga og einum fulltrúa án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar. Jafnmarga varamenn skal skipa á sama hátt.

II. KAFLI Skilyrði.

3. gr. Leikskólakennari.

Um skilyrði þess að hljóta starfsheitið leikskólakennari fer samkvæmt 3. gr. laga nr. 87/2008 og 23. gr. sömu laga.

Leyfi til þess að nota starfsheitið leikskólakennari má aðeins veita þeim sem lokið hefur meistaraprófi frá háskóla sem ráðherra viðurkennir til kennslu á leikskólastigi eða öðru námi sem jafngildir slíku prófi.

Ennfremur má veita þeim leyfi til þess að nota starfsheitið leikskólakennari sem lokið hefur námi til þess að hljóta starfsheitið grunnskólakennari, sbr. 4. gr. og a.m.k. 60 eininga viðbótarmenntun í stjórnun eða sérkennslu.

Fram til 1. júlí 2011 er heimilt að veita þeim leyfi til þess að hljóta starfsheitið leikskólakennari, sem hafa a.m.k. lokið:

  1. námi frá viðurkenndri kennaramenntunarstofnun í leikskólakennarafræðum; eða
  2. öðru jafngildu námi í leikskólakennarafræðum, sem hefur það að markmiði að veita undirbúning til kennslu á leikskólastigi miðað við aðalnámskrá leikskóla; eða
  3. fagmenntun í kennslufræðum eða annarri menntunarfræði auk viðbótarmenntunar í leikskólakennarafræðum.

4. gr. Grunnskólakennari.

Um skilyrði þess að hljóta starfsheitið grunnskólakennari fer samkvæmt 1. - 4. tölul. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 87/2008 og 23. gr. sömu laga.

Leyfi til þess að nota starfsheitið grunnskólakennari má aðeins veita þeim sem lokið hefur meistaraprófi frá háskóla sem ráðherra viðurkennir til kennslu á grunnskólastigi eða öðru námi sem jafngildir slíku prófi. Leyfi til þess að nota starfsheitið grunnskólakennari má ennfremur veita þeim sem lokið hefur:

  1. meistararéttindum í iðngrein sem nýtist til kennslu á grunnskólaskólastigi í skilgreindri námsgrein eða á skilgreindu námssviði, auk 60 eininga náms í kennslu- og uppeldisfræði; eða
  2. prófi í listgrein, tæknigrein eða verkgrein sem nýtist til kennslu á grunnskólastigi í tiltekinni námsgrein, námssviði eða aldursstigi. Skal menntun a.m.k. vera 270-300 einingar, þar af að lágmarki 60 einingar í kennslu- og uppeldisfræði; eða
  3. námi er veitir rétt til að hljóta starfsheitið leikskólakennari, sbr. 3. gr. og a.m.k. 60 eininga viðbótarmenntun í stjórnun eða sérkennslu.

Fram til 1. júlí 2011 er heimilt að veita þeim leyfi til þess að hljóta starfsheitið grunnskólakennari, sem hafa a.m.k. lokið:

  1. námi frá kennaramenntunarstofnun í grunnskólakennarafræðum, þ. á m. eru próf frá Kennaraskóla Íslands, B.Ed.-prófi eða hærri prófgráðu frá Kennaraháskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri eða öðrum háskólum, sbr. lög um háskóla; eða
  2. BA-prófi, BS-prófi eða hærri prófgráðu frá háskóla, sbr. lög um háskóla í kennslugrein ásamt fullgildu námi í kennslu- og uppeldisfræði til kennsluréttinda; eða
  3. öðru jafngildu námi, sem hefur það að markmiði að veita undirbúning til kennslu á grunnskólastigi miðað við aðalnámskrá grunnskóla.

5. gr. Framhaldsskólakennari.

Um skilyrði til þess að hljóta starfsheitið framhaldsskólakennari fer samkvæmt 1. - 4. tölul. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 87/2008 og 23. gr. sömu laga.

Leyfi til þess að nota starfsheitið framhaldsskólakennari má aðeins veita þeim sem lokið hefur meistaraprófi frá háskóla sem ráðherra viðurkennir til kennslu á framhaldsskólastigi eða öðru námi sem jafngildir slíku prófi. Leyfi til þess að nota starfsheitið framhaldsskólakennari má ennfremur veita þeim sem lokið hefur:

  1. meistararéttindum í iðngrein sem nýtist til kennslu á framhaldsskólastigi í skilgreindri námsgrein eða á skilgreindu námssviði, auk 60 eininga náms í kennslu- og uppeldisfræði; eða
  2. prófi í listgrein, tæknigrein eða verkgrein sem nýtist til kennslu á framhaldsskólastigi í skilgreindri námsgrein eða á skilgreindu námssviði. Skal menntun a.m.k. vera 270-300 einingar, þar af að lágmarki 60 einingar í kennslu- og uppeldisfræði.

Fram til 1. júlí 2011 er heimilt að veita þeim leyfi til þess að hljóta starfsheitið framhaldsskólakennari, sem hafa a.m.k. lokið:

  1. námi á háskólastigi sem veitir undirbúning til kennslu í faggrein eða á fagsviði framhaldsskóla og jafngildir a.m.k. 180 einingum ásamt fullgildum lokaprófum; þar af skulu eigi færri en 120 einingar vera í aðalgrein. Til viðbótar komi 60 eininga nám í kennslufræðum; eða
  2. námi á háskólastigi sem veitir undirbúning til kennslu í faggrein eða á fagsviði framhaldsskóla og jafngildir 240 einingum ásamt fullgildum lokaprófum; þar af skulu 120 einingar vera í aðalgrein. Til viðbótar komi 30 eininga nám í kennslufræðum til kennsluréttinda; eða
  3. öðru jafngildu námi á fræðasviði sem viðurkennt er til kennslu í framhaldsskólum eða hefur að markmiði að veita undirbúning til kennslu á framhaldsskólastigi samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla.

III. KAFLI Málsmeðferð.

6. gr. Mat á umsóknum.

Matsnefndin metur umsóknir með hliðsjón af kröfum laga nr. 87/2008 og reglugerðar þessarar. Telji nefndin að umsækjandi uppfylli ekki skilyrði um veitingu leyfis til að mega starfa sem kennari á umræddu skólastigi skal í rökstuðningi tilgreina hverjar kröfur séu gerðar um útgáfu leyfisbréfs og að hvaða leyti skorti á að umsækjandi uppfylli þær. Um málsmeðferð fer að öðru leyti samkvæmt stjórnsýslulögum, nr. 37/1993.

Fram til 1. júlí 2011 er við mat á tilskildu námi í uppeldis- og kennslufræðum, þeirra sem lokið hafa bakkalárprófi, sbr. 3. mgr. 23. gr. laga nr. 87/2008, heimilt að meta kennslureynslu til 30 eininga af 60 eininga námi í uppeldis- og kennslufræðum enda hafi viðkomandi að minnsta kosti 5 ára starfsreynslu sem kennari og hafi náð góðum árangri í kennslu að mati viðkomandi skólastjórnanda.

7. gr. Afgreiðslufrestur.

Matsnefndin skal láta í té umsögn sína eins fljótt og verða má, að jafnaði innan fjögurra vikna frá því að umsókn ásamt fullnægjandi gögnum barst henni í hendur. Sé mál viðamikið og fyrirsjáanlegt að afgreiðsla taki lengri tíma skal nefndin tilkynna hlutaðeigandi það og tilgreina hvenær afgreiðslu sé að vænta.

IV. KAFLI Gildistaka o.fl.

8. gr. Um útgáfu leyfisbréfa samkvæmt eldri lögum.

Umsækjandi um leyfi til þess að nota starfsheiti leikskólakennara, grunnskólakennara eða framhaldsskólakennara, og hefur innritað sig í nám til kennsluréttinda fyrir 1. júlí 2008, getur óskað eftir því að um útgáfu leyfisbréfs fari samkvæmt lögum nr. 86/1988, um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra eða prófum sem tryggðu leikskólakennurum kennsluréttindi fyrir gildistöku laganna, enda hafi hann lokið námi sínu fyrir 1. júlí 2011.

9. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 7. gr. laga nr. 87/2008 um menntun kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, öðlast þegar gildi.

Reglugerðin skal endurskoðuð fyrir 1. júlí 2011 þegar ákvæði 3., 4. og 5. gr. laga nr. 87/2008 hafa komið að fullu til framkvæmda, sbr. 23. gr. þeirra laga.

Menntamálaráðuneytinu, 27. febrúar 2009.

Katrín Jakobsdóttir.

Halldór Árnason.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.